Jóhannes Sævar Jóhannesson fæddist í Vestmannaeyjum 15. júlí 1941. Hann lést 20. mars síðastliðinn og fór útför hans fram frá Háteigskirkju 3. apríl.

Þú leiðir oss, Drottinn, að lindunum hreinu,

þú ljósið þitt kveikir við himnanna stól.

Um tíma þó syrti, þá brátt aftur birtir,

þú breiðir út þinn faðm og veitir oss skjól.

(Óskar Ingimarsson)

Elsku Ágústa, Svava, Jóhanna María, Alda Lára, Halldór, Þórunn Ágústa, Ella, Anna Lillý og mamma. Guð styrki ykkur í sorginni og gefi ykkur kraft til að horfa fram á veginn.

Ásta, Adolf, Gunnar Þór, Margrét, Bjarni og fjölskyldur.

Við lögðum af stað í páskafrí grunlaus um sorgina sem biði okkar. Sævar frændi er fallinn frá, við þá hugsun fyllist hjarta mitt af reiði, sorg og ótal spurningum sem ekki er hægt að svara. Ég verð þér ævinlega þakklát fyrir hve mikið þú hjálpaðir okkur þegar pabbi þurfti að fara í aðgerðina í haust, vitandi það að þér hefði gengið og liðið svona vel eftir samskonar aðgerð, þú gafst okkur trú og von um að pabbi okkar færi sko létt með þetta líka, sem hann svo gerði. Mér eru minnisstæðar heimsóknirnar til ykkar Gústu á Víðimelinn og hjólhýsið sem síðan varð að virðulegum sumarbústað og þótti okkur systrum ekki amalegt að fá að spóka okkur um í sveitasælunni.

Ég er svo stolt af frænda mínum sem vann áður sem sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður og vann nú hjá SHS og var ég ófeimin við að segja frá því að ég ætlaði sko að verða alveg eins og þú, enda slökkviliðið og sjúkraflutningar draumastarfið. Ég veit að þú skilur eftir þig stórt skarð hjá þeim og ég hef heyrt ófáar hetjusögur um þig. Mér gremst að hafa ekki fengið að kveðja þig. Ég veit að afi tekur vel á móti þér, þú munt alltaf lifa í hjarta okkar.

Góða nótt, elsku frændi, ég mun sakna þín. Við kveðjum þig með trega, elsku frændi minn, því farinn ertu núna í nýjan og betri heim. Við englunum nú treystum, treystum fyrir þér ég horfi nú til himins og segi góða ferð.

Þín frænka

Lára Kristín.

Við kveðjum í dag góðan félaga, Jóhannes Sævar Jóhannesson. Vorið 2005 réðst Jóhannes Sævar til Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Þar var þó ekki nýliði á ferð, því Sævar, eins og hann var jafnan kallaður, átti tveggja áratuga farsælan starfsferil að baki í Slökkviliði Reykjavíkur, áður en hann hætti til að helga krafta sína eigin fyrirtæki árið 1990. Þótt hann skipti um starfsvettvang voru slökkviliðs- og öryggismál ekki langt undan, því fyrirtæki Sævars, Prófun ehf., þjónaði slökkviliðinu á ýmsan hátt. Sævar seldi sinn hlut í fyrirtækinu árið 2001, þó hann starfaði hjá því í nokkur ár eftir það.

Starfsferill Sævars í tengslum við öryggismál og slökkvistörf spannar þannig næstum því fjóra áratugi. Hann hóf störf hjá Slökkviliði Reykjavíkur vorið 1969, var fastráðinn í febrúar 1971 og aðstoðarvarðstjóri frá 1975. Það var því mikill fengur í því fyrir okkur hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins að fá hann aftur til okkar fyrir um þremur árum, til að hafa umsjón og eftirlit með ýmsum búnaði sem tengist vatns-, reyk- og eiturefnaköfun. Það var okkur mikils virði að njóta þeirrar yfirburðaþekkingar sem hann hafði á slíkum búnaði, eftir að hafa verið viðloðandi slökkviliðið í þessa fjóra áratugi. Hann var alltaf til staðar og í góðum tengslum, þótt vinnustaðurinn væri annar um tíma. Fleiri nutu þekkingar Sævars, því til hans leituðu aðrir viðbragðsaðilar, svo sem lögregla og Landhelgisgæslan.

Sævar frá upphafi mjög virkur í félagsmálum slökkviliðsmanna. Honum voru falin ýmis trúnaðarstörf og var m.a. formaður Brunavarðafélags Reykjavíkur 1979-82, gegndi trúnaðarstörfum í norrænu samstarfi slökkviliðsmanna og sat þing Landssambands slökkviliðsmanna, auk annarra trúnaðarstarfa.

Sævar var góður vinnufélagi. Hann var harðduglegur og vildi hafa hlutina í góðu lagi. Þegar hann hóf aftur störf hjá SHS, eftir hlé, tók hann við viðhaldsaðstöðunni í kjallara slökkvistöðvarinnar í Skógarhlíð, en tók síðan þátt í að byggja upp nýja aðstöðu í gamla þvottahúsinu. Það var liður í öllum þeim breytingum sem gerðar voru í Skógarhlíðinni á þessum tíma. Hann var óþreytandi að byggja upp og bæta aðstöðuna, þannig að nú er hún líklega með því besta sem þekkist á þessu sviði. Sævar hafði þó ýmsar hugmyndir um frekari umbætur á aðstöðu og vinnuferlum og það kemur í okkar hlut sem eftir erum að hrinda þeim í framkvæmd.

