Gunnar Gíslason var fæddur á Seyðisfirði 5. apríl 1914. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks 31. mars síðastliðinn.

Foreldrar hans voru Gísli Jónsson frá Mýrum í Hornafirði, kaupfélagsstjóri á Sauðárkróki og síðar verslunarstjóri á Seyðisfirði, og Margrét Arnórsdóttir húsfreyja, fædd að Felli í Kollafirði.

Alsystkini Gunnars: Arnór Sigurður, skipstjóri, f. 1911, d. 1992, Stefán, verslunarmaður, f. 1912, d. 1942, Ragnar Eggerts, skipasmiður, f. 1915, d.1936 og Hrefna Thoroddsen, húsmóðir, f. 1918, d. 2000.

Hálfsystkini Gunnars, börn Gísla og Guðrúnar Guðmundsdóttur frá Fáskrúðsfirði: Margrét Blöndal, húsmóðir, f. 1923, d. 2005, Guðmundur, bankastarfsmaður, f. 1926, d. 2008, Hólmfríður, talsímakona, f. 1928, d. 2007 og Aðalsteinn, vélstjóri, f. 1930.

Gunnar kvæntist Ragnheiði Margréti Ólafsdóttur á Þingvöllum þann 17. júní 1944. Foreldrar Ragnheiðar, f. 13.4. 1915, d. 19.2. 1999, voru Ólafur Ágúst Gíslason, stórkaupmaður í Reykjavík, og Ágústa Áróra Þorsteinsdóttir.

Börn Gunnars og Ragnheiðar eru: 1) Stefán Ragnar, f. 28.2. 1945, d. 15.9. 1996, yfirflugvélstjóri hjá Cargolux í Lúxemborg, kvæntur Grétu Maríu Bjarnadóttur og eru synir þeirra a) Stefán, sambýliskona hans er Pamela Frisch, b) Davíð, í sambúð með Mandy Van Duuren og er dóttir þeirra Selina.

Fyrri kona Stefáns var Jónína Bjarnadóttir og eignuðust þau tvö börn, a) Gunnar, kvæntur Helgu Ágústu Sigurjónsdóttur, börn þeirra eru Íris Björk, Stefán Rafn og Agnes Ösp. b) Gunnlaug Margrét, f. 10.8. 1965, d. 10.1. 1969.

2) Gunnar, f. 27.6. 1946, hæstaréttarlögmaður, aðstoðarvegamálastjóri Reykjavík. Kona hans er Þórdís Elín Jóelsdóttir myndlistarmaður. Börn þeirra: a) Gunnar, kona hans er Barbara Björnsdóttir, börn þeirra eru Eiður Rafn og Sara Sunneva, b) Helga Kristín, c) Arnór, sambýliskona hans er Berglind Ósk Guðmundsdóttir og sonur þeirra er Róbert Leó.

3) Ólafur, f. 18.4. 1950, deildarstjóri í Reykjavík. Hann var kvæntur Ásdísi L. Rafnsdóttur skrifstofumanni, þau skildu. Börn þeirra: a) Ragnheiður Margrét, b) Davíð Örn, kvæntur Hjördísi Viðarsdóttur og eru börn þeirra Viðar Snær, Dagur Kári og Arna Katrín. 4) Arnór, f. 19.7. 1951, bóndi í Glaumbæ II, kvæntur Ragnheiði G. Sövik kennara, og eru synir þeirra a) Óskar, b) Atli Gunnar. 5) Margrét, f. 17.7. 1952, kennari í Garðabæ, var gift Eiríki Tómassyni framkvæmdastjóra, þau skildu. Synir þeirra eru: a) Heiðar Hrafn, börn hans og Ástríðar J. Guðmundsdóttur eru Róshildur, Margrét Áslaug, og Eiríkur Þór. b) Tómas Þór, í sambúð með Sonju Björk Elíasdóttur og börn þeirra eru Sandra Ýrr, Elísa Sól og Lúkas Nói. c) Gunnlaugur, í sambúð með Helgu Jakobsdóttur, d) Gunnar, 6) Gísli, f. 5.1. 1957, sóknarprestur í Glaumbæ. Kona hans er Þuríður Kristjana Þorbergsdóttir, sjúkraliði og bóndi. Börn þeirra eru: a) Gunnar, b) Þorbergur, sambýliskona hans er Birna Valdimarsdóttir og sonur þeirra Valdimar Árni, c) Margrét, d) Aldís Rut.

