Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is LÖGREGLAN á Akranesi hyggst boða fyrrum leigjendur íbúðar, þar sem köttur var skilinn eftir við flutninga, í skýrslutöku á næstunni vegna brota á dýraverndarlögum.

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson

orsi@mbl.is

LÖGREGLAN á Akranesi hyggst boða fyrrum leigjendur íbúðar, þar sem köttur var skilinn eftir við flutninga, í skýrslutöku á næstunni vegna brota á dýraverndarlögum. Lögreglan fékk í vikunni ábendingu um að kötturinn væri vanræktur og yfirgefinn í íbúðinni og þurftu lögreglumenn að klifra utan á húsinu til að komast í íbúðina inn um svalir á 3. hæð. Kötturinn var þar inni og hafði mjálmað mikið í einverunni við sívaxandi hungur. Hann var grindhoraður og nær dauða en lífi þegar að var komið og var komið í hendur dýraeftirlitsmanns sem lógaði dýrinu síðar.

Brot á dýraverndarlögum

Lögreglan segir að hér sé um að ræða brot á dýraverndarlögum með því að skilja köttinn eftir í reiðileysi. Málið er nú í formlegri rannsókn lögreglunnar en skýrslutökur eru ekki hafnar.

Að sögn lögreglunnar er afar leitt þegar dýr eru látin sæta annarri eins meðferð og hér um ræddi.

Samkvæmt dýraverndarlögum frá 1994 er skylt að fara vel með öll dýr. Eigendum eða umráðamönnum dýra ber að sjá þeim fyrir viðunandi vistarverum og fullnægjandi fóðri, drykk og umhirðu. Leiki grunur á að um sé að ræða alvarlegt brot gegn lögunum, getur lögregla fyrirvaralaust tekið dýr úr vörslu eiganda eða umsjónarmanns. Í þessu skyni má lögregla fara inn í íbúðarhús án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi dýrunum heilsutjóni.

Allt að tveggja ára fangelsi liggur við brotum á dýraverndarlögum.

Hafi maður gerst sekur um stórfellt eða ítrekað brot á lögunum má svipta hann með dómi heimild til að hafa dýr í umsjá sinni, versla með þau eða sýsla með þau með öðrum hætti.

Málið hefur vakið nokkra athygli í bloggheimum á mbl.is og lýsa höfundar þar vanþóknun sinni á meðferð kattarins.

Hófý Sig.

Mannvonska eða kæruleysi?

Hvers konar fólk lokar dýr inni til að svelta í hel? Ótrúleg mannvonska eða svona yfirgengilegt kæruleysi, ég skil ekki hvað fólk er að pæla.

hofyan.blog.is

Katrín Björg Hannesdóttir

Hjartaverkur

Ég fæ verk í mitt litla hjarta að lesa þessa frétt! Hvernig getur fólk gert þetta, skilið varnarlaus dýr eftir án matar í marga daga? Mér finnst það eigi að taka harðar á dýramisnotkun og vonandi fær þessi „eigandi“ einhverja refsingu.

katan.blog.is/blog

Linda litla

Langar að gráta

Hvernig getur fólk gert þetta? Þetta er hræðilegt, mig sem dýravin langar hreinlega að gráta yfir þessu.

bestalitla.blog.is