Mos Def
Mos Def
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásgeir H Ingólfsson asgeirhi@mbl.is Rapparinn Mos Def náði loksins að stimpla sig almennilega inn sem leikari með leik sínum í Be Kind Rewind og hann mun fylgja því eftir með því að leika sjálfan Chuck Berry í myndinni Cadillac Records.

Eftir Ásgeir H Ingólfsson

asgeirhi@mbl.is

Rapparinn Mos Def náði loksins að stimpla sig almennilega inn sem leikari með leik sínum í Be Kind Rewind og hann mun fylgja því eftir með því að leika sjálfan Chuck Berry í myndinni Cadillac Records. Titillinn vísar í plötufyrirtæki sem átti sannkallaðan blómatíma á sjötta áratugnum þegar Berry hóf ferilinn þar, sem og tónlistarmenn á borð við Muddy Waters og Howlin' Wolf. Adrien Brody leikur Leonard Chess, sem stofnaði fyrirtækið, en nafn þess vísar til þess að í upphafi geymdu þeir plöturnar sem þeir seldu í skottinu á Cadillac. Það er svo Jeffrey Wright sem leikur Muddy Waters og Eamonn Walker sem túlkar Howlin' Wolf. Meðal annarra leikara eru Beyoncé Knowles sem Etta James, Gabriella Union og Cedric the Entertainer.

Það er alls óvíst enn hvort Tobey Maguire mun klifra veggi í fjórða sinn sem Köngulóarmaðurinn en það er þó á hreinu að hann hefur ekki sagt skilið við teiknimyndasögurnar að fullu. Hann mun á næstunni leika aðalhlutverkið í Afterburn, sem byggð er á samnefndri teiknimyndasögu sem fjallar um framtíðarveröld þar sem sólin sjálf hefur breytt hálfri jörðinni í sólbrunnið eyðiland þar sem aðeins stökkbreyttar furðuverur þrífast. Á hinum helmingnum er allt í upplausn og verðmæti eins og Mona Lisa og krúnudjásn konungsfjölskyldna eru bitbein málaliða, sjóræningja og fleiri ribbalda. Og þá hafa stökkbreyttu furðuverurnar líka smekk fyrir óræðu brosi Monu.

Tony Gilroy var kunnastur fyrir að skrifa handritið að þríleiknum um Jason Bourne þangað til hann sló í gegn og fékk óskarstilnefningu fyrir sína fyrstu bíómynd sem leikstjóri, Michael Clayton. Hann mun fylgja henni eftir með Duplicity, sem líkt og Michael Clayton snýst um stór alþjóðafyrirtæki sem einskis svífast, en í þetta skiptið er um að ræða baráttu á milli aðalnjósnara tveggja slíkra fyrirtækja. Í helstu hlutverkum eru Paul Giamatti, Clive Owen og Julia Roberts, auk Tom Wilkinson, sem fékk einmitt óskarstilnefningu fyrir leik sinn í Michael Clayton.

Dany Boon er kvikmyndagerðarmaður og leikari sem jafnvel helstu áhugamenn um evrópskar kvikmyndir kannast varla við. En nýjasta mynd hans, Velkomin til CH'TIS (Bienvenue chez les CH'TIS) er engu að síður að gera allt vitlaust í Frakklandi og sló nýlega tíu ára gamalt met Titanic í frönsku miðasölunni og er nú tekjuhæsta mynd allra tíma í Frakklandi. Miðað við umfjöllunarefni myndarinnar virðist þó ólíklegt að þessi gamanmynd haldi í svipaða sigurgöngu á heimsvísu. Hún fjallar nefnilega um mann frá Suður-Frakklandi sem er sendur í útlegð til Norður-Frakklands og gengur mest út á að gera grín að staðalmyndum íbúa mismunandi landshluta Frakklands - eitthvað sem virðist vera ansi lókal húmor. En hver veit, kannski virka Hafnafjarðarbrandarar jafnvel alls staðar?