Samkomulag um loftárásir vegna umsáturs Serba um Sarajevo Serbar fá 10 daga til að aflétta umsátrinu Vantrú á samkomulag múslima og Serbar um brottflutning stórskotasveita SAMKOMULAG tókst á fundi fastafulltrúa Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel um...

Samkomulag um loftárásir vegna umsáturs Serba um Sarajevo Serbar fá 10 daga til að aflétta umsátrinu Vantrú á samkomulag múslima og Serbar um brottflutning stórskotasveita

SAMKOMULAG tókst á fundi fastafulltrúa Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel um að veita Bosníu-Serbum 10 daga frest til að flytja stórskotavopn sín a.m.k. 20 kílómetra frá Sarajevo ellegar yrði loftárásum beitt til að stöðva umsátur þeirra um borgina. Ágreiningur var um hvort sagt skyldi opinberlega að Serbum hefðu verið settir úrslitakostir, eins og Frakkar og Bandaríkjamenn lögðu til. Um tíma var talið að samkomulag tækist ekki um aðgerðir gegn Serbum vegna andstöðu Grikkja og Kanadamanna við hernaðaraðgerðir en um síðir féllu Kanadamenn frá andstöðu sinni. Á sama tíma og fulltrúar NATO funduðu náðist samkomulag í Sarajevo um að gæslusveitir Sameinuðu þjóðanna (UNPROFOR) taki við stórskotaliðsstöðvum Bosníu-Serba umhverfis borgina.

Með hótun um loftárásir yfir höfðum sér gengu Bosníu-Serbar til vopnahléssamninga við múslima sem fela í sér að þeir hverfi með stórskotasveitir sínar frá fjöllunum og svæðum umhverfis Sarajevo. Samkomulagið var gert fyrir tilstilli breska hershöfðingjans Sir Michael Rose, sem er nýtekinn við yfirstjórn gæslusveita Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í Bosníu. Í ljósi þess að urmull vopnahléssamninga milli aðila Bosníudeilunnar hafa farið út um þúfur varaði Sir Michael við of mikilli bjartsýni. Héldu Serbar áfram skothríð á Sarajevo eftir að yfirmenn hersveita þeirra höfðu staðfest samkomulagið en á því er engin undirskrift.

Jovan Divjak, hershöfðingi í sveitum múslima sem tók þátt í samkomulagsgerðinni, sagðist efast um að það héldi. "Þetta er enn ein leikfléttan af hálfu Serba til að vinna sér tíma. Við gengum til samninga svo okkur yrði ekki kennt um að vilja ekki stuðla að friði," sagði Divjak.

Vopnahléssamkomulagið tekur gildi á hádegi í dag og gert er ráð fyrir að innan viku hafi Serbar flutt stórskotavopn til svæða sem yfirmenn UNPROFOR velja og eru það langt frá Sarajevo að vopnin draga ekki til borgarinnar.

Háttsettur breskur embættismaður sagði að vopnahlé múslima og Serba á Sarajevo-svæðinu gæti aldrei komið í staðinn fyrir aðgerðir af hálfu NATO. Á það bæri einungis að líta sem viðbótaraðgerð. Rétt áður en tilkynnt var um samkomulagið sagði Radovan Karadzic leiðtogi Serba að ekki kæmi til greina að hverfa með stórskotaliðssveitirnar frá fjöllunum við Sarajevo og hótaði hann að flugvélar NATO sem kæmu til loftárása yrðu skotnar niður.

Reuter

Auka umsvif í Sarajevo

ÍBÚAR í Sarajevo ganga og hjóla framhjá skriðdreka gæslusveita SÞ á aðalgötu borgarinnar í gær. Hafa sveitir SÞ verið meira á ferli í borginni undanfarna daga.