Dýrari mjólk Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni eru mjólkurvörur um 2% af útgjöldum heimilisins.
Dýrari mjólk Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni eru mjólkurvörur um 2% af útgjöldum heimilisins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is 14,6% HÆKKUN á mjólkurverði til bænda þýðir að verð á mjólkurlítra til neytenda fer upp í tæplega 100 krónur en hann er um 87 krónur í dag.
Eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

14,6% HÆKKUN á mjólkurverði til bænda þýðir að verð á mjólkurlítra til neytenda fer upp í tæplega 100 krónur en hann er um 87 krónur í dag. Fara þarf áratugi aftur í tímann til að finna álíka mikla hækkun á mjólkurverði en hún er tilkomin fyrst og fremst vegna mikillar hækkunar á áburði, fóðri og fjármagnskostnaði.

Það er verðlagsnefnd búvara sem tekur ákvörðun um breytingar á heildsöluverði mjólkur en í nefndinni sitja m.a. fulltrúar bænda og neytenda. Niðurstaða nefndarinnar var að hækka mjólkurverð til bænda um 14 kr. á lítra eða um 14,6%. Hækkunin tekur gildi 1. apríl nk. Þá hækkar vinnslu- og dreifingarkostnaðar mjólkur einnig um 2,20 kr. á hvern lítra.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni eru mjólkurvörur um 2% af útgjöldum heimilisins. Til samanburðar má nefna að bensín og olía eru 4,4% af útgjöldum heimilisins.

Slæm afkoma hjá bændum

Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, sagði að þær hækkanir á mjólkurverði sem nú hefðu verið ákveðnar tækju nokkurn veginn á þeim kostnaðarhækkunum sem nefndin hefði mælt á þeim gögnum sem hún hefði aflað sér. Það væru hins vegar fágætir óvissutímar í efnahagsmálum og viss hætta á að kostnaður við framleiðsluna ætti eftir að aukast enn. Ef gengi krónunnar kæmi ekki meira til baka væri ljóst að aðföng til landbúnaðar myndu halda áfram að hækka. Gengi hefði mikil áhrif á kjarnfóðurverð, sömuleiðis vélakostnað og olíuverð. Þá hefði Áburðarverksmiðjan boðað hækkun á áburði í byrjun apríl en aðrir innflytjendur ætluðu ekki að hækka. Þórólfur kvaðst því vona að áburðarkostnaður bænda á þessu vori myndi ekki hækka mikið til viðbótar við þau 80% sem þeir hefðu þegar þurft að taka á sig.

Þórólfur sagði að fara þyrfti marga áratugi aftur í tímann til að finna viðlíka mikla hækkun á mjólkurverði. Hann sagði 14 kr. hækkun gefa til kynna að afkoma bænda undanfarna mánuði væri búin að vera afar slæm. Hann sagðist ekki geta svarað því hvort þessi slæma afkoma hefði leitt til þess að einhverjir hefðu hætt búskap. Bændur sem skulduðu mjög mikið væru a.m.k. í afar erfiðri stöðu.

Sat hjá við afgreiðsluna

Verðlagsnefnd tók í ákvörðun sinni tillit til mikillar hækkunar á fjármagnskostnaði bænda. Björn Snæbjörnsson, fulltrúi ASÍ í nefndinni, sat hjá við afgreiðsluna. Hann sagði að vaxtakostnaður í landinu hefði vissulega hækkað mikið en hann sagðist ekki geta fallist á að bændur ættu að fá hann bættan þar sem almenningur í landinu þyrfti að bera þennan kostnað. Hann benti á að af þessari 14 króna hækkun sem bændur fengju væru fimm krónur tilkomnar vegna fjármagnskostnaðar bænda. Þetta væru því umtalsverðir fjármunir sem neytendur þyrftu að taka á sig. Björn sagðist hafa verið tilbúinn til að fallast á hækkun mjólkur vegna verðhækkunar á áburði og fóðri en niðurstaða sín hefði verið að sitja hjá við afgreiðslu málsins vegna ágreinings um fjármagnskostnaðinn.

Þórólfur sagði að bændur hefðu meðan Stofnlánadeild landbúnaðarins var við lýði búið við nokkuð stöðugan fjármagnskostnað. Eftir að hún var seld hefði vaxtakostnaður í landinu lækkað en frá miðju ári 2007 hefði hann aukist gríðarlega. Í reynd mætti segja að nefndin hefði átt að vera búin að taka tillit til þessa kostnaðar.

Þórólfur sagðist vonast eftir að ekki þyrfti að koma til frekari breytinga á mjólkurverði á þessu ári. Verðlagsnefnd búvara hækkaði verð til bænda síðast um áramót. Þá hækkaði verðið um 70 aura. Fyrr á síðasta ári hækkaði nefndin verð til bænda um 1,80 kr. Samtals fengu bændur því hækkun sem nam 2,50 krónum í fyrra.

Í hnotskurn
» Beingreiðslur til bænda breytast ekkert við þessa hækkun til bænda og því aukast útgjöld ríkissjóðs ekkert við breytinguna.
» Fyrir hækkun fengu bændur 50 kr. fyrir mjólk frá afurðastöð og 40 kr. úr ríkissjóði. Nú fá þeir 64 kr. frá afurðastöð og 40 kr. frá ríkinu.
» Í nefndinni sitja fimm menn, fulltrúi frá ASÍ og BSRB og tveir fulltrúar bænda en formaðurinn er skipaður af ráðherra.
» Fulltrúar bænda, ríkisins og BSRB samþykktu að hækka mjólk um 14,6% en fulltrúi ASÍ sat hjá.