1. apríl 2008 | Erlendar fréttir | 249 orð

„Hægagangur veldur ólgu meðal fólksins“

Kosningatalning í Simbabve þykir taka of langan tíma

Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur jmv@mbl.is ÞRÝSTINGUR á stjórnvöld í Simbabve til að birta niðurstöður kosninga sem fyrst jókst stöðugt í gær. Fyrstu niðurstöður úr 66 kjördæmum voru birtar í gærmorgun, 36 tímum eftir að kjörstöðum hafði verið lokað.
Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur

jmv@mbl.is

ÞRÝSTINGUR á stjórnvöld í Simbabve til að birta niðurstöður kosninga sem fyrst jókst stöðugt í gær. Fyrstu niðurstöður úr 66 kjördæmum voru birtar í gærmorgun, 36 tímum eftir að kjörstöðum hafði verið lokað.

Ágreiningur um niðurstöður

Samkvæmt upplýsingum AFP-fréttastofunnar höfðu stærstu flokkarnir nokkuð jafna stöðu, stjórnarandstöðuflokkurinn Lýðræðishreyfingin (MDC) hafði hlotið 35 þingsæti en Zanu-PF, flokkur Mugabes 31 sæti. Nái hvorugur flokkurinn meira en helmingi heildaratkvæðafjöldans hefst önnur umferð kosninganna eftir þrjár vikur.

Stjórnarandstöðuflokkurinn, Lýðræðishreyfingin (MDC), hefur þegar lýst yfir sigri sínum þrátt fyrir aðvaranir stjórnvalda um að slíkar yfirlýsingar yrðu túlkaðar sem tilraun til valdaráns.

Tendai Biti, aðalritari Lýðræðishreyfingarinnar, sagði í gær að kosningaráðið hefði í hyggju að tilkynna að flokkur Mugabes hefði unnið með 52% atkvæða, en sá fjöldi nægir til að komast hjá annarri umferð kosninganna.

Töfin sem orðið hafi á talningunni bendi til þess að verið sé að hagræða úrslitunum, „hægagangurinn veldur ólgu meðal fólksins í landinu,“ sagði Biti.

Forysta Lýðræðishreyfingarinnar hefur gefið út eigin tölur sem sýna að hreyfingin hafi unnið með 60% atkvæða á móti 30% atkvæðum Mugabes. Þær tölur eru byggðar á óopinberum tölum sem birtar voru á kjörstöðum.

Óttast uppþot

Óeirðalögregla var á verði í höfuðborginni Harare í gær og hefur öryggisvarsla verið aukin víðar um landið. „Augu heimsins hvíla á Simbabve,“ sagði Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, en hann hefur auk fleiri vestrænna leiðtoga lýst yfir áhyggjum af ástandinu í Simbabve og mikilvægi þess að talningu ljúki sem fyrst og að hún fari fram á sanngjarnan hátt.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.