Flugfélög um allan heim fara ekki varhluta af háu eldsneytisverði frekar en almennir bílaeigendur. Til þess að létta byrði flugvélanna og spara þannig eldsneyti taka flugfélög mörg hver til þess ráðs að skipta „innbúi“ vélanna út.
Flugfélög um allan heim fara ekki varhluta af háu eldsneytisverði frekar en almennir bílaeigendur. Til þess að létta byrði flugvélanna og spara þannig eldsneyti taka flugfélög mörg hver til þess ráðs að skipta „innbúi“ vélanna út. Í flugvélum bandaríska flugfélagsins Delta eru til að mynda komin þynnri og léttari sæti og í fæstum þarlendum flugfélögum eru drykkir lengur reiddir fram í glerglösum. Þá fá iðnaðarmenn og flugvirkjar ströng fyrirmæli um að bæta engu við sem skapar óþarfa þyngdaraukningu þegar þeir yfirfara vélarnar og gera breytingar á þeim, jafnt innan farþegarýmisins sem utan.

Fargjöld hafa óhjákvæmilega hækkað í kjölfar hækkunar á eldsneytisverði en þar sem fargjaldahækkanir geta orsakað minni eftirspurn og sætanýtingu grípa félögin einnig til ofangreindra ráða til þess að draga úr eldsneytiskostnaði. Þá hefur máltíðum víða verið skipt út fyrir aðrar léttari og færri komast upp með að sleppa við rukkun vegna yfirvigtar í farangri. Allt hefur þetta skilað árangri í eldsneytissparnaði og kannanir benda til að farþegar sýni þessu skilning, enda líklegt að margir þeirra hafi sjálfir gripið til ýmissa eldsneytissparnaðaraðgerða á eigin bílum.