Sæstrengsverkefni Icenets og borgarráðs Friðrik Daníelsson "Ég tel brýnt að borgin dragi sig út úr þessu gæluverkefni án tafar. Það eru mörg önnur og vitlegri verkefni sem bíða.

Sæstrengsverkefni Icenets og borgarráðs Friðrik Daníelsson "Ég tel brýnt að borgin dragi sig út úr þessu gæluverkefni án tafar. Það eru mörg önnur og vitlegri verkefni sem bíða. Af sæstreng verður lítil varanleg atvinnusköpun, lítil margfeldisáhrif, litlar tekjur en hagkvæmustu virkjunarkostirnir settir undir stjórn aðila erlendis."

Þegar borgarráð Reykjavíkur ákvað fyrir rúmu ári að leggja fé til athugana á útflutningi raforku um sæstreng benti undirritaður á hér á síðum þessa blaðs að um þverbak keyrði kreppuhugsunarhátturinn ef borgarráð Reykjavíkur ætlaði sér að leggja drög að því að helstu auðlindir þjóðarinanr yrðu færðar útlendingum á silfurfati. Og það án þess að nokkur uppbygging sem orð er á gerandi hlytist af í landinu. Vonandi geta menn nú farið að eyða fjármunum borgarbúa í vitlegri hluti. Borgarráð fékk nefnilega fyrir jólin skýrslu um forathugn á Icenet-sæstrengsverkefninu. Fékk undirritaður hana til aflestrar frá borgarritara. Sjálf forathugunin lá ekki á lausu. Ef marka má skýrsluna til borgarráðs var ekki sérlega mikið á forathuguninni að græða. Þó virtist af skýrslunni að dæma sem þeir sem athugunina hafa unnið hafi gert sér grein fyrir hversu langsótt sæstrengshugmyndin er.

Engar hindranir!

Niðurstöður forathugunarinnar eru heldur rýrar, ef marka má skýrsluna (sem borgarráð fær frá framkvæmdastjóra (?) verkefnisins). Í fimm punktum, sem flestir voru sjálfsagðir hlutir löngu áður en athugunin hófst, eru niðurstöðurnar samanteknar og helst talið fréttnæmt að ". . . þótt bent hafi verið á tiltekna áhættuþætti verkefnisins, hafa engar veigamiklar hindranir komið í ljós . . ."! En af því sem á eftir kemur má ráða að starfsmenn verkefnisins hafi rekið augun í hvaða hindranir það eru sem munu stöðva hugmyndina.

Áhættan of mikil?

Í skýrslunni kemur fram, að takmarkaðar upplýsingar eru til um rekstraröryggi langra sæstrengja. Og telja skýrsluhöfundar frekari rannsóknir nauðsynlegar. Sérstaklega virðast menn hræddir við að ekki verði hægt að finna og gera við bilanir einhvers staðar í iðrum Atlantshafsins. Menn sjá fyrir sér viðgerðarmenn á bát að velkjast á freyðandi öldum úthafsins í stórviðri um miðjan vetur, strengurinn farinn af rafmagna skeljabrotin á botninum, gjaldmælirinn stendur (og vaxtapúkinn fitnar meðan enginn veit hvernig á að gera við bilunina á botni Atlantshafs). Í dag veit enginn hvenær verður hægt að leysa þessi vandamál, miklar rannsóknir og reynsla þarf til að koma.

Engin strengjaverksmiðja í Reykjavík?

Ein af niðurstöðum athugendanna er að stytta þarf framkvæmdatímann. Þetta er að sjálfsögðu vafasöm blessun, sérstaklega fyrir Íslendinga. Í fyrsta lagi myndi sú sprenging á vinnumarkaðnum sem verkefnið ylli verða kröftugri og eyðileggingarmátturinn meiri en ella. Í öðru lagi er ekki víst að helsta áhugamál borgarráðs, þ.e. strengverksmiðja í Reykjavík, kæmist þá til framkvæmda. Reyndar eru afgerandi meðmæli skýrsluhöfunda að strengirnir verði ekki keyptir í einni verksmiðju. Þar með minnka til muna líkurnar á að strengverksmiðja verði reist í Reykjavík, þar með er líka fokin ástæða borgarráðs til þess að henda fé borgarbúa í verkefnið.

Fleiri aðilar

Skýrsluhöfundar telja að vegna þess hve áhættan sé mikil verði að fá fleiri aðila inn í verkefnið. Þetta sýnir að samstarfsaðilar Borgarráðs treysta fér ekki einir að halda áfram verkefninu, svo virðist sem runnið hafi á þá tvær grímur, ekki furða. Þetta gæti orðið til þess að verkefnið sofnaði landsmönnum til hagsbóta, en hér er líka komin viss hætta á að einhverjir risar í Evrópubandalaginu vilji koma inn í málið til þess að tryggja yfirráðin yfir bestu orkulindum Íslands. Með öðrum orðum að fjárfestingasjónarmiðin (þ.e. gróðavon innan skamms tíma) vikju fyrir áhuganum á frambúðaraðgengi að orkunni. Borgarráð Reykjavíkur hefur því ærna ástæðu á að vara sig á málinu í þeirri stöðu sem það nú er.

Engin stefna stjórnvalda

Höfundar skýrslunnar til borgarráðs kvarta, sem eðlilegt er, undan því að það vanti stefnu stjórnvalda í sæstrengsmálinu. Auðvitað er það handvömm stjórnvalda hér að hafa ekki fyrir löngu tekið af skarið með að auðlindir lands (eins og sjávar) verði nýttar til atvinnu hérlendis. Reyndar mætti öllum vera ljóst hvaða stefnu Íslendingar hafa hvað varðar nýtingu auðlinda sinn, baráttan um fiskinn ætti að sýna öllum hvers landsmenn eru megnugir þegar kemur að því að standa vörð um lífshagsmuni þjóðarinnar. Baráttan um orkuna virðist þó ætla að verða ólík baráttunni um fiskinn að einu leyti: innlendir aðilar eru virkir þátttakendur í að koma orkulindunum undan yfirráðum Íslendinga.

Skoðanakönnun!

Icenet-hópurinn svokallaði fékk virt fyrirtæki til að gera "skoðanakönnun" um stuðning við áformin. Fyrir spurþola voru lagðar nokkrar leiðandi spurningar þannig að góðar líkur væru á að túlka mætti svörin sæstrengshugmyndinni í vil. Hér var semsé um að ræða skoðankönnun, ekki könnun. Mér er ekki ljóst hvort fjármunir Reykvíkinga hafa farið í þennan loddaraleik, en aðferðir hagsmunaaðilanna eru farnar að verða ærið óskammfeilnar.

Þáttur borgarráðs

Ég tel brýnt að borgin dragi sig út úr þessu gæluverkefni án tafar. Það eru mörg önnur og vitlegri verkefni sem bíða. Af sæstreng verður lítil varanleg atvinnusköpun, lítil margfeldisáhrif, litlar tekjur en hagkvæmustu virkjunarkostirnir settir undir stjórn aðila erlendis.

Borgarráð Reykjavíkur hefur ekki umboð þjóðarinnar til þess að koma bestu auðlindum landsins undir yfirráð útlendinga.

Reykjavíkurborg hefur aftur á móti, eins og sagan sýnir, afl og dug til að nýta orku borgarbúum til hagsbóta. Þar þarf áframhald á.

Höfundur er efnaverkfræðingur.

Friðrik Daníelsson