Frá Eggerti Björgvinssyni: "HINN 13. mars sl. var greint frá því í kvöldfréttum RÚV að göng gengum Vaðlaheiði og tvöföldun á hluta Suðurlandsvegar væru á næsta leiti. Frábært og gott mál að bæta samgöngurnar hér á landi, sem sums staðar eru ekki upp á marga fiska."

HINN 13. mars sl. var greint frá því í kvöldfréttum RÚV að göng gengum Vaðlaheiði og tvöföldun á hluta Suðurlandsvegar væru á næsta leiti. Frábært og gott mál að bæta samgöngurnar hér á landi, sem sums staðar eru ekki upp á marga fiska.

Það sem vakti sérstaka athygli mína í þessari frétt var svar samgönguráðherra, Kristjáns Möller, þar sem hann var spurður hvers vegna innheimta ætti veggjald um Vaðlaheiðargöng en ekki um Suðurlandsveg. Samgönguráðherra svaraði orðrétt: „Það er vegna þess að menn hafa stundum talað um það þannig að ef það er ekki önnur leið til að fara eins og í Vaðlaheiði, þar hafa menn Víkurskarðið, þá setjum við þetta svona upp, en það er ekki á Suðurlandsvegi.“

Fín rök hjá Kristjáni, eða þessum mönnum sem „tala um það þannig“ að ef ekki er önnur leið til að fara þá eigi ekki að rukka. Ég skal viðurkenna það að ég er einn af þessum mönnum sem „tala um það þannig“ að ekki eigi að rukka þegar menn hafa ekki annan kost. Ég hef oft og iðulega haldið þessum rökum á lofti við þingmenn og ráðherra sem ég hef náð að króa af og neyða þá til að svara þessari spurningu. Flestir fara undan í flæmingi, tala í hringi og svara eins og sannir pólitíkusar, sem sagt engu. Nú hefur Kristján Möller samgönguráðherra slegið við öllum þessum hálfsvörum kollega sinna á þingi og svarað þessu hreint út. Enginn valkostur, ekkert að greiða.

Í 18 ár hef ég búið í Vestmannaeyjum. Þegar ég fer til Reykjavíkur á bílnum mínum fer ég alltaf með Herjólfi og borga fyrir það, stundum háar upphæðir. Hjá minni fjölskyldu eru útgjöldin í Herjólf á ári þau sömu og ein útborguð mánaðarlaun mín. Ég er bara svona tregur að ég hef enn ekki komið auga á „aðra leið“ sem ég get ekið til Reykjavíkur án þess að vera rukkaður. Kæri Kristján: Hvaða aðra leið en með Herjólfi eiga Vestmannaeyjingar að fara þegar þeir aka til Reykjavíkur?

EGGERT BJÖRGVINSSON,

búsettur í Vestmannaeyjum.

Frá Eggerti Björgvinssyni