Kynslóðaskipti í Rússlandi Þorvald Gylfason "Þessir ungu umbótasinnar eiga sér eftirtektarverða sögu. Þeir náðu valdi á ensku á uppvaxtarárum sínum með því að hlusta á forboðnar útvarpssendingar frá útlöndum.

Kynslóðaskipti í Rússlandi Þorvald Gylfason "Þessir ungu umbótasinnar eiga sér eftirtektarverða sögu. Þeir náðu valdi á ensku á uppvaxtarárum sínum með því að hlusta á forboðnar útvarpssendingar frá útlöndum. Þeir kynntust líka vestrænum markaðsbúskaparháttum og menningu með þessu móti."

Rússneskir umbótasinnar hafa nú þurft að láta í minni pokann þar austur frá í bili að minnsta kosti.

Hverjir eru þeir annars, þessir menn? Þeir, sem mest kveður að, eru ungir og vaskir menn á milli þrítugs og fertugs, alsaklausir af óstjórn fyrri ára, vel upplýstir á alla lund og fullfærir um að skipuleggja og útfæra hinar róttæku efnahagsumbætur, sem eru Rússum bókstaflega lífsnauðsynlegar nú - og okkur hinum hugsanlega líka, því að án róttækra umbóta í Rússlandi gæti heimsfriðurinn verið í hættu.

Þessir ungu umbótasinnar eiga sér eftirtektarverða sögu. Þeir náðu valdi á ensku á uppvaxtarárum sínum með því að hlusta á forboðnar útvarpssendingar frá útlöndum. Þeir kynntust líka vestrænum markaðsbúskaparháttum og menningu með þessu móti. Þeir lærðu hagfræði með því að drekka í sig bækur, blöð og tímarit, sem var smyglað til þeirra að vestan, enda var enga nothæfa þjálfun að fá í þeim fræðum í rússneskum háskólum. Þeir tefldu sjálfum sér og fjölskyldum sínum í mikla hættu með þessu háttalagi. Það þurfti bæði dirfsku og dug til að búa sig undir það vandasama verk að reisa Rússland úr rústum. Og rússnesk alþýða, einkum í borgum landsins, kann líka að meta málflutning þeirra, enda er umbótaflokkur þeirra hinn stærsti á nýkjörnu þingi Rússlands.

Umbótasinnarnir hafa hins vegar hafnað í minni hluta á þinginu vegna þess, að leifar gamla kommúnistaflokksins, bændaflokkurinn og flokkur þjóðernissinna undir forustu hins vitfirrta Zhírínovskís hafa gert bandalag gegn þeim á þinginu. Þetta bandalag gegn umbótum á ekki að þurfa að koma neinum á óvart, því að það er enginn raunverulegur ágreiningur á milli þessara þriggja flokka. Fylgi sitt sækja kommúnistar, bændaflokksmenn og Zhírínovskí aðallega í dreifðar byggðir Rússlands, þar sem fáfræðin er mest og fátæktin sárust. Þangað sóttu þeir styrk til þess að knýja fram þau kynslóðaskipti, sem nú hafa átt sér stað í ríkisstjórn Rússlands: gömlu jaxlarnir eru komnir aftur.

Hamar og sigð

Nú er landinu sem sagt enn á ný stjórnað af harðsvíruðum hagsmunagæzlumönnum hamars og sigðar, það er að segja iðnaðar og landbúnaðar - undirstöðuatvinnuveganna, sem Jósef Stalín kallaði svo - spilltum og fáfróðum mönnum, sem kunna ekkert annað en að stjórna risafyrirtækjum, sem framleiða vörur, sem enginn vill kaupa eða sjá.

Þessir menn mega ekki til þess hugsa, að gjaldþrota fyrirtæki séu gerð upp. Nei, þeir ætla sér að prenta peninga til þess að halda taprekstrinum áfram hvað sem það kostar og nota til þess óhæfan seðlabankastjóra, sem er af sama sauðahúsi og þeir sjálfir. Seðlaútgáfan tekur á sig ýmsar myndir undir stjórn þessa manns: hann lét jafnvel senda nýprentaða seðla í ferðatöskum úr seðlabankanum til uppreisnarmanna í Hvíta húsinu í Moskvu, þegar valdaránstilraunin stóð sem hæst í haust.

