Gunnar Jóhannesson
Gunnar Jóhannesson
Gunnar Jóhannesson skrifar um trúarsannfæringu: "Síðast þegar ég vissi var trúverðugleiki fólginn í því að vera traustur, áreiðanlegur og sannsögull."
ÞAÐ er mikil list að halda góða ræðu. Einhver sagði að lykillinn að góðri ræðu væri að byrja og ljúka henni með ígrunduðum og áhugaverðum hætti og segja sem minnst þar á milli.

Prestar eru sjaldnast öfundsverðir ræðumenn enda ekki áhlaupsverk að þýða fagnaðarerindið yfir á skiljanlegt mál í nútímasamfélagi. Það var sögð skemmtileg saga af litlum dreng sem fór með móður sinni í kirkju. Þegar presturinn var í miðri prédikun hallaði drengurinn sér upp að móður sinni og spurði þreytulega: „Fer hann ekki að verða búinn?“ Móðirin svaraði: „Hann er búinn elskan mín, hann getur bara ekki hætt.“ Við höfum heyrt svona sögur. Sjálfsagt hafa margir upplifað stund sem þessa í kirkju með einum eða öðrum hætti, flestir prestar líka, þ. á m. ég.

Reynslumikill og góður prédikari sagði eitt sinn: Það er aðeins eitt ráð til að verða góður prédikari: Lærðu að hlusta. Lærðu að hlusta á Guð og vertu fyrst og fremst trúr því erindi sem hann hefur treyst þér fyrir. Góðir prédikarar eru þeir sem hvíla í skugga Guðs og lofa honum að koma fram og orði hans að heyrast, „því hann á að vaxa, en ég að minnka“. Góður brandari spillir svo ekki fyrir.

En stundum fer allt fyrir ofan garð og neðan. Fátt getur bjargað prédikun þess prests sem ekki er trúr því erindi sem honum er falið að boða. Sú prédikun verður að einhverju öðru en til var ætlast.

Prestum ber samkvæmt vígsluheiti sínu að prédika Guðs orð hreint og ómengað, eins og það er að finna í vitnisburði kirkjulegra játninga og postullegrar trúarhefðar. Þótt enginn prestur sé fullkominn þarf ekki að efast um að þeir reyni flestir að virða vígsluheit sitt og koma heiðarlega fram í störfum sínum.

En hvað ber presti að gera verði hann nú fráhverfur kristinni játningu að meira eða minna leyti? Á hann að segja það sem hugur hans býður honum, enda þótt hann hafi lofað öðru? Hvar liggja mörkin á milli þess að þjóna Guðs orði og að láta Guðs orð þjóna sér?

Þessar spurningar og aðrar áþekkar leituðu á mig á dögunum þegar ég heyrði í presti nokkrum í Reykjavík prédika. Í upphafi „prédikunar“ sinnar lagði viðkomandi prestur ríka áherslu á þá „víðsýni, frjálslyndi og umburðarlyndi“ sem frá upphafi hefði ríkt í boðun og lífi kirkju hans. Litlu síðar lýsti hann yfir: „Við leitum Guðs handan útilokandi trúarjátninga, þegar þær eru misnotaðar og látnar reisa múra aðskilnaðar manna á milli. Við leitum Krists handan einstrengingslegra trúarkenninga... jafnvel handan trúarstofnana eða trúarbragða.“

Skömmu áður en presturinn lét þessi orð falla bauð hann áheyrendum sínum að játa sína kristnu trú. Á undan þótti honum tilhlýðilegt að afsaka trúarjátninguna með þeim orðum m.a. að fólk færi ekki með hana til að greina sig frá þeim sem orða lífsskoðun sína með öðrum hætti, heldur „aðeins til að kannast við samkvæmt hvaða trúararfleifð þessi athöfn hér er framkvæmd“. Trúarjátningin, einingarband kristins fólks, og það sem áréttar innihald hins kristna átrúnaðar, virtist lítið annað en formsatriði rúið raunverulegu gildi sínu. Ef til vill hefði verið heiðarlegra að segja: Gott fólk, það er allt í lagi að fara með trúarjátninguna enda meinum við minnst með því!

Það getur varla heitið svo að viðkomandi prestur hafi í prédikun sinni slegið á strengi fagnaðarerindisins. Boðskapurinn var annars eðlis enda annað ljós sem fékk að skína. Í prédikuninni bar leynt og ljóst mest á linnulausum og staglkenndum áróðri um Þjóðkirkju Íslands sem byggðist á litlu öðru en rangfærslum og tilbúnum sannleika. Mér varð hugsað til frambjóðanda sem hefur lítið fram að færa og reynir því að afla sér meðborgaralegs fylgis á grundvelli þess sem hann telur miður fara hjá öðrum – og gildir þá einu hvort það álit hans er á rökum reist eða ekki.

Umræddum presti er í mun að kenna sig og kirkju sína við trúverðugleika. Síðast þegar ég vissi var trúverðugleiki fólginn í því að vera traustur, áreiðanlegur og sannsögull. Kristinni kirkju ber að standa vörð um fagnaðarerindi Jesú Krists eins og það kemur fyrir í postullegum vitnisburði og trúarjátningum. Trúverðugleiki hennar stendur og fellur með því hvernig þar tekst til.

Eftir að hafa hlýtt á umrædda prédikun spurði ég mig, og spyr mig enn – og ég hvet allt einlægt fólk, sem í raun vill kannast við Jesú Krist og kenna sig við nafn hans, að spyrja sig hins sama: „Hvenær hættir kristin trú að vera kristin trú?“

Höfundur er sóknarprestur.