Ofleikur Ólafs Ragnars eftir Björn Bjarnason "Ólafur Ragnar hélt hins vegar þannig á málum, að nú hljóta flokksmenn hans og stjórnarandstæðingar á Alþingi að velta fyrir sér, hvers virði sé að lúta forystu hans." Framganga Ólafs Ragnars Grímssonar...

Ofleikur Ólafs Ragnars eftir Björn Bjarnason "Ólafur Ragnar hélt hins vegar þannig á málum, að nú hljóta flokksmenn hans og stjórnarandstæðingar á Alþingi að velta fyrir sér, hvers virði sé að lúta forystu hans." Framganga Ólafs Ragnars Grímssonar, formanns Alþýðubandalagsins, vegna bréfs Arthúrs Björgvins Bollasonar til formanns Stéttarsambands bænda um málefni Ríkisútvarpsins hefur verið með ólíkindum. Ætlaði flokksformaðurinn greinilega að nota þetta furðulega tiltæki fyrrverandi aðstoðarmanns Heimis Steinssonar útvarpsstjóra til að skáka Davíð Oddssyni forsætisráðherra. Ólafur Ragnar hélt hins vegar þannig á málum, að nú hljóta flokksmenn hans og stjórnarandstæðingar á Alþingi að velta fyrir sér, hvers virði sé að lúta forystu hans. Davíð Oddsson lýsti yfir því í þingræðu, að hann myndi aldrei sitja sem forsætisráðherra í skjóli Ólafs Ragnars.

Þegar Ólafur Ragnar efnir til pólitísks upphlaups er það eitt helsta einkenni á málflutningi hans, að hann hörfar úr einu vígi í annað. Honum er sama, hvort hann fer með rétt mál eða rangt, svo framarlega sem hann getur látið eins og hann sé að upplýsa einhvern stórasannleika og andstæðingurinn eigi erfitt með að verjast. Á sunnudag hélt hann fast við þá skoðun, að daginn eftir yrði forsætisráðherra að gera Alþingi grein fyrir missögnum sínum um fund með Heimi Steinssyni. Á mánudag þegar hann átti í orðaskiptum við ráðherrann á þingi snerist málflutningur Ólafs Ragnars ekki um þetta heldur hitt, að Davíð Oddsson væri ósannindamaður vegna einkabréfs, sem hann hefði ritað Heimi Steinssyni í apríl 1993.

Krafan um að Davíð gerði grein fyrir missögnum sínum var sett fram, þegar forsætisráðherra var fjarstaddur og gat ekki svarað fyrir sig á staðnum. Dylgjurnar um bréfið til Heimis Steinssonar voru hafðar í frammi, þegar Heimir var fjarstaddur og gat ekki staðfest ummæli forsætisráðherra um eðli þess. Nú blasir við öllum, að jafneinföld aðferð og að vísa til dagsetninga sviptir stoðunum undan stóryrðum Ólafs Ragnars. Er það ekki í fyrsta sinn sem svo auðvelt reynist að afhjúpa loddarabrögðin.

Eyðimerkurgangan

Ólafur Ragnar Grímsson virðist hafa áttað sig á því, að utanríkisstefna flokksins, sem hann veitir formennsku, hefur gengið sér til húðar. Honum er ljóst, að hann getur ekki á trúverðugan hátt tekið þátt í starfi á alþjóðlegum vettvangi, sé hann andvígur Atlantshafsbandalaginu (NATO) og meginstefnu aðildarþjóða þess í öryggismálum. Með framgöngu sinni í þessum málum hefur hann leitast við að breyta ímynd Alþýðubandalagsins, þótt hann hafi orðið að lúta í lægra haldi á landsfundi flokksins, sem ályktaði gegn NATO. Margir hafa túlkað þessa afstöðu flokksformannsins á þann veg, að á fleiri sviðum væri hann reiðubúinn til að sveigja Alþýðubandalagið af leið forstokkaðs sósíalisma og afturhaldsstefnu. Hann vildi gera flokkinn gjaldgengan í borgaralegu samstarfi.

Þótt menn vilji líta á þessa viðleitni flokksformannsins af fullri vinsemd og meta hana á efnislegum forsendum, er ekki unnt að treysta á staðfestu, þegar á reynir. Yfirlýsing forsætisráðherra, um að hann muni aldrei sitja í embætti sínu í skjóli Ólafs Ragnars, sýnir, að eyðimerkurganga Alþýðubandalagsins hefur alls engan enda tekið. Eru Ólafi Ragnari nú ekki margir kostir tækir, vilji hann að nýju verða gjaldgengur í alvöruumræðum um stjórn lands og þjóðar.

Veik stjórnarandstaða

Besta staðfestingin á því, hve vel er haldið á málum af hálfu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, fæst með að líta á það, sem stjórnarandstaðan kýs að gera að ágreiningsefnum. Þegar rætt er við Bandaríkjamenn um varnir og öryggi þjóðarinnar, beinir stjórnarandstaðan athygli sinni að því, hvort utanríkisráðherra skýri utanríkismálanefnd Alþingis nægilega ítarlega frá gangi mála. Þegar ríkisstjórnin stöðvar verkfall sjómanna með bráðabirgðalögum, býr stjórnarandstaðan það til að forsætisráðherra hafi blekkt forseta Íslands. Þegar útvarpsstjóri víkur einkaráðnum aðstoðarmanni sínum frá störfum, krefst stjórnarandstaðan þess að forsætisráðherra segi af sér.

Ég nota orðið stjórnarandstaða, vegna þess að í þeim þremur tilvikum, sem hér eru nefnd, hafa talsmenn Framsóknarflokksins og Kvennalistans látið Ólaf Ragnar Grímsson gefa sér tóninn og síðan tekið undir með honum. Þegar þannig er að málum staðið á Alþingi Íslendinga, hljóta að vakna efasemdir í hugum margra um gildi þess starfs, sem þar er unnið. Er þetta karp um hugarburð miklu alvarlegri löstur á störfum Alþingis en hitt, að þrískipting valdsins virki í reynd með því að dómstólar láti í ljós skoðun sína á efni laga.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur tekist á við mörg erfið viðfangsefni á ferli sínum. Stjórnin hefur komist vel frá þessum málum og stuðningslið hennar á Alþingi hefur sýnt, að það bognar ekki. Þingumræðurnar á mánudag um hið dæmalausa bréf drógu skýrar fram en áður muninn á milli ábyrgrar stjórnarforystu og óábyrgrar forystu stjórnarandstöðunnar, sem er trausti rúin.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Björn Bjarnason