Fræðsla Hrönn Ljótsdóttir og Lovísa Jónsdóttir hafa borið þungann af undirbúningi skólans.
Fræðsla Hrönn Ljótsdóttir og Lovísa Jónsdóttir hafa borið þungann af undirbúningi skólans. — Morgunblaðið/Valdís Thor
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Öldubrjótur nefnist nýtt verkefni sem 17 starfskonur frá níu löndum taka nú þátt í á Hrafnistu og miðar að því að auka skilning þeirra á íslenskri tungu og samfélagi. Halldóra Traustadóttir fór í heimsókn á dvalarheimilið.
Á síðastliðnum misserum hafa Hrafnistuheimilin eytt ómældum tíma og fjármunum í það að afla starfsfólks til vinnu við aðhlynningu á heimilunum í Reykjavík, Hafnarfirði og á Vífilsstöðum. Að jafnaði hafa um 30 stöðugildi verið laus, þar sem Hrafnista hefur það markmið að ráða einungis starfsfólk í aðhlynningu sem skilur og talar íslensku. Stjórnendur Hrafnistu gripu því í taumana og settu á fót verkefnið Öldubrjót, sem er íslensku-, samfélags- og verkmenntaskóli fyrir erlendar konur. Skólanum er ætlað að koma til móts við þá viðvarandi manneklu í aðhlynningarstörfum sem Hrafnistuheimilin hafa átt við að glíma undanfarið.

Það er ys og þys á Hrafnistu í Laugarásnum þegar blaðamann ber að garði til að kynna sér verkefnið. Eftir að náðst hefur í Lovísu A. Jónsdóttur fræðslustjóra eru langir gangar Hrafnistu þræddir þar til komið er að skólastofu þar sem inni sitja nemendurnir sem taka þátt í verkefninu, ásamt nokkrum leiðbeinendum. Nemendurnir eru 17 konur af erlendu bergi brotnar sem valdar voru til þátttöku af um hundrað umsækjendum.

Ys og þys á göngunum

Lovísa hefur borið þungann af undirbúningi skólans ásamt Hrönn Ljótsdóttur, félagsráðgjafa á Hrafnistu, og Ölmu Birgisdóttur, hjúkrunarforstjóra Hrafnistu. Þær Lovísa og Hrönn hafa síðan séð um kennslu í skólanum, ásamt öðru starfsfólki, en samstarf var haft við málaskólann Mími um íslenskukennsluna. Einnig var þátttakendum námskeiðsins boðið að taka þátt í Mentorverkefni Rauða kross Íslands sem Garðabæjardeildin hefur umsjón með. Markmið þess verkefnis er að rjúfa félagslega einangrun erlendra kvenna með því að útvega þeim íslenskan félagsvin.

Það er augljóslega mikið að gera hjá þeim Hrönn og Lovísu en þær eru á sífelldum þeytingi og svara fyrirspurnum hvar sem þær eru staddar á göngum Hrafnistu en allt er þó gert með bros á vör og miklum léttleika. Það er augljóslega gaman í vinnunni og það virðist smita út frá sér því einnig er létt yfir mannskapnum í kennslustofunni.

Að lokum sest Lovísa niður og útskýrir: „Viðtökur við auglýsingu í dagblöðunum, sem birtist á nokkrum tungumálum, voru mjög góðar. Fyrirfram var ákveðið að taka inn 15 konur í skólann en við enduðum á því að taka inn 17 konur, frá níu löndum, þar sem um margar hæfar konur var að ræða. Skólinn hóf síðan göngu sína 18. febrúar sl. og er kennt í fjórar vikur. Þar á eftir tekur við fjögurra vikna verknám á ýmsum deildum Hrafnistu,“ segir Lovísa.

Útbúin var kennslustofa í einu herbergja Hrafnistu í Laugarásnum þar sem aðstaða er bæði til bók- og verknáms. „Í kennslu okkar um íslenskt samfélag höfum einnig farið í margar vettvangsferðir, til dæmis í Þjóðminjasafnið, Ráðhúsið, Listasafn Íslands, á Alþingi, heilsugæslustöð og fleiri staði, en eitt af markmiðum skólans er að ýta undir samfélagslega þekkingu nemendanna,“ bætir hún við.

