Akstursmál Ragnhildur Hjaltadóttur ráðuneytisstjóri, Kristján Möller samgönguráðherra og Sturla Jónsson atvinnubílstjóri funduðu í gær.
Akstursmál Ragnhildur Hjaltadóttur ráðuneytisstjóri, Kristján Möller samgönguráðherra og Sturla Jónsson atvinnubílstjóri funduðu í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
STURLU Jónssyni, talsmanni vörubílstjóra, og Kristjáni Möller samgönguráðherra ber engan veginn saman um gagnsemi fundar sem aðilar áttu í gær. Sturla segir fundinn hafa verið gagnslausan, en Kristján er því ósammála.

STURLU Jónssyni, talsmanni vörubílstjóra, og Kristjáni Möller samgönguráðherra ber engan veginn saman um gagnsemi fundar sem aðilar áttu í gær. Sturla segir fundinn hafa verið gagnslausan, en Kristján er því ósammála.

Fimm vörubílstjórar og atvinnurekendur funduðu með ráðherra í gær vegna laga um hvíldartíma bílstjóra sem þeir sætta sig ekki við. Fyrir brot á hvíldartíma hafa bílstjórarnir verið sektaðir, allt upp í hálfa milljón króna, að sögn Sturlu. Hann segir að sektirnar snúi að ríkissaksóknara og samgönguráðherra hafi sagt að hann ætlaði að mælast til þess að menn yrðu ekki sektaðir á meðan málið væri í vinnslu. Kristján segir þetta ekki rétt skilið hjá Sturlu. „Við tókum það skýrt fram að við gætum ekki gert svona hluti og þetta eru geggjaðar kröfur,“ segir Kristján. „Það er ekki hægt að taka af öll sektarákvæði en hins vegar sagði ég þeim að það væri ekkert keppikefli okkar að fá fullt af sektum inn í ríkissjóð.“

Bílstjórarnir hafa gagnrýnt að þeir þurfi að endurnýja ökuskírteinið á fimm ára fresti og síðan 2006 hafi þeir auk þess þurft að fara á 35 stunda námskeið sem kosti nú 70 þúsund krónur. Sturla segir að á fundinum hafi þeir líka bent á að þeim þætti ekki gáfuleg sú ákvörðun að nú væri hægt að fá meiraprófið 18 ára og hefðu lagt til að miða ætti við 21 árs aldur. „Hann tók vel í það,“ segir Sturla um viðbrögð ráðherra.

Kristján segist hafa skýrt bílstjórum frá því sem ráðuneytið hefði unnið að vegna undanþágna á reglum fyrir bílstjóra hérlendis. „Ég hef fengið tillögur frá ASÍ og SA að undanþágum fyrir breytingum í reglugerð um akstur og hvíldartíma. Í þessu höfum við verið að vinna nokkuð lengi og munum skila inn til Eftirlitsstofnunar EFTA um miðjan þennan mánuð. Ég afhenti bílstjórunum þessar tillögur og bauð þeim upp á að þeir myndu senda ráðuneytinu athugasemdir.“

Kristján segir að kallað verði í Vegagerðina til að kanna hvernig reglum um akstur og hvíldartíma er framfylgt og hvort fara þurfi betur yfir þau mál. „Þetta voru hreinskiptnar og góðar umræður,“ segir Kristján.