Frá sex ára aldri ólst Gunnar upp hjá afa sínum sr. Arnóri

Árnasyni í Hvammi í Laxárdal og seinni konu hans Ragnheiði Eggertsdóttur. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1943

og vígðist sama ár sóknarprestur að Glaumbæ í Skagafirði.

Hann var skipaður prófastur í Skagafjarðarprófastsdæmi árið 1977 og þessum störfum gegndi hann til ársins 1982 er honum var veitt lausn frá embætti prófasts og sóknarprests

Glaumbæjarprestakalls, en þjónaði áfram Barðssókn í Fljótum, til 1984. Sr. Gunnar var varaþingmaður Skagfirðinga fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1954-56. Hann sat á Alþingi um skeið árin 1955 og 1957, og var þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra samfellt frá 1959 til 1974.

Hann sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1965 og í

bankaráði Búnaðarbanka Íslands frá 1969-85. Gunnar gegndi fjölda trúnaðarstarfa í Skagafirði. M.a.

sat hann í hreppsnefnd Seyluhrepps frá 1946-86, var sýslunefndarmaður 1984-1988, í stjórn Varmahlíðar frá 1947-73, í stjórn Skógræktarfélags Skagfirðinga 1947-81 og var formaður þess frá 1961-1981 og heiðursfélagi. Hann var í stjórn Byggðasafns Skagfirðinga frá 1948-86 og formaður Karlakórsins Heimis í tæp tíu ár á árunum 1954-65. Hann var einn af stofnendum hestamannafélagsins Stíganda (1945) og var í stjórn félagsins frá 1951-75 og heiðursfélagi þess. Sr. Gunnar stundaði búrekstur í Glaumbæ samhliða prestsskap og hafði af því mikla ánægju.

Árið 1983 fluttu Gunnar og Ragnheiður frá Glaumbæ og bjuggu þau í Varmahlíð síðustu árin.

Útför sr. Gunnars fer fram frá Glaumbæjarkirkju í dag . og hefst athöfnin klukkan 11.

Ég sit hér á stjörnubjörtu kvöldi og minnist tengdaföður míns Gunnars Gíslasonar með virðingu og þakklæti. Samferð okkar er orðin rétt 26 ár og hefur verið gjöfull tími fyrir mig. Varla leið sá dagur að Gunnar kæmi ekki í Glaumbæ til að líta á búskapinn og mörg voru handtökin hans við sauðburð og fjárrag. Var hann þá með stafinn á lofti til að stugga fénu þangað sem það átti að fara. Ég sá hann líka nota þennan staf til að verjast brjálaða hananum mínum, sem hann hélt að vísu alltaf fram að væri mesta gæðablóð.

Já, aðstoð hans var ómetanleg. Börnin okkar nutu góðs af þessum heimsóknum og er það dýrmætt fyrir börn að fá að alast upp með afa og ömmu í nálægðinni.

Í Varmahlíð, þar sem þau Gunnar og Ragnheiður höfðu búið sér fallegt heimili, ræktaði hann garðinn sinn, gróðursetti tré, plantaði sumarblómum og gaf fuglunum, jafnt sumar sem vetur. Hann var ánægður þegar ég sagði honum að nýir húseigendur héldu þeim góða sið.

Þegar Ragnheiður fór út á vinnumarkaðinn tók Gunnar til við að elda og var maturinn hjá honum sérlega góður, allt frá kalkún að fiskibollum og tala börnin oft um þær með fortíðarþrá. Ég bíð enn eftir að þessir matreiðsluhæfileikar erfist í næstu kynslóð.

Já, mörg voru börnin búin að dvelja í sveitinni hjá afa og ömmu. Skemmtilegar sögur eru af samskiptum í kringum verkin og læt ég eina fylgja hér með.

