„Hjólið mitt er í bílskúrnum núna, ég ætla ekki að taka það út fyrr en það er farið að hlýna verulega,“ segir Siv Friðleifsdóttir sem tekur væntanlega ekki Honda Nighthawke-mótorhjólið sitt út fyrr en í maíblíðunni.
„Hjólið mitt er í bílskúrnum núna, ég ætla ekki að taka það út fyrr en það er farið að hlýna verulega,“ segir Siv Friðleifsdóttir sem tekur væntanlega ekki Honda Nighthawke-mótorhjólið sitt út fyrr en í maíblíðunni. „Ég er uppteknari af skíðunum í augnablikinu,“ bætir hún við og segir skíðafæri hafa verið gott síðustu vikur.

Útbúnaður ökumanna er veigamikið atriði að mati Sivjar.

„Það er auðvitað mjög mikilvægt að hafa allan öryggisbúnað sem boðið er upp á og krafist er. Mikilvægt að vera með góðan hjálm og vera í leðri eða einhverjum fatnaði sem er góður og ver mann ef maður skyldi detta eða lenda í árekstri. Ég hef heyrt af fólki sem hefur dottið í götuna af einhverjum ástæðum, runnið eftir henni og klæðnaðurinn látið undan, bráðnað og rifnað.“

Um umferðaröryggið eftir að á hjólið er stigið segir Siv að hún hafi allan vara á sér.

„Ég er með innbyggðan vara og geri alltaf ráð fyrir að bílar sjái mig lítið sem illa. Ég veit að maður sést frekar illa á hjóli.“

Aðspurð hvort hún hafi lent í hremmingum segir hún þær hafa verið afar litlar. „Ég hef lagt hjólið einu sinni á hliðina, það var í kyrrstöðu og uppákoman var hallærisleg því ég náði því ekki sjálf upp aftur. Það var gamla hjólið sem ég átti, ég myndi ná Hondunni upp sjálf,“ bætir hún við og hlær.

dista@24stundir.is