Þessum mönnum er þó vorkunn að einu leyti: þeir vita ekki betur. Bækurnar og blöðin, sem þeir hefðu þurft að lesa til að kunna að stjórna efnahagslífi lands, voru bannvara í Rússlandi í 70 ár. Enga gagnlega menntun til slíkra starfa gátu þeir hlotið í skólum landsins. Reynslan, sem þeir hafa af stjórn gjaldþrota ríkisfyrirtækja, kemur þeim eðlilega að engu gagni.

Of geyst? Nei, of hægt!

Sumir halda, að Rússar kunni að hafa farið of geyst í umbætur síðast liðin tvö ár og umbótasinnarnir hafi hrökklazt úr ríkisstjórninni þess vegna. Þetta er misskilningur að minni hyggju. Vandinn er miklu fremur sá, að ríkisstjórnin fór of hægt í sakirnar, svo að árangurinn hefur látið bíða of lengi eftir sér. Sérhagsmunahópunum gafst ráðrúm til að draga sig saman og gera umbótastarfið tortryggilegt í augum margra óþolinmóðra kjósenda. Þær Austur-Evrópuþjóðir, sem hafa ráðizt í skjótari og djarflegri umbætur, til dæmis Pólverjar og Tékkar, hafa þegar náð miklu betri árangri en Rússar.

Nú spá alþjóðastofnanir uppgangi í öllum löndum Mið- og Austur-Evrópu á þessu ári eftir mikinn samdrátt síðast liðin tvö til fjögur ár, en Rússar og aðrar þjóðir Sovétríkjanna fyrrverandi sitja eftir með sárt ennið og áframhaldandi efnahagssamdrátt. Í Úkraínu, sem er á stærð við Frakkland að flatarmáli og fólksfjölda, sitja gamlir kommúnistar enn við völd og sýna engin umtalsverð merki þess ennþá að hafa hug á raunverulegum umbótum. Þar er ástandið enn verra en í Rússlandi. Af því geta Rússar dregið þá ályktun, að þeir ættu áreiðanlega í ennþá meiri erfiðleikum nú, hefðu þeir farið enn hægar í sakirnar en þeir gerðu.

Margt bendir til þess, að hin nýja ríkisstjórn Rússlands muni nú dæla nýprentuðum peningum inn í gjaldþrota risafyrirtæki um allt land í auknum mæli. Þetta er gert undir því yfirskini, að annars muni fólkið í þessum fyrirtækjum missa vinnuna. Það er út af fyrir sig alveg rétt. En það er engin framtíð í því að halda áfram að binda verkafólk við vinnu í gjaldþrota fyrirtækjum. Þvílík fjárfesting í fortíðinni getur engu skilað nema óðaverðbólgu og enn meiri hörmungum, þegar upp er staðið. En þannig er Rússland. Úti um allt land eru borgir og bæir, þar sem íbúarnir eiga allt sitt undir einu fyrirtæki á staðnum eða kannski tveim eða þrem. Stjórnendur fyrirtækjanna eru yfirleitt fyrrverandi eða jafnvel núverandi flokksmenn. Þeir hafa öll ráð í hendi sér og halda verkafólkinu í gíslingu. Þeir heimta sífellt meiri peninga af ríkinu til að halda rekstrinum gangandi. Þeir hafa engan hag af að treysta því, að fólkið geti fengið betur launaða vinnu í nýjum arðbærum einkafyrirtækjum, sem verða reist á rústum gömlu ríkisfyrirtækjanna. Þeir vita, að þeir verða ekki fengnir til að stýra þessum nýju einkafyrirtækjum, enda kunna þeir ekkert til slíkra verka. Þess vegna vilja þeir halda í óbreytt ástand.

Höfundur er prófessor í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Þorvaldur Gylfason