Sonarsonur frá Lúxemborg var í heimsókn og átti að sækja kýrnar. Afi sagði honum að segja bara hott, hott, þegar hann kæmi að þeim. Leið og beið og ekki komu kýrnar. Loks kom drengurinn og sagði niðurlútur: „Afi, hvað átti ég aftur að segja við kýrnar?“ Þetta fannst honum Gunnari skemmtilegt.

Árin liðu og heilsu Ragnheiðar hrakaði og kom að því að hún gat ekki lengur búið heima. Öllum sem fylgdust með var ljóst að Gunnar sýndi einstaka umhyggju og alúð. Fór nær daglega til hennar og eftir lát hennar hélt hann heimsóknum áfram á Dvalarheimilið og las þar fyrir fólkið og stytti því stundir. Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um Gunnar og kom að því að hann gat ekki lengur búið einn heima. Flutti hann þá á Dvalarheimilið á Sauðárkróki, þar sem hann dvaldi síðustu árin. Þar fannst honum gott að vera í öryggi, nálægt samferðamönnum sínum. Alveg fram að andláti gat hann rætt við fólkið sitt. Hann kvaddi á fallegum degi og fylgjum við honum síðasta spölinn á fæðingardegi hans. Hvíldin var honum kærkomin, hinsta hvílan er við hlið eiginkonunnar, sem stóð ávallt sem klettur við hlið hans. Ég kveð og þakka fyrir samveru okkar. Farðu í Guðs friði.

Þuríður.

Föstudaginn langa lagði ég í ferð með foreldrum mínum norður í Skagafjörð til að heimsækja afa minn. Við höfðum frétt að hann væri kominn með lungnabólgu og væri mjög veikur. Ég hef búið erlendis síðustu ár og hafði því ekki náð að heimsækja hann lengi, en ég fann á mér að ég yrði að fara þessa ferð.

Pabbi hafði varað mig við því að mér myndi bregða þegar ég sæi hann. Hann hafði rétt fyrir sér. Hruma og veika mannveran sem lá þarna í sjúkrarúminu var aðeins skugginn af manninum sem ég þekkti þegar ég var að alast upp. Það var eins og það væri gripið fast um hjartað í mér og ég þurfti að taka á öllu mínu til að tárast ekki. Afi var ekki maður margorður um sínar tilfinningar, en þó vissi ég alltaf að honum þótti vænt um mig eins og öll sín barnabörn, það var í tóninum á röddinni hans þegar hann sagði „Helga mín“ og ég bara vissi.

Þar sem ég sat við rúmið fann ég sterka löngun til að koma við hann, leggja mína hönd á hans, láta hann finna að mér þætti vænt um hann. Afi var ekki mikið fyrir að flíka tilfinningum sínum, hann var sterkur karakter sem fólk bar virðingu fyrir en að sama skapi góður maður sem þótti vænt um fólk. Hann var þó ekki mikið fyrir að sýna það, við áttum bara að vita það. Þessi einfalda athöfn krafðist því heilmikils hugrekkis af minni hálfu, bara það að rétta út höndina og snerta hans. Mér leið eins og ég þyrfti að brjótast í gegnum ósýnilegan „ekki snerta“-múr sem ég hafði líklegast sjálf búið til sem barn í huga mínum, enda alltaf borið óttablandna virðingu fyrir honum. Þar sem ég strauk létt um hönd hans langaði mig til að geta stýrt allri orkunni og tilfinningunum, öllum góðu minningunum frá heimsóknum okkar í sveitina á sumrin, inn í þennan gamla líkama, orku sem gæti deyft hans sársauka og mína sorg. Hann átti erfitt með að tala en gat þó spurt mig hvað ég væri nú að hafast að, hvernig ég hefði það. Það var gott að vita að hann vissi enn hver ég var, að hugur hans væri enn með okkur. Ég svaraði, reyndi að vera létt í máli og segja aðeins frá mínu lífi, en það er erfitt að reyna að „spjalla“ þegar verið er að tala við manneskju sem á ekki langt eftir. Það var svo margt sem ég vildi segja en orðin köfnuðu með kökk í hálsi.

