SÖNGUR Trúbadorinn sem spilar fótbolta irta Rós Arnórsdóttir 17 ára kvennaskólanemi hefur ekki komið fram sem trúbador nema í einkasamkvæmum hjá hinum ýmsu félagasamtökum, en þar hefur hún líka vakið verðskuldaða athygli fyrir söng sinn og framkomu.

SÖNGUR Trúbadorinn sem spilar fótbolta irta Rós Arnórsdóttir 17 ára kvennaskólanemi hefur ekki komið fram sem trúbador nema í einkasamkvæmum hjá hinum ýmsu félagasamtökum, en þar hefur hún líka vakið verðskuldaða athygli fyrir söng sinn og framkomu. Nýlega kom hún fram á konukvöldi Lionsklúbbsins Engeyjar á Ömmu Lú og áttu konurnar ekki orð yfir hversu vel hún stóð sig, enda er stúlkan sögð hafa farið að syngja áður en hún fór að tala. Þá er henni í blóð borið að vera frjálsleg og leika það sem hún er að syngja. "Þetta var í fyrsta skipti sem ég kom fram á svona stórri skemmtun," sagði Birta Rós í samtali við Morgunblaðið og viðurkenndi að hún hefði verið örlítið stressuð. "Það var bara áður en ég kom fram. Um leið og ég er komin á svið hverfur allt óöryggi. Ég syng líka bara þau lög sem mér finnast skemmtileg," sagði hún.

Birta Rós hóf nám í Tónlistarskóla Gerðahrepps 7 ára gömul og söng einsöng árið eftir með kórnum. Þegar hún fann síðar meir gamlan gítar móður sinnar ásamt gítarbók dundaði hún sér við að læra á hann. Árangurinn lét ekki á sé standa, því í 9. bekk vann hún hæfileikakeppni í Gerðaskóla í Garði þar sem hún býr. Eftir það fór boltinn að rúlla og hún varð eftirsóknarverð hjá barnastúkum, Kiwanisklúbbum, kvenfélögum, Lionsklúbbum og fleirum. Þá hefur hún einnig sungið þrívegis í brúðkaupum og segir það hafa gengið vel.

Þegar hún var spurð hvort hún hafi sungið fyrir félaga sína í Kvennaskólanum kvaðst hún hafa sungið "karaoke" á Eplaballinu í fyrra. "Ég tók einnig þátt í forkeppni í söngvakeppni framhaldsskólanna. Hafnaði þar í þriðja sæti og varð alveg brjáluð, því ég stefni hátt," sagði Birta og ljóst er að keppnisskapið er mikið. "Ég var reyndar búin að lýsa því yfir að ég tæki aldrei aftur þátt í henni af því ég vann ekki. Ég skipti svo um skoðun og hafði hugsað mér að vera með, en æfingar hafa verið svo fáar með hljómsveitinni, að ég efast um að ég láti verða af því."

Þrátt fyrir að Birta stundi skólann, sönginn og kærastann gefur hún sér tíma til að spila fótbolta með meistaraflokki Víðis í Garði. "Ég hef spilað með þeim í um það bil ár og finnst það alveg rosalega gaman," sagði hún og var ekki á því að það væri of tímafrekt. Sagði þó að framundan væru miklar æfingar vegna Íslandsmeistaramótsins í vor.

Birta Rós hyggst leggja frekari rækt við tónlistina og byrjaði í haust í einkatímum hjá Mörtu Halldórsdóttur söngkonu. "Við erum að reyna að finna út hvaða rödd ég hef, því ég hef yfirleitt sungið dægurlög eingöngu," sagði hún. "Ég held alveg tvímælaust áfram hjá Mörtu, ef hún vill hafa mig, því hún er frábær."

Morgunblaðið/Þorkell

Birta Rós Arnórsdóttir ásamt kærasta sínum, Vilhjálmi Vagni Steinarssyni. Hún segist eiga marga framtíðardrauma, en reiknar fastlega með að söngurinn taki sinn skerf.