Ágúst Úlfar Sigurðsson
Ágúst Úlfar Sigurðsson
Ágúst Úlfar Sigurðsson lítur til baka til hins alræmda dags 1.1. 2000: "Þegar 1.1. 2000 rann upp héldu vaxtareikningakerfi bankanna áfram að virka og sömuleiðis flest önnur lífsnauðsynleg tölvukerfi."

RÚM átta ár eru liðin síðan við kvöddum árið 1999 og sá alræmdi dagur, 1.1.2000 gekk í garð. Ef ekki hefði komið til ákveðinn vandi í mörgum tölvukerfum hefðu þessi áramót ekki verið merkilegri en venjulegt stórafmæli. Vandinn fólst í því að mörg tölvukerfi varðveittu aðeins tvo öftustu tölustafi í ártölum og gerðu ráð fyrir því að þeir tveir fremstu væru alltaf 19. Heimskulegt myndu sumir segja, en skýringin liggur í því hve tölvuminni var dýrt lengi fram eftir tölvuöld. Menn neyttu allra bragða til að spara tölvuminnið og geymslurými fyrir gögnin.

Skyndilega var komin upp veruleg hætta á því að forrit sem höfðu árum saman reiknað út dagafjölda milli tveggja dagsetninga myndu skila röngum niðurstöðum. Sama gilti um forrit sem röðuðu eftir dagsetningum því þau höfðu engin tök á að sjá hvort 1.1.00 væri í raun árið 1900 eða 2000. Sem betur fer voru til sérfræðingar sem áttuðu sig tímanlega á hættunni og vöktu athygli á henni, m.a. í fjölmiðlum. Við fyrstu sýn virtist vandinn vera fremur lítill, en þegar betur var gáð fundust ótrúlega margir þættir í daglegu lífi okkar sem voru háðir því að tölvukerfin reiknuðu dagsetningar rétt. Í hinum tæknivædda heimi okkar eru svo margir þættir háðir hver öðrum að hæglega mátti búast við víxlhrifum þar sem víðtæk truflun í einum geira myndi valda alvarlegum truflunum í öðrum geirum o.s.frv. Truflun á flugsamgöngum gæti t.d. orsakað skort á lyfjum eða varahlutum, sem aftur myndi trufla einhverja aðra starfsemi o.s.frv. Áhættan var ekki einskorðuð við landamæri því að erfiðleikar í einu landi gátu augljóslega hrundið af stað alvarlegri atburðarás í öðrum löndum. Sum stórfyrirtæki mátu áhættuna svo mikla að þau gerðu baksamninga við tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki um að fá forgangsþjónustu ef á þyrfti að halda og einstaka bölsýnismenn urðu svo helteknir af áhyggjum að þeir komu sér upp neðanjarðarbyrgjum með vistum og verjum til að lifa af hörmungar á borð við kjarnorkuvetur.

Sem betur fer gengu hrakspárnar ekki eftir. Þegar 1.1. 2000 rann upp héldu vaxtareikningakerfi bankanna áfram að virka og sömuleiðis eftirlitskerfi með flugvélavarahlutum og flest önnur lífsnauðsynleg tölvukerfi. Einungis bárust fréttir af tiltölulega fáum og afmörkuðum tölvuvandamálum og nóg var af sérfræðingum til að leysa þau.

Þótt nú séu liðin 8 ár heyrast af og til raddir sem fullyrða að hinn margumræddi tölvuvandi ártalsins 2000 hafi verið stórlega ýktur og þaninn út úr öllu samhengi. Til sannindamerkis er gjarna bent á það hve afleiðingarnar reyndust vera litlar í samanburði við hrakspárnar sem fjölmiðlar höfðu flutt fólki. Það hefur greinilega farið fram hjá þessum sömu að margvíslegar fyrirbyggjandi aðgerðir voru gerðar í flestum löndum heims til að leysa vandann áður en hann varð að vandamáli. Ég þekki vel til þess hvernig unnið var að þessu hjá Seðlabanka Íslands því ég var starfsmaður bankans á þessum tíma og stýrði þar undirbúningi vegna ártalsins 2000, þúsaldarvandans.

Líkt og hjá flestum samstarfsaðilum bankans var farið ítarlega yfir öll forrit og tölvubúnað til að sannreyna hvort tölvuklukkur myndu tifa rétt yfir áramótin og hvort forritin myndu starfa rétt þegar þeim færu að berast dagsetningar hinnar nýju þúsaldar. Einnig var haft samband við alla helstu birgja og samstarfsaðila innanlands sem utan til að kanna hvernig þeirra málum var háttað og hvort mætti treysta á að starfsemi þeirra héldist ótrufluð. Loks var margvísleg gagnaöflun viðhöfð til að miðla og fylgjast með reynslu annarra.

Í örstuttu máli lagði bankinn u.þ.b. 4 mannár í verkið og endurnýjaði auk þess tölvur og aðkeyptan hugbúnað fyrir rúmar 20 milljónir króna. Við prófun og yfirferð á forritum bankans komu í ljós 90 staðir þar sem þurfti að breyta forritunum til að tryggja rétta virkni með ártöl hinnar nýju þúsaldar. Vissulega var talsverðu til kostað, en fyrir bragðið varð engin truflun á starfseminni. Svipað gilti um samstarfsaðila bankans, sem lögðu út þann kostnað sem þurfti til að tryggja starfsemi sína.

Ekki er hægt að slá neinu föstu um það hversu mikið hefði gengið eftir af hrakspám ef ekki hefði verið brugðist tímanlega við vandanum, en ég er þess fullviss að ef vaxtareikniforrit bankanna hefðu skyndilega tekið upp á því að reikna vexti mánaðarlangs víxils eins og tímalengd hans væri mínus 99 ár og 11 mánuðir eða ámóta vitleysur hefðu komist inn í eftirlitskerfi fyrir flugvélavarahluti þá væru örugglega engir í dag að gaspra um þúsaldarvandann sem „ekkifrétt aldarinnar“.

Fyrir skömmu las ég bókina „The Road“ eftir Cormac McCarthy, sem lýsir ferðalagi feðga nokkurra um sviðna jörð eftir að miklar hörmungar höfðu gengið yfir. Sennilega var höfundurinn með afleiðingar kjarnorkustyrjaldar í huga, en það gætu einnig verið afleiðingar þúsaldarvandans eins og þær hefðu orðið verstar – eða framtíðarsýn um það sem kann að hrjá afkomendur okkar árið 10000 ef tölvukerfin verða ekki orðin hæf til að taka við fimm stafa ártölum!

Höfundur er tölvunarfræðingur og verkefnisstjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins.