Halldór Konráðsson
Halldór Konráðsson
Halldór Konráðsson svarar grein Halldórs Þorsteinssonar: "Hlutverk kristniboðanna er að segja frá Jesú, kynna og boða trúna. Þeir sem á hlýða verða sjálfir að taka afstöðu"

HALLDÓR Þorsteinsson skrifar grein í Morgunblaðið hinn 25. mars þar sem hann fullyrðir að hann eigi sjálfur sína sál. Hann segir einnig að hann þekki ekki föður sinn á himnum.

Það eru þó hæg heimatökin að kynnast honum. Um hann er kennt í kirkjum landsins og um hann má lesa í biblíunni. Ég trúi því að Guð hafi skapað Halldór eins og annað fólk. Það sem Guð hefur búið til hlýtur hann líka að eiga.

Halldór minnist orða jarðnesks föður síns sem sagði: „Ekkert vissum við um þennan heim áður en við fæddumst og ætli það verði nokkuð öðruvísi þegar við endanlega hverfum héðan. Sennilega sams konar vitundarleysi og fyrir fæðingu.“

Víst er um það að við vissum ekki neitt um þennan heim áður en við fæddumst. Eigi að síður fæddumst við til þess lífs sem við nú lifum. Þó að við vitum ekki mikið um framhaldslífið þá er það engin sönnun þess að það sé ekki til. Jesús lofar þeim eilífu lífi og eilífri sælu sem á hann trúa. Það stendur Halldóri til boða vilji hann kannast við Jesúm Krist.

Halldór bendir á að kristnir menn hafi látið margt gott af sér leiða. Hann minnist einnig á það sem miður hefur farið og skyggnist langt aftur í aldir til að finna eitthvað ámælisvert. Vissulega geta kristniboðar gert mistök eins og aðrir.

Halldór kallar það yfirgang „að troða kristni ofan í kok á þjóðum sem telja sig líka eiga sín eigin „sönnu“ trúarbrögð“. Ef Halldór heldur að með þessum orðum lýsi hann best störfum kristniboðanna má með sama hætti segja að hann hafi sjálfur verið að troða skoðunum sínum ofan í kok á lesendum Morgunblaðsins þegar hann skrifaði grein sína í blaðið. Hlutverk kristniboðanna er að segja frá Jesú, kynna og boða trúna. Þeir sem á hlýða verða sjálfir að taka afstöðu.

Kristniboði sagði mér frá manni í Afríku sem spurði hvenær Íslendinar hefðu fengið að heyra fagnaðarboðskapinn. Þegar hann fékk að heyra svarið sagði hann undrandi: „Þið hafið þekkt Jesú í meira en þúsund ár, og þið eruð núna fyrst að koma til okkar. Hvers vegna komuð þið ekki miklu fyrr?“

Fátæk fjölskylda á eina geit, það er allur bústofninn. Ef einhver í fjölskyldunni veikist alvarlega þá er geitinni með fyrirsjáanlegum afleiðingum slátrað sem fórn til að blíðka andana í þeirri von að lækning fáist. Fólkið lifir í stöðugum ótta við illa anda.

Þetta eru sterk dæmi sem minna okkur á að við sem höfum heyrt fagnaðarerindið berum ábyrgð á að boðskapurinn berist áfram til þeirra sem enn lifa í myrkri heiðninnar.

Höfundur er formaður í Kristniboðsfélagi karla í Reykjavík.