Þegar kom að kveðjustund þá hélt afi þéttingsfast í hönd pabba þegar hann var að kveðja, eins og hann vildi ekki sleppa takinu. Hann vissi án efa að þetta yrði í síðasta sinn sem hann sæi son sinn og áreiðanlega margt sem hann vildi segja, en gat ekki sagt. Kannski þessi snerting hafi sagt meira en mörg orð, það getur aðeins pabbi vitað. Þegar ég kyssti afa bless þá sagði ég honum að mér þætti vænt um hann. Ég hafði aldrei sagt það við hann áður, hafði bara ekki þorað það, við vorum ekki vön að tjá tilfinningar við hvort annað, en á þessari stundu virtist það vera það eina sem var eftir að segja. Ég er svo glöð að hafa fengið tækifæri til að segja þessi orð við hann, það er aldrei of seint að segja fólki að þér þyki vænt um það. Bless afi minn, takk fyrir allt. Hvíl í friði.

Helga Kristín.

Elsku afi. Þá hefur þú fengið hvíldina eftir langa bið.

Minningarnar sem ég á um þig og ömmu eru ófáar. Það var alltaf ótrúlega gaman að koma í heimsókn til ykkar á Laugaveginn og fá að kúra í stóra rúminu ykkar og hlusta á ömmu lesa Disney-bækurnar fyrir mann. Ég man líka hvað mér fannst alltaf magnað að sjá þegar þú varst að prjóna ullarsokka eða laga þá, hélt að karlmenn gætu sko ekki gert svona. Og fiskibollurnar þínar voru bestu fiskibollur sem hægt var að fá!

Þegar þú varst orðinn slappur og varst farinn á dvalarheimilið þá brást það ekki að í hvert skipti sem ég fór í klippingu eða litun þá tókst þú alltaf eftir því, sama hvað breytingin var smávægileg. Þegar ég var yngri kenndir þú mér að spila kasínu og varst alltaf til í að spila við mig. Það voru ótrúlega góðar stundir.

Bílferðirnar milli Glaumbæjar og Varmahlíðar eru líka eftiminnilegar. Áður en lagt var af stað gáðir þú alltaf hvort beltin væru nú ekki alveg örugglega spennt og svo var lagt í hann. Á leiðinni þuldir þú upp bæjarnöfnin fyrir okkur og á endanum vorum við orðin svo klár að við kunnum öll bæjarnöfnin utan að.

Þegar ég var yngri og í grunnskóla var oft minnst á þig og ég varð alltaf jafn stolt af því að þú værir afi minn og ég sparaði það sko ekki að láta alla vita af því.

Það síðasta sem þú spurðir mig að var hvort ég væri nú ekki komin í háskóla, ég sagði að það væri nú ekki alveg komið að því en stefnan væri sko sett þangað. Þú hafðir alltaf trú á manni og ég er þér mjög þakklát fyrir það.

Takk fyrir að ég hafi fengið að ganga í gegnum part af mínu lífi með þér.

Afi minn, hvíldu í friði og megi Guð geyma þig.

Aldís Rut Gísladóttir.

Kæri afi. Með þessum orðum viljum við kveðja þig í hinsta sinn. Það sem við eigum eftir eru kærar minningar um góð sumur hjá þér og ömmu í Glaumbæ. Þar var gott að vera og vorum við barnabörnin alltaf velkomin til ykkar. Við vorum svo heppin að kynnast lífinu í sveitinni. Fyrir okkur sem ólumst upp í sjávarplássi var þetta ómetanleg reynsla sem við búum að alla ævi. Það eru örugglega ekki margir sem hafa látið afa sinn kenna sér að prjóna, það sýnir vel hversu fjölhæfur maður þú varst. Við fundum vel hvað þú varst mikils metinn og virtur í samfélaginu. Yfirleitt var hringt í afa áður en lagt var af stað norður og lögð inn pöntun hvað átti að vera í matinn um kvöldið er við kæmum. Oft var það kjötsúpa, lambalæri eða fiskibollur en afi gerði bestu kjötsúpu í heim að okkar mati.

Þegar við vorum í sveitinni hjá afa og ömmu þá voru ófáar ferðirnar sem við fórum með afa frá Varmahlíð út í Glaumbæ og til baka með viðkomu í fjósinu eða gefa lömbunum. Mikið var spjallað en afi var alltaf til í að ræða við okkur barnabörnin um hina ýmsu hluti.

