Hjálmar Ágústsson fæddist á Bíldudal 30. maí 1920. Hann lést 14. mars síðastliðinn og var útför hans gerð frá Grensáskirkju 25. mars.

Hinn 14. marz lézt á Landakotsspítala Hjálmar Ágústsson, mágur minn. Lauk þar með margra mánaða baráttu við erfiðan sjúkdóm. Þá baráttu háði Hjalli með ótrúlegum kjarki og karlmennsku og kvartaði aldrei. Væri hann spurður um líðan sína voru svörin ýmist „það er ekkert að mér“ eða þá „mér líður ágætlega“.

Hinn l7. febrúar 1943 dundi mikið ólán yfir Bíldudal, er vélskipið Þormóður fórst með fjölda manns. Þar missti Hjalli foreldra sína og mág. Það var mikið áfall. Hjalli barðist áfram og hóf að byggja sér einbýlishús á Bíldudal. 3. marz 1945 kvæntist hann systur minni, Svandísi, og þau hófu búskap. Á fyrstu árum Rækjuverksmiðjunnar á Bíldudal var Hjalli verkstjóri þar. Um nokkurra ára skeið ráku þeir bræður Hjalli og Páll fiskverkunarhús á Bíldudal. Síðan starfaði Hjalli mörg ár sem verkstjóri fyrir Hraðfrystihús Suðurfjarðahrepps á Bíldudal. Loks starfaði hann sem eftirlitsmaður hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í allmörg ár og ferðaðist þá víða um land í því starfi. Alls staðar var Hjalli vel látinn og dugandi starfsmaður.

Hjalli var einstaklega geðgóður og ljúfur maður og lagði ekki hnjóðsyrði í garð annarra manna. Hann hafði gaman af söng og leik og söng árum saman með kirkjukór Bílddælinga og lék með áhugaleikurum á Bíldudal. Hann var listfengur og laghentur og eftir hann liggja margir fagrir munir sem minna á hagleik hans.

Margar voru gleðistundirnar sem við hjónin og börnin okkar áttum með Hjalla og Svandísi og börnum þeirra, ýmist á þeirra heimili eða okkar og einnig á ferðalögum. Minningar um þær stundir ylja enn og munu ávallt gera.

Við þökkum Hjalla samfylgdina og biðjum góðan guð að fylgja honum á nýrri vegferð hans og veita þeim huggun og styrk, sem syrgja og sakna.

Jónas Ásmundsson og Guðríður Sigurðardóttir