Góður félagsskapur Magni Ásgeirsson brá á leik með félögum sínum í Latabæ í gær. Hann syngur opnunarlagið í nýrri þáttaröð um Íþróttaálfinn, vini hans og illmennið Glanna glæp.
Góður félagsskapur Magni Ásgeirsson brá á leik með félögum sínum í Latabæ í gær. Hann syngur opnunarlagið í nýrri þáttaröð um Íþróttaálfinn, vini hans og illmennið Glanna glæp. — Morgunblaðið/Jón Svavarsson
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

„MÉR var sýndur sá heiður að fá að kíkja inn í Latabæ í smástund og raula eitt lag,“ segir tónlistarmaðurinn Magni Ásgeirsson sem syngur opnunarlagið í nýjustu Latabæjarþáttunum sem eru í framleiðslu um þessar mundir. Nýju þættirnir heita Lazy Town extra og verða með fremur óhefðbundnu sniði en þeir verða líklega frumsýndir í Bretlandi í september. Í kjölfarið verða þættirnir sýndir víða um heim og mun Magni hljóma í öllum enskumælandi löndunum. „Magnús Scheving kom mér einu sinni enn á óvart. Það er ekki nóg með að hann sé duglegasti maður á Íslandi heldur kom í ljós að hann er helvíti fínn „producer“ líka, þegar kemur að því að útskýra hvað hann vill,“ segir Magni en lagið sem hann syngur er eftir Mána Svavarsson.

Vinsæll í Kanada

Annars er nóg að gera hjá Magna um þessar mundir. „Ég er byrjaður að æfa fyrir Queen-show með kór Fjölbrautaskóla Suðurlands. Ég er sem sagt einsöngvari með kór og er að berjast við að reyna að ná Freddie Mercury,“ segir Magni en verkið verður sýnt í íþróttahúsi FSu á Selfossi hinn 21. maí. „Það er nú bara stefnt að þessari einu sýningu, enda er þetta 800 manna hús. En ef allt verður brjálað verður þetta örugglega sett upp aftur.“

Nýverið hélt Magni svo tvenna tónleika í Toronto í Kanada ásamt hljómsveit sinni en tónleikarnir voru hluti af Iceland Naturally hátíðinni sem haldin var í borginni dagana 10. til 16. mars. Aðspurður segir Magni tónleikana hafa gengið gríðarlega vel. „Kanadamenn virðast muna mjög vel eftir mér, enda horfðu þeir næstum því jafnmikið á Rock Star og Íslendingar. Lukas Rossi sem vann er náttúrulega Kanadabúi, auk þess sem J.D. Fortune sem vann Rock Star INXS er líka frá Kanada,“ útskýrir Magni sem útilokar ekki að hann muni spila meira í Kanada á næstunni. Hvað Á móti sól varðar segir Magni styttast í nýja plötu frá sveitinni en þeir félagar hafa nú þegar pantað hljóðver í Danmörku í lok júní. Það er því engin lognmolla í kringum Magna, frekar en venjulega. „Ég er líka alltaf að spila svona þrisvar til fjórum sinnum í viku. Ég var meira að segja að spila klukkan átta í morgun [gærmorgun], í skóla í Garðabæ með henni Birgittu minni. Þannig að það er nóg að gera.“