Eftir Halldóru Þórsdóttur halldorath@mbl.is FÁIR treysta sér til að spá um það hvert lausafjárkreppan ætlar að leiða gengi hlutabréfa og hið áður nær óþekkta skuldatryggingarálag.

Eftir Halldóru Þórsdóttur

halldorath@mbl.is

FÁIR treysta sér til að spá um það hvert lausafjárkreppan ætlar að leiða gengi hlutabréfa og hið áður nær óþekkta skuldatryggingarálag.

Álag íslensku bankanna náði nýjum hæðum við lok síðustu viku, en lækkaði þó um 135-190 punkta í þessari viku miðað við tölur frá Credit Suisse. Frá áramótum hefur álagið þó þrefaldast á skuldabréf Kaupþings og nærri fimmfaldast hjá Glitni og Landsbankanum. Eins og bent hefur verið á sitja íslensku bankarnir þó ekki einir í súpunni. Um miðbik mars var gildi Itraxx vísitölunnar, sem mælir tryggingarálagið á alþjóðavísu, rúmlega þrefalt á við það sem var í upphafi árs. Það lækkaði þó aftur og er nú 70% hærra en við áramót.

Bjartara var yfir kauphöllinni í vikunni með 7,6% hækkun úrvalsvísitölunnar. Markaðsvirði Kaupþings hækkaði um 64,4 milljarða og Existu um 19,1 milljarð. Hlutfallslega hækkaði Spron mest, eða um 17,1% og öll fjármálafyrirtækin hækkuðu um 3% eða meira. Þá telur blaðamaður Dow Jones að íslensku bankarnir virðist ætla að standa af sér mesta storminn, þótt þeir ættu ekki að anda léttar alveg strax.