Guðrún Kvaran fæddist í Reykjavík 15. mars 1921. Hún lést á bráðadeild Landspítalans 15. mars síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík 28. mars.

Elsku amma Lilla, með söknuði í hjarta þökkum við allar góðu stundirnar sem við höfum átt saman.

Þín náðin, Drottinn, nóg mér er,

því nýja veröld gafstu mér,

í þinni birtu' hún brosir öll,

í bláma sé ég lífsins fjöll.

Ég veit, að þú ert þar og hér,

hjá þjóðum himins, fast hjá mér,

ég veit þitt ómar ástarmál

og innst í minni veiku sál.

Ef gleðibros er gefið mér,

sú gjöf er, Drottinn, öll frá þér,

og verði' af sorgum vot mín kinn,

ég veit, að þú ert faðir minn.

Þín náðin, Drottinn, nóg mér er,

því nýja veröld gafstu mér.

Þótt jarðnesk gæfa glatist öll,

ég glaður horfi' á lífsins fjöll.

(Einar H. Kvaran.)

Minning þín lifir í hjarta okkar.

Bertha Guðrún, Ragna Elíza, Thelma Kristín

og fjölskyldur.

Þitt bros og blíðlyndi lifir

og bjarma á sporin slær,

það vermir kvöldgöngu veginn,

þú varst okkur stjarna skær.

Þitt hús var sem

helgur staður,

hvar hamingjan

vonir ól.

Þín ástúð til okkar streymdi

sem ylur frá

bjartri sól.

Þín milda og fagra minning

sem morgunbjart sólskin er.

Þá kallið til okkar kemur,

við komum á eftir þér.

(F.A.)

Elsku amma Lilla.

Við kveðjum þig með miklum söknuði, um leið og við þökkum fyrir allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman. Það fyrsta sem kemur upp í huga okkar, þegar við hugsum til þín, eru orð eins og virðing og hlýja. Með þinni einlægni og hlýju fékkstu alla til að brosa og líða svo vel í kringum þig. Þú vildir allt fyrir alla gera, umhyggjan var svo mikil.

Minning um yndislega ömmu og langömmu, sem við söknum mikið, mun lifa í hjörtum okkar alla ævi.

Guðrún Kvaran,

Örvar Sær, Elvar Þorri

og Sara Dögg.