Fjölmennasta Bridgehátíðin frá upphafi verður sett annað kvöld á Hótel Loftleiðum Um 400 spilarar keppa um Flug leiðabikarinn Brids Guðm. Sv. Hermannsson BRIDGEHÁTÍÐ 1994 hefst á morgun á Hótel Loftleiðum.

Fjölmennasta Bridgehátíðin frá upphafi verður sett annað kvöld á Hótel Loftleiðum Um 400 spilarar keppa um Flug leiðabikarinn Brids Guðm. Sv. Hermannsson

BRIDGEHÁTÍÐ 1994 hefst á morgun á Hótel Loftleiðum. Þetta verður fjölmennasta bridsmót sem haldið hefur verið hér á landi því 82 sveitir eru skráðar til leiks í Flugleiðamótinu, sem þýðir að um 400 spilarar verða þar samankomnir.

Á Bridgehátíð verða að þessu sinni keppendur frá sex þjóðum. Að Íslendingum meðtöldum eru Norðmenn fjölmennastir og í fararbroddi þeirra fer sveitin sem vann silfurverðlaunin á heimsmeistaramótinu í Chile í haust.

Íslendingar geta nú skoðað norska undrabarnið Geir Helgemo en hann spilar á Bridgehátíð við Tor Helness. Helgemo, sem er 24 ára gamall, er eini atvinnumaðurinn í norska liðinu og hann gefur út bridsblað í Þrándheimi þar sem hann býr. Á síðasta ári vann Helgemo til silfurverðlauna, bæði í keppninni um Bermúdaskálina og í heimsmeistarakeppni spilara 25 ára og yngri. Hann fékk bronsverðlaun á Evrópumótinu í Menton og vann þar að auki fullt af Noregsmeistaratitlum. Og þetta ár byrjaði ekki dónalega hjá þeim Helness því þeir unnu firnasterkt boðsmót í Hollandi, Cap Volmac, sem áður hét Cap Gemini Pandata.

Glen Grötheim og Terje Å búa báðir í Þrándheimi þar sem Grötheim er verkfræðingur og Å vinnur hjá Póstinum. Þeir spila biðsagnakerfi sem Grötheim hefur þróað og spilað með ágætum árangri, meðal annars við Helgemo. Grötheim hefur spilað áður á Bridgehátíð eins og Helness. Frá Noregi koma þrjú önnur pör, þar á meðal Even Ulfen og Tor Eivind Hoyland sem urðu í 2. sæti í tvímenningskeppni Bridgehátíðar í fyrra. Þá er Roy Christiansen meðal keppenda en hann spilaði í norskum landsliðum fyrir nokkrum árum og vann meðal annars Norðurlandamótið í Reykjavík 1978.

Kvennasveit í fyrsta sinn

Í fyrsta skipti hefur erlendri kvennasveit verið boðið á Bridgehátíð. Það eru sænsku Evrópumeistararnir og bronsverðlaunahafar frá síðasta heimsmeistaramóti kvenna í Chile í haust. Raunar voru sænsku konurnar ekki langt frá því að komast í úrslitaleikinn í Chile en þær töpuðu fyrir Þjóðverjum í undanúrslitunum í lokaspilunum.

Hingað koma Lisa Åström, Bim Ödlund, Linda Långström og Catarina Midskog. Ödlund er efnafræðingur að mennt og aldursforseti liðsins. Åström er framkvæmdastjóri innflytjendabúða, Långström er myndlistarmaður og Midskog er bridskennari. Långström og Ödlund hafa spilað hér á Norðurlandamóti.

Pakistaninn Zia Mahmood kemur að venju með sveit frá Ameríku. Hann spilar við Russ Ekeblad sem lengi hefur verið í fremstu röð bandarískra spilara. Hitt parið mynda Kanadamaðurinn Mark Molson sem oft hefur spilað á Bridgehátíð og unnið bæði tvímenninginn og sveitakeppnina; og Bandaríkjamaðurinn Bart Bramley. Bramley var meðal annars í bandaríska liðinu sem Ísland sló út í 8 liða úrslitum á heimsmeistaramótinu í Yokohama.

Loks kemur sveit frá Írlandi, skipuð Keith Singleton, Robin Burns, Heidi Lillis og Michael McGlouchlin.

Tvímenningskeppni Bridgehátíðar hefst klukkan 19 á föstudagskvöld og verður spilað til tæplega 1. Á laugardegi hefst spilamennska klukkan 11 og lýkur um kl. 20. Sveitakeppnin hefst klukkan 13 á sunnudag og aftur klukkan 13 á mánudag. Bridgehátíð lýkur síðan um kvöldmatarleytið á mánudag en þá verður verðlaunaafhending fyrir bæði mótin. Eins og í Kauphallarmótinu í vetur ber karlkynskeppendum í tvímenningsmótinu skylda til að klæðast jakkafötum og kvenspilarar eiga að klæðast samsvarandi klæðnaði.

Nýjar kennslubækur

Tvær íslenskar bækur um brids komu út fyrir skömmu. Önnur er Kennslubók í bridge fyrir byrjendur eftir Guðmund Pál Arnarson og hin er Precisionsagnkerfið eftir Viðar Jónsson.

Það er vandaverk að skrifa aðgengilegar kennslubækur um brids. Guðmundur Páll, sem hefur raunar haft bridskennslu að atvinnu í nokkur ár, kann þá list vel og bókin hans virðist fyllilega jafnast á við þær erlendu kennslubækur sem helst hefur verið hampað. Bókin er vel sett upp og aðgengilega, oft er stoppað við að rifja upp það sem áður hefur verið farið yfir og lærdómurinn styrktur með æfingadæmum. Byrjendur sem lesa bókina hafa því örygglega bæði gaman af og verða orðnir vel rúbertufærir í bókarlok. Betri meðmæli er varla hægt að gefa kennslubók og að auki kostar bókin aðeins 1.500 krónur.

Þeir sem hafa lokið við bók Guðmundar Páls geta sem best rennt yfir í bók Viðars Jónssonar um Precisionkerfið. Þar lýsir Viðar uppbyggingu þessa sagnkerfis, sem fór eins og eldur í sinu um bridsheiminn fyrir um aldarfjórðungi en hefur nú heldur látið undan síga. Aðalkostur Precision er hvað grunnkerfið er einfalt og það hentar því ágætlega spilurum sem eru að feta sig af stað í keppnisbrids og þeir sem lengra eru komnir geta síðan bætt við sagnvenjum og breytt útfærslum eftir smekk.

Bókin skiptist í þrjá hluta. Í þeim fyrsta er farið yfir grunnkerfið, í þeim næsta er farið yfir algengustu viðbætur, svo sem spurnarsagnir, og í þriðja hlutanum lýsir Viðar uppáhaldsútfærslu sinni á kerfinu. Með þessu móti fær lesandinn ágætis vitneskju um það hvernig sagnkerfi eru uppbyggð og hvernig hægt er að breyta uppbyggingu þeirra þótt grunnurinn sé sá sami.

Helsti gallinn við bók Viðars er uppsetningin og prentunin. Bókin er prentuð á venjulegan tölvuprentarara í stað geislaprentara og uppsetningin er alls ekki nægilega aðgengileg. Verðið er 1.500 krónur.

Morgunblaðið/GSH

Syngjandi Norðmenn

NORSKA landsliðið söng norska þjóðsönginn hástöfum við verðlaunaafhendinguna á Evrópumótinu sl. sumar en fjórir liðsmenn þess spila um helgina á Bridgehátíð. Á myndinni eru Helgi Jóhannsson stjórnarmaður í Bridgesambandi Evrópu, Jón Sveindal, Glen Grötheim, Tor Helness, Panos Gerantopoulos stjórnarmaður í Evrópusambandinu, Arild Rasmussen, Geir Helgemo, Terje Å og Runar Lillevik.