Það er mikill missir að Sævari. Við söknum vinar og vinnufélaga og það er skaði fyrir slökkviliðið að njóta ekki lengur starfskrafta hans og þekkingar, en við erum um leið þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Sævari og vinna með honum. Mestur er þó missir fjölskyldunnar. Sævar var mikill fjölskyldumaður og hafði hugann við velferð sinna nánustu, um leið og hann sinnti störfum sínum af einstakri trúmennsku.

Fyrir hönd Slökkviliðs höfuðborgarsvæðsins og samstarfsfólksins votta ég fjölskyldu Sævars samúð mína. Góður drengur lifir áfram í verkum sínum og góðum minningum.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri.

Góður vinur og nágranni hefur kvatt snögglega og söknuðurinn er sár því ekki vorum við hjónin aðeins nágrannar Sævars, en svo var hann ávallt kallaður, þeir Sigmundur R. Helgasson, eiginmaður minn, voru stúkubræður í Oddfellow st. nr.1 Ingólfi, því urðu kynni okkar nánari. Mikil var ánægjan hjá mér þegar í ljós kom að Sævar var Vestmannaeyingur í húð og hár, en undirrituð átti þar stóran frændgarð. Þessi tengsl urðu til þess að kynni okkar af þessum öðlingi urðu meiri og nánari. Gaman var að rifja upp gamlar sögur úr Eyjum og af mörgu var að taka því móðir mín var sagnaþulur og sagði lifandi frá þannig að mér fannst ég vera á heimavelli þegar tal barst að Eyjum. Sævar var einstaklega léttur í lund og í huganum geymum við minninguna um góðan dreng sem sýndi með framkomu sinni hlýhug og umhyggju til okkar og fyrir það þökkum við.

Við biðjum Guð að blessa Ágústu og gefa henni styrk. Samúðarkveðjur til Svövu og Öldu og fjölskyldna þeirra og til aldraðrar móður og systkina.

Pálína Sigurjónsdóttir.

Kveðja frá Brunavarðafélagi Reykjavíkur

Það fékk mjög á mig þegar slökkviliðsstjórinn hringdi í mig seinni partinn á skírdag og spurði hvort það væri rétt að Jóhannes Sævar væri látinn. Ég hafði ekki heyrt neitt um það en fékk það verkefni að kanna hvort þetta væri rétt.

Ég sá Sævar fyrst þegar ég var eina vakt á slökkvistöðinni í mars 1990. Þessum manni kynntist ég svo betur þegar ég fór að vinna hjá honum í Prófun.

Í tíu ár var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að starfa þar með honum og öðrum úr fjölskyldunni hans. Síðastliðin þrjú ár unnum við svo saman á slökkvistöðinni.

Á þessum árum var ég ekkert byrjaður að starfa að félagsmálum en hann uppfræddi mig um það sem hafði gerst á þeim árum sem hann hafði starfað hjá slökkviliðinu sem voru miklir umbrotatímar. Það má segja að það sem þessir menn sáðu erum við að uppskera í dag með þeim breytingum sem urðu um og eftir 1990.

Alltaf var hægt að fá álit á hinum ýmsu málum og sagnfræðilega stöðu annarra mála hjá honum. Með því var hægt að ná meira samhengi í venjur og hefðir sem skapast hafa á svona vinnustað eins og við unnum á.

Sævar eins og hann var oftast kallaður gat verið nokkuð snöggur upp en jafn fljótur niður aftur. Hann hafði gaman af því að segja sögur og hlusta á skemmtisögur. Þá var eins og það birti í augunum á honum og svo kom mikil hlátursroka á eftir og þegar vel tókst til fylgdu líka tár.

Sævar hafði gaman af því að vasast í félagsmálum og var hann allvirkur á þeim vettvangi. Hann var í forystu Starfsmannafélags Rvk., einnig var hann formaður BR og sat í ýmsum nefndum fyrir slökkviliðsmenn.

Sævar var fulltrúi slökkviliðsmanna í fjögur kjörtímabil hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkur, fyrst sem varafulltrúi og eitt tímabil sem aðalmaður.

Hann var einnig formaður í BR í þrjú tímabil þannig að hann kom að flestum þeim málum sem var verið að höndla með í hans tíð.

Hann stofnaði ásamt öðrum prófunarstöð fyrir öndunarbúnað.

Segja má að hann hafi verið sá sem náði mestri færni í því fagi hérlendis. Því má segja að með honum sé gengin mikil þekking sem okkur slökkviliðsmönnum er nauðsyn til að geta stundað okkar störf.

Það mun taka langan tíma að loka því skarði sem Sævar skilur eftir sig.

Ég verð að geta þess að hann fékk leyfi slökkviliðsstjóra til að setja upp á allar stöðvar bæn slökkviliðsmannsins, skrautritaða og í ramma. Það var svo fyrir nokkrum vikum að sú hugmynd kviknaði að semja lag við bænina. Ég spurði hann hvort hann vissi hvort til væri lag við bænina. Hann kannaðist ekki við það. Við komum okkur þá saman um að láta semja lag við hana. Verður það frumflutt við útför hans.

Með Sævari er genginn mikill hugsjónamaður um velferð slökkviliðsmanna.

Það kemur því að okkur sem eftir stöndum að halda merki hans á lofti.

Gústa, Svava, Alda Lára, Halldór, Jóhanna, Þórunn, Ella, Anna og aðrir í fjölskyldunni, þið hafið misst mikið. Því bið ég góðan Guð að vernda ykkur öll og styrkja með öllum þeim mætti sem hann á til.

Fyrir hönd BR

Sverrir Björn Björnsson.