Haraldur „Þegar horft er á þessar stórsýningar í Covent Garden og Salzburg er ekki hægt annað en dást að þeim kraftaverkum sem unnin eru í þröngum húsakynnum Íslensku óperunnar í Gamlabíói!“
Haraldur „Þegar horft er á þessar stórsýningar í Covent Garden og Salzburg er ekki hægt annað en dást að þeim kraftaverkum sem unnin eru í þröngum húsakynnum Íslensku óperunnar í Gamlabíói!“ — Morgunblaðið/Haraldur Guðjónsson
Hlustari Ég hef undanfarið skemmt mér við að horfa á og bera saman tvær uppfærslur á óperunni La Traviata eftir Verdi.

Hlustari

Ég hef undanfarið skemmt mér við að horfa á og bera saman tvær uppfærslur á óperunni La Traviata eftir Verdi. Annars vegar er það uppfærsla sem Sir George Solti stýrði í Konunglegu óperunni í Covent Garden þar sem Angela Gheorghiu syngur hlutverk Víólettu Valery, Frank Lopardo er elskhuginn Alfredo Germont og Leo Nucci syngur hlutverk föður hans, Giorgio. Þessi uppfærsla, sem kom út á mynddiski hjá Decca árið 1995 (og fæst í Tólf tónum á Skólavörðustíg), er með sígildu sniði: sögusviðið er París árið 1840, konurnar eru í síðkjólum með blævængi og karlarnir í kjólfötum með hvíta hanska. Hins vegar er uppfærsla frá Salzburg með Vínarfílharmóníunni undir stjórn Carlos Rizzis og hinni rússnesku Önnu Netrebko, Rolando Villazón og Thomas Hampson í aðalhlutverkum. Þetta er aftur á móti afar nútímaleg uppfærsla og gjörólík hinni fyrri: Víóletta er í stuttum, eldrauðum kjól og lifir sínu skemmtanalífi í kappi við stóra klukku á sviðinu.

Þessi uppfærsla var gefin út á mynddiski hjá Deutsche Grammophon árið 2005. Nýlega sá ég líka þriðju uppfærsluna í Íslensku óperunni þar sem Hulda Björk Garðarsdóttir, Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Tómas Tómasson sungu aðalhlutverkin og gerðu það frábærlega vel. Ég mæli eindregið með mynddiskunum frá Covent Garden og Salzburg og vona líka að sem flestir hafi séð uppfærslu Íslensku óperunnar sem var frábær (en sýningum er nú lokið). Þegar horft er á þessar stórsýningar í Covent Garden og Salzburg er ekki hægt annað en dást að þeim kraftaverkum sem unnin eru í þröngum húsakynnum Íslensku óperunnar í Gamlabíói!

Haraldur Bernharðsson, málfræðingur á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.