Vinur Vesturports Nick Cave hefur áður lagt til tónlist við uppsetningar Vesturports. Hér sést hann með Ingvari E. Sigurðssyni leikara.
Vinur Vesturports Nick Cave hefur áður lagt til tónlist við uppsetningar Vesturports. Hér sést hann með Ingvari E. Sigurðssyni leikara. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EINS og fram hefur komið fengu Sameinuðu þjóðirnar leikarann Gael García Bernal til að vinna fyrir sig stuttmynd sem byggist á einu af hinum átta langtímamarkmiðum samtakanna.
EINS og fram hefur komið fengu Sameinuðu þjóðirnar leikarann Gael García Bernal til að vinna fyrir sig stuttmynd sem byggist á einu af hinum átta langtímamarkmiðum samtakanna. Bernal tók myndina upp hér á landi, enda staddur hér vegna leiksýningarinnar Kommúnunnar sem Vesturport stendur að, en þar fer hann með hlutverk Salvadors nokkurs. Bernal hefur leitað fanga hjá íslenskri alþýðu við vinnslu myndarinnar og þannig tóku starfsmenn Hellisheiðarvirkjunar að sér aukahlutverk um liðna páskahelgi. Bernal leitar á svipuð mið í lokaatriði myndarinnar, sem er einslags tónlistaratriði, og fara upptökur á því fram í Kringlunni í dag.

Sigkaðlar í Kringlunni

Samkvæmt talsmanni er um draumkennt atriði að ræða og stendur mikið til og verða sigkaðlar meðal annars í stóru hlutverki auk „múgs og margmennis“.

„Það hefur verið mjög gaman að taka þátt í þessu,“ segir Birta Flókadóttir, markaðsstjóri Kringlunnar. „Það hefur verið töluvert tilstand út af þessu atriði, það voru smiðir hérna hjá okkur í gær og menn frá flugbjörgunarsveitinni hafa verið að ganga frá sigköðlum og tæknilegum atriðum í kingum það. Við erum auðvitað pínu upp með okkur að Bernal skuli hafa valið vinnustaðinn okkar fyrir þessa töku og viljum gjarnan leggja okkur fram við að þetta gangi sem best upp.“

Höfundur tónlistarinnar er Nick Cave og verður hann í litlu hlutverki í þessu lokaatriði, svokölluðu „cameo role“. Cave kom til landsins í gær vegna þessa en hann hefur starfað nokkuð með Vesturporti í gegnum tíðina og samdi m.a. tónlist við uppsetningu hópsins á Woyzeck og Hamskiptunum. Tökur á atriðinu hefjast í dag klukkan 12.30 og er áhugasömum þátttakendum bent á að mæta um hálftíma fyrr.

Leiðrétting 2. apríl

Það leiðréttist hér með að frétt af kvikmyndatökum í Kringlunni í blaðinu í gær var gabb. Allt í plati! Fyrsti apríl!