Ólafur Ragnar Grímsson um næstu stjórnarmyndunarviðræður Ljóst hverjir munu fara með umboð Alþýðubandalags ÓLAFUR Ragnar Grímsson formaður Alþýðubandalagsins segir merkilegt að mál Hrafns Gunnlaugssonar hafi tekið á sig slíkar stærðir í huga Davíðs...

Ólafur Ragnar Grímsson um næstu stjórnarmyndunarviðræður Ljóst hverjir munu fara með umboð Alþýðubandalags

ÓLAFUR Ragnar Grímsson formaður Alþýðubandalagsins segir merkilegt að mál Hrafns Gunnlaugssonar hafi tekið á sig slíkar stærðir í huga Davíðs Oddssonar forsætisráðherra að hann hafi gefið yfirlýsingar um stjórnarmyndunarmöguleika Sjálfstæðisflokksins eftir næstu þingkosningar með því að segja á Alþingi á mánudag að hann myndi aldrei sitja sem forsætisráðherra í skjóli Ólafs Ragnars.

Davíð Oddsson sagði í Morgunblaðinu í gær, þegar hann var spurður hvort hann hefði með yfirlýsingu sinni útilokað stjórnarsamstarf við Alþýðubandalagið undir sinni forustu, að Ólafur Ragnar væri bráðabirgðaformaður flokksins. "Forusta Alþýðubandalagsins hefur verið valin, þannig að ljóst er hverjir fara með umboð flokksins þegar ríkisstjórn verður mynduð eftir næstu kosningar," sagði Ólafur Ragnar við Morgunblaðið en kosningar eru áætlaðar vorið 1995.

"Davíð ætti hins vegar að tala varlega hverjir verði formenn í flokkum í nóvember og desember 1995.Og næsti landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður á undan landsfundi Alþýðubandalagsins þannig að fyrr mun koma að því hvort Davíð Oddsson verður endurkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins eftir útkomu í borgarstjórnarkosningum, þingkosningum og næstu stjórnarmyndun, heldur en kemur að því hver verður kjörinn næsti formaður Alþýðubandalagsins," sagði Ólafur.

Brenglað veruleikaskyn

Davíð Oddsson sagði í Morgunblaðinu í gær, að mælirinn væri fullur gagnvart framgöngu Ólafs Ragnars sem byggi til mál sem ættu að sanna að forsætisráðherra hefði logið að þjóðinni. "Það er áhyggjuefni að forsætisráðherra sé með svo brenglað veruleikaskyn að hann haldi að ég búi málin til sem einhverskonar áróðursleik," sagði Ólafur Ragnar. "En ég hafði einfaldlega forgöngu um að forsætisráðherra svaraði ákveðnum spurningum og standi frammi fyrir þeim veruleika að hér eiga að gilda lýðræðislegar siðareglur. Davíð Oddsson sagði allt síðasta ár að hann hefði aldrei komið nálægt Hrafnsmálinu. Nú er komið í ljós að hann hefur skrifað útvarpsstjóra sérstakt erindisbréf um Hrafn Gunnlaugsson eftir að Hrafn var settur sem framkvæmdastjóri Sjónvarps. Allt þetta mál er því samhangandi keðja furðulegrar valdníðslu forustumanna í Sjálfstæðisflokknum gagnvart þeirri menningarstofnun og sjálfstæðum fjölmiðli sem Ríkisútvarpið á að vera. Ég fullyrði að í engu vestrænu lýðræðisríki hefði forsætisráðherra og flokki hans liðist að koma þannig fram. En það er greinilegt að forsætisráðherra heldur að það gildi aðrar reglur um hann sjálfan en gilda í löndunum hér í kringum okkur. Ég er á annarri skoðun. Nútímavæðing Íslands felst ekki aðeins í því að búa til lög og reglur um efnahagsmál. Hún felst einnig í því að nútímalegar siðareglur gildi í stjórnkerfinu," sagði Ólafur Ragnar.