Þótt stoppunum í Varmahlíð hafi fækkað er við fórum að eldast var hugurinn oft hjá þér afi okkar og minningarnar sem við eigum um þig og ömmu munu lifa um ókomna tíð í hjörtum okkar.

Heiðar Hrafn, Tómas Þór, Gunnlaugur,

Gunnar og fjölskyldur.

Er ég minnist frænda míns síra Gunnars Gíslasonar koma upp í hugann myndir liðinna daga og ára. Hann var af húnvetnskum og austfirskum ættum. Ungur að árum missti hann móður sína og var honum þá komið fyrir hjá móðurafa sínum séra Arnóri Árnasyni í Hvammi í Laxárdal í Skagafirði en þar átti hann æskuár sín.

Við séra Gunnar vorum systrasynir og áttu því leiðir okkar eftir að liggja saman í áranna rás. Hann var tíður gestur á heimili foreldra minna á Sauðárkróki og hygg ég að móðir mín hafi látið sér jafn annt um hann og sín eigin börn. Fljótt kom í ljós dugnaður hans og árvekni til allra starfa. Séra Gunnar varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri. Hann var mikill námsmaður í skóla og jafnan með bestu einkunnir. Síðan lá leið hans í Háskóla Íslands þar sem hann settist í guðfræðideild. Þaðan lauk hann guðfræðiprófi árið 1943. Sama ár sótti hann um Glaumbæjarprestakall í Skagafirði. Hlaut hann kosningu eftir allharða kosningabaráttu eins og títt var á þeim árum. Sama ár vígðist hann sem sóknarprestur og settist að í Glaumbæ. Séra Gunnar varð brátt vinsæll meðal sóknarbarna sinna. Hann samlagaðist þeim og tók þátt í lífi þeirra og starfi. Hann þótti góður ræðumaður og vann prestverk sín af trúmennsku. Prófastsstörfum gegndi hann um skeið. Um árabil þjónaði hann Barðssókn í Fljótum og mátu Fljótamenn prestsstörf hans mikils. Hann gekk ungur í raðir sjálfstæðismanna. Á stúdentsárum sínum tók hann þátt stúdentapólitíkinni og sat í stúdentaráði Háskóla Íslands og var formaður Vöku um tveggja ára skeið. Hann var kjörinn varaþingmaður Skagfirðinga fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sat á Alþingi um tíma. Síðar varð hann þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra. Séra Gunnar beitti sér fyrir mörgum málum á þingi, einkum þeim er vörðuðu landbúnaðarmál og málefni hinna dreifðu byggða. Heima í héraði tók hann ríkan þátt í félagsmálum, sat í hreppsnefnd, sýslunefnd og í stjórn Varmahlíðar. Hann var mikill áhugamaður um skógrækt, sat í stjórn Skógræktarfélags Skagfirðinga og var formaður félagsins um árabil. Nokkrum árum eftir að hann tók við prestsstarfi í Glaumbæ var Byggðasafnið stofnað. Sat hann löngum í stjórn safnsins. Séra Gunnar var söngvinn og gekk snemma í Karlakórinn Heimi og var formaður kórsins um tíu ára bil. Búskap stundaði hann lengst af samhliða prestsstörfum. Séra Gunnar var meðalmaður á vöxt, fríður sýnum og vakti hvarvetna athygli á mannfundum. Um langt skeið átti hann við mikla vanheilsu að stríða. Hann lét af prestsskap 1982 og flutti hann þá til Varmahlíðar ásamt konu sinni. Síðustu ár ævi sinnar dvaldi hann á sjúkradeild Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki þar sem hann lést háaldraður saddur lífdaga. Hann er kvaddur frá Glaumbæjarkirkju af sóknarbörnum sínum, ættingjum og vinum er sakna mikilhæfs samferðamanns á langri leið. En minningin um hann lifir heið og björt. Að lokum þessara fátæklegu orða minna votta ég frændfólki mínu samúð svo og venslafólki þess. Guð blessi minningu hans.

Árni Sigurðsson.

