Jón Gissurarson bregður fyrir sig braghenduforminu: Nú er úti norðan hríð og nepju kuldi. Fönnum skrýðast fjalla tindar. Frjósa bæði laut og rindar. Bráðum sólin hátt á himni, haga vermir. Vorið kemur, bjarta, blíða, burtu hrekur vetrar kvíða.
Jón Gissurarson bregður fyrir sig braghenduforminu:

Nú er úti norðan hríð og nepju kuldi.

Fönnum skrýðast fjalla tindar.

Frjósa bæði laut og rindar.

Bráðum sólin hátt á himni,

haga vermir.

Vorið kemur, bjarta, blíða,

burtu hrekur vetrar kvíða.

Hörður Björgvinsson lætur kuldatíðina ekki hafa áhrif á sig:

Nú syrgir það sérhver kjaftur

að sumars er fjarri kraftur.

Það er hundalógí

að hinkra' eftir því

sem hverfur að hausti aftur.

Jón Ingvar Jónsson yrkir:

Milli húsa hrekst ég í

hríð og norðantrekki,

veslast upp og visna því

vorið kemur ekki.

Hann bætti við í skáldlegum stellingum:

Ísland gamla undir snjó

enn er leynt og grafið,

fimar lóur flögra þó

feigar yfir hafið.

pebl@mbl.is