HVERNIG Á AÐ DEILA? Sigvarð Ara Huldarsson "Vil ég því hvetja frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra að fara hér varlega - spara sterku lýsingarorðin." Fyrir utanaðkomandi er erfitt að sjá af hverju skipan í sæti Alþýðubandalagsins á sameiginlegum...

HVERNIG Á AÐ DEILA? Sigvarð Ara Huldarsson "Vil ég því hvetja frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra að fara hér varlega - spara sterku lýsingarorðin." Fyrir utanaðkomandi er erfitt að sjá af hverju skipan í sæti Alþýðubandalagsins á sameiginlegum framboðslista fyrir næstu borgarstjórnarkosningar þurfi að vera vandamál. Þar keppi tvö félög um tvö sæti og ætti að vera auðvelt að skipta þeim jafnt. En því miður er þetta ekki svona einfalt. Annað félagið mun vera um það bil fimm til sex sinnum stærra og ef skipta á tveim sætum á milli svo misstórra aðila er viðbúið að annar þeirra geti illa sætt sig við niðurstöðuna. En sætin eru fleiri, því einnig er um varamannasæti að ræða og teldi ég að það ætti að geta leyst málið.

Talsmenn stefnunnar "einn maður eitt atkvæði" myndu varla telja það sanngjarna kröfu að Birtingarfélagar vegi sex sinnum meira en aðrir alþýðubandalagsmenn í Reykjavík. Annað atriði þessu tengt er svo hættan á að menn skipti sér í fleiri hópa ef ýtarlegustu kröfur Birtingar næðu fram. Ef það að stofna sérstakan nafngreindan þrýstihóp skilar sér í betri aðgangi að öruggum sætum og meiri áhrifum almennt þá hljóta að koma fram fleiri hópar innan Alþýðubandalagsins í Reykjavík sem væntanlega vilja að þeirra kröfur nái fram á svipaðan hátt þ.e. á kostnað stærsta félagsins. Þá verður þetta fyrst almennilega flókið!

Náist ekki samkomulag um röðun í þessi sæti sem allir geta sætt sig við er eina sanngjarna leiðin að láta skera úr um þetta í forvali. Eitt af því sem getur gert það harkalegt er skortur á ágreiningi um stefnu.

Þessir hópar aðgreindust upphaflega fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar vegna mismunandi afstöðu til framboðs með þeim sem síðan kölluðu sig Nýjan vettvang. Í þetta skiptið voru fulltrúar bæði ABR og Birtingar ákafir og samstíga í að ná fram sameiginlegu framboði. Því er enginn áþreifanlegur skoðanaágreiningur sem skilur frambjóðendurna að. Kosningabaráttan mun því eðlilega verða mjög persónuleg. Færð verða rök (eða sögusagnir) fyrir því að hinn frambjóðandinn sé ekki heppilegur sem fulltrúi Alþýðubandalagsins o.s.frv. og algengasta sagan verður líklega eins og áður hve "hinir" segir ljótar sögur um "okkur".

Þetta mun ekki vera mjög vænlegt til að ná fram lista af fólki sem getur unnið saman í borgarstjórn. Meira máli skiptir að menn sættist við niðurstöðuna hver sem hún verður en hver nákvæmlega er valinn. Vil ég því hvetja frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra að fara hér varlega spara sterku lýsingarorðin.

Þegar forvalið er yfirstaðið mælist ég svo til þess að félögin reyni að athuga hvaða hlutir mæli með þessari aðgreiningu og hvort ekki sé kominn tími til að sameinast ekki bara í framboði til borgarstjórnar - heldur í einn flokk Alþýðubandalagsmanna í Reykjavík.

Höfundur er Æskulýðsfylkingarfélagi.

Sigvarður Ari Huldarsson.