Skagafjörðurinn er falleg sveit ,,skrauti búinn, fagurgjörður“ og gott er mannlífið sem þar dafnar, fullt af glaðværð og hlýrri gæsku. Þessu fékk ég að kynnast á sínum tíma, þá um tvítugsaldur, og hafði ráðist svo að ég tók að mér að vinna á skurðgröfu fyrir Búnaðarsamband Skagfirðinga. Vinnufélagi minn var Gunnar Gunnarson frá Glaumbæ, skólabróðir úr menntaskóla, kær og náinn vinur. Þessar aðstæður réðu því að ég varð heimagangur hjá foreldrum hans í Glaumbæ, séra Gunnari Gíslasyni og Ragnheiði Ólafsdóttur og síðar á heimili þeirra á Laugarnesveginum í Reykjavík. Og svo vel var mér tekið af þessum heiðurhjónum frá fyrsta degi að mér hefur jafnan síðan fundist ég vera einn af fjölskyldunni. Ég skildi síðar að kynni mín af þessu heimili höfðu ríkari og sterkari áhrif á mig en ég gerði mér grein fyrir þá.

Umhyggja og hlýja í allra garð merkti viðmót og framgöngu og einhvern veginn var allt í svo öruggum höndum, traust og áhyggjulaust. Ég skynjaði þessa gulltryggu viðmiðun bestu gilda sem komu svo ríkulega fram í öllu sem sagt var og gert. Ég skynjaði heiðarleika og sanngirni í hverju orði og hverri gjörð, virðingu fyrir stöðu og sjónarmiðum samferðamanna og réttsýni í þeirra garð í einu og öllu. Væri á einhvern hallað í umræðunni var málstaður hans varinn og færður til betri vegar. Það var ætíð stutt í gáska og græskulaust gaman og næmi fyrir því spaugilega í mannlífinu og söngur og gleði helgaði góðar stundir. Einlæg og trygg var líka samhygðin við samfélag fólksins í sveitinni og birtist í fórnfúsri þakkargjörð þar sem enginn lá á liði sínu. Allt í yfirvegun og jafnvægi, hégómalaust og án tilgerðar.

Ég sé séra Gunnar fyrir mér, bóndann og náttúrubarnið einlæga, mitt í önninni á fallegum sumardegi, vinnuklæddan með axlabönd í skagfirskri sól og brakandi þerri. Orðfár í hversdeginum en viðmótið traust og hlýtt.

Ég sé hann líka í kirkjunni sinni í Glaumbæ, prestinn ástsæla í virðulegri og fallegri þjónustu við helgan málstað.

Ég man líka þingmanninn góða í snarpri og rökfastri orðræðu á stjórnmálafundi í kjördæminu sínu fyrir norðan.

Þau hjónin Ragnheiður og séra Gunnar voru einstakar manneskjur og það er eitt af stóru þakkarefnum lífsins að hafa átt með þeim samleið og eignast vináttu þeirra og trúnað. Samhent og einhuga stýrðu þau búi sínu af rausn og myndarskap og veganestið sem þau gáfu börnum sínum var gert af öllum bestu gildum lífsins. Þau enda öll strangheiðarlegt sómafólk sem unnið hefur vel úr sínu með góðri menntun og hefur þegar skilað samfélagi sínu giftudrjúgu og góðu lífsstarfi hvert á sínu sviði.

Við hjónin vottum þeim og fjölskyldum þeirra samúð okkar. Sr. Gunnar verður lagður til hinstu hvílu við hlið konu sinnar í kirkjugarðinum í Glaumbæ. Fögur er lýsing skáldsins Hannesar Péturssonar á sveitinni fríðu sem var lífsvettvangur séra Gunnars.

Gullbúinn himinvagn kvöldsins

er horfinn við eyjar í þögul grunn.

Fjörðurinn lognblár og landið

lögzt til værðar með munn við munn.

Hestar að nasla á votum völlum.

Vinnulúnir menn

sofa í ró, fá heilnæma hvíld

undir herðabreiðum fjöllum.

Guð blessi minningu drengsins góða og mæta.

Megi hann hvíla í friði í faðmi landsins sem hann unni og helgaði krafta sína alla.

Jón Þorsteinsson, Sigríður Anna Þórðardóttir.