Eftir Þórð Snæ Júlíusson og Elías Jón Guðjónsson Arctus ehf. hefur hótað sveitarfélaginu Ölfusi málsókn vegna vanefnda þess á einkaréttaryfirlýsingu sem Ólafur Áki Ragnarsson bæjarstjóri undirritaði í nóvember 2006.
Eftir Þórð Snæ Júlíusson og

Elías Jón Guðjónsson

Arctus ehf. hefur hótað sveitarfélaginu Ölfusi málsókn vegna vanefnda þess á einkaréttaryfirlýsingu sem Ólafur Áki Ragnarsson bæjarstjóri undirritaði í nóvember 2006.

Þetta kemur fram í bréfi sem Arctus, sem ætlaði að byggja áltæknigarð í sveitarfélaginu, sendi bæjarfulltrúum Ölfuss í október síðastliðnum.

Í einkaréttaryfirlýsingunni, sem 24 stundir hafa undir höndum, skuldbindur Ölfus sig til að fara ekki í viðræður við neina aðra álframleiðendur en Arctus í átján mánuði frá undirritun hennar. Einu skilyrðin sem Arctus eru sett eru þau að framkvæmdir við áltæknigarð félagsins hefjist á þessum átján mánuðum, að umhverfismat verði framkvæmt og orka tryggð til starfseminnar. Arctus vill meina að Ölfus hafi brotið þennan einkarétt með því að lýsa yfir stuðningi við mögulegt 400 þúsund tonna álver Alcan í Þorlákshöfn í bréfi Landsvirkjunar síðastliðið sumar, en einkaréttur Arctus á að renna út í byrjun maí næstkomandi.

Sagður umboðslaus

Þann 27. júní síðastliðinn, sjö mánuðum eftir að yfirlýsingin var undirrituð, barst Arctus bréf frá lögmanni Ölfuss þar sem segir að yfirlýsingin hafi verið undirrituð af Ólafi Áka í umboðsleysi og sé því ekki gild. Ólafur Áki segir þó ekki rétt að segja að hann hafi verið umboðslaus. „Við létum senda þeim þetta bréf til að benda á að yfirlýsingin hefði ekki neitt gildi fyrr en búið væri að leggja hana fyrir bæjarstjórn. Bæjarstjóri hefur fullt umboð til að skrifa undir svona gögn.“ Engir fyrirvarar um samþykki bæjarstjórnar eru þó tilteknir í yfirlýsingunni og enginn bæjarfulltrúi í Ölfusi sem 24 stundir ræddu við í gær vildi staðfesta að hann hefði vitað um hana á þeim tíma sem hún var undirrituð.

Arctus stendur við bréfið

Í niðurlagi bréfs Arctus segir að „falli sveitarstjórnin ekki frá þeim rakalausu fullyrðingum sem koma fram í bréfi Stefáns Geirs [lögmanns Ölfuss] og þeim málsgrundvelli að byggja nú á umboðsleysi sveitarstjórans, er Arctus nauðugur sá kostur að leita réttar síns vegna þess beina og óbeina tjóns sem aðgerðir og ákvarðanir sveitarfélagsins munu valda“. Forsvarsmenn Arctus staðfestu í gær að þeir hefðu sent bréfið til allra bæjarfulltrúa í Ölfusi. Þeir standa við allt sem fram í því kemur en vonast til þess að farsæl lausn finnist á málinu.
Í hnotskurn
Arctus ætlaði að byggja áltæknigarð við Þorlákshöfn. Félagið undirritaði einkaréttaryfirlýsingu við Ölfus þar sem sveitarfélagið skuldbatt sig til að eiga ekki í viðræðum við aðra álframleiðendur í átján mánuði.