Tölvufræðingur og barnabókarhöfundur

Hrönn kemur aðvífandi og tekur við af Lovísu við að útskýra inntak verkefnisins. „Við höfðum ásett okkur að reyna að ná saman hópi sem hefði áþekka kunnáttu í íslensku og hefði það að markmiði að búa áfram á Íslandi, enda gera þátttakendur munnlega skuldbindingu um það að starfa fyrir Hrafnistu í tvö ár eftir að námskeiðið hefst,“ segir Hrönn. „Sumar þessara kvenna eru vel menntaðar. Það eru til dæmis hjúkrunarfræðingur, tölvufræðingur og konur með aðra háskólamenntun hér hjá okkur og meira að segja einn barnabókarhöfundur líka. Í haust munum við síðan leggja mat á verkefnið með viðtölum bæði við þátttakendur sem og starfsfólk Hrafnistu.“

Enn sem komið er eru þær stöllur ánægðar með framvindu námskeiðsins. „Þetta hefur allt saman gengið mjög vel,“ segir Lovísa brosandi. Síðan eru þær roknar af stað við að leysa þau fjölmörgu verkefni sem þarf að sinna á þessum fjölmenna vinnustað.

„Finn að íslenskunni hefur fleygt fram“

Barbara Pawlíkowska kom til Íslands fyrir um ári í leit að atvinnu, sem ekki var auðvelt að fá í heimalandi hennar, Póllandi. Hún byrjaði á því að vinna á kaffihúsi í Kringlunni en einbeitti sér síðan að íslenskunámi. Hún varð himinlifandi þegar hún var tekin inn í skólann á Hrafnistu. „Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri,“ segir Barbara. „Mér finnst mér hafa gengið mjög vel á námskeiðinu og hef í huga að starfa áfram fyrir Hrafnistu. Ég er líka viss um að þau hjá Hrafnistu eiga eftir að vera ánægð með mín störf,“ segir hún af einlægni og brosir.

Barbara hafði starfað áður í Póllandi á stofnun fyrir fólk með geðraskanir. „Mér líkaði vel sú vinna, það var mikilvæg reynsla og hefur eflaust hjálpað mér við að vera valin til þátttöku í Öldubrjótnum. Svo er þetta búið að vera frábært nám. Ég er til dæmis miklu öruggari núna að tala íslensku en ég var áður.“ Hún er einnig ánægð með vettvangsferðirnar: „Við höfum skoðað svo margt og síðast en ekki síst hef ég eignast nýja vini hér á námskeiðinu. Við erum átta frá Póllandi en ég hef líka kynnst konunum frá hinum löndunum. Að námskeiðinu loknu fer ég síðan í starfsþjálfun hjá Hrafnistu á Vífilsstöðum en ég verð sú eina sem fer þangað og þá mun virkilega reyna á íslenskukunnáttu mína.“

Örugglega áfram á Íslandi

Marina Belousova er rússnesk og kom til Íslands fyrir rúmum þremur árum í leit að betra lífi. Hún er menntuð í stjórnun frá Háskólanum í Moskvu en hóf störf hjá Hrafnistu nánast strax við komuna til Íslands. „Ég byrjaði í ræstingum en flutti mig yfir í býtibúrið í ágúst í fyrra,“ segir hún. „Ég heyrði svo um þetta námskeið hér innanhúss. Allir hvöttu mig til að sækja um en ég hef ekki sótt um starf í aðhlynningu fyrr sökum málaörðugleika. Nú lærum við íslensku á hverjum degi og ég finn að íslenskunni hefur fleygt fram.“

Marina er ánægð með allar þær heimsóknir sem hún hefur farið í með leiðbeinendum sínum og öðrum konum á námskeiðinu. „Ég hefði aldrei farið á þessa staði hefði það ekki verið fyrir þennan skóla. Mér fannst til dæmis merkilegt að við, venjulegar manneskjur, gátum heimsótt Alþingi Íslendinga. Þetta væri alls ekki mögulegt í Rússlandi,“ segir hún. „Ekki heldur í Póllandi,“ skýtur Barbara inn í.

Þær eru sammála um ágæti námskeiðsins og vinnustaðarins. „Ég ætla að vera hér áfram og halda áfram að þróa mig í starfi eins og ég hef gert hingað til. Hver veit í hvað stöðu ég enda hér á Hrafnistu,“ segir Marina Belousova glettnislega. „Ég verð örugglega áfram á Íslandi því nú hef ég selt húsnæði mitt í Rússlandi og keypt mér íbúð í Breiðholti. Auk þess er ég orðin vön að koma fram í viðtölum því þetta er annað blaðaviðtalið mitt,“ bætir hún stolt við og vísar til viðtals við blaðamann Morgunblaðsins í október sl. Tilefnið var heimsókn Gorbatjovs, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna, en hún sótti fyrirlestur hans í Háskólabíói.

Barbara tekur í sama streng: „Ég ætla að vera áfram á Íslandi og verð örugglega lengi í vinnu hér á Hrafnistu,“ segir hún að lokum.