— Morgunblaðið/Golli
Reykjanesbær | Þótt samdráttur hafi verið í byggingariðnaði á Suðurnesjum að undanförnu, eins og víðast um landið, eru nýjar verslanir að bætast við og aðrar að stækka við sig.

Reykjanesbær | Þótt samdráttur hafi verið í byggingariðnaði á Suðurnesjum að undanförnu, eins og víðast um landið, eru nýjar verslanir að bætast við og aðrar að stækka við sig. Þannig hefur Múrbúðin opnað verslun á iðnaðarsvæðinu við Helguvík og Húsasmiðjan og Blómaval flutt í nýtt húsnæði á Njarðvíkurfitjum.

Verslun Múrbúðarinnar í Reykjanesbæ er jafn stór verslun hennar á Kletthálsi í Reykjavík. Hún var opnuð fyrr í vikunni. Stjórnendur Múrbúðarinnar fóru að skoða markaðinn á Suðurnesjum eftir að hafa fengið áskoranir um að koma þangað. „Við eigum trausta viðskiptavini á Suðurnesjum og fundum mikinn áhuga hjá þeim,“ segir Baldur Björnsson framkvæmdastjóri.

Hann segir að vissulega hafi það einnig haft áhrif að þetta sé ört vaxandi samfélag og framundan framkvæmdir við álver og fleira, en það hafi ekki haft úrslitaáhrif. Verslunin er skammt frá álverslóðinni.

Aukning á hverju ári

Húsasmiðjan og Blómaval opnuðu í gær verslanir sínar í nýju húsnæði á Njarðvíkurfitjum. Húsnæðið er samtals um 3.000 fermetrar að stærð og þar er einnig til húsa Ískraft, dótturfyrirtæki Húsasmiðjunnar, sem selur fagmönnum raflagnaefni.

Árni Júlíusson, rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar í Reykjanesbæ, segir að Húsasmiðjan sé búin að vera með starfsemi í Reykjanesbæ í ellefu og hálft ár, í óhentugu leiguhúsnæði. Starfsemin hafi gengið vel, aukning á hverju ári þangað til í ár, og ákveðið hafi verið að fara í nýtt húsnæði sem hentaði undir nútíma verslunarrekstur.

Húsasmiðjan og BYKO hafa verið aðalleikendur á byggingamarkaðnum á Suðurnesjum. Nú hefur Múrbúðin bæst við en hún hefur skapað umræðu og aukna samkeppni á vissum sviðum þótt hún sé mun minni en stórverslanirnar. Baldur segir að það muni vafalaust gerast á Suðurnesjum. Árni Júlíusson segir að samkeppni hafi verið á markaðnum en hún muni nú væntanlega aukast.

Í hnotskurn
» Húsamiðjan og BYKO hafa verið helstu byggingarvöruverslanirnar í Reykjanesbæ. Nú hefur Múrbúðin bæst við og Húsasmiðjan og Blómaval flutt í nýtt húsnæði.