Blaðamannafundur Lojze Peterle, utanríkisráðherra Slóveníu Góður árangur Slóvena í uppbyggingu eigin ríkis SLÓVENAR hafa lýst áhuga sínum á aðild að NATO og Friðarsamstarfi og hefur verið boðin þátttaka í því síðarnefnda.

Blaðamannafundur Lojze Peterle, utanríkisráðherra Slóveníu Góður árangur Slóvena í uppbyggingu eigin ríkis

SLÓVENAR hafa lýst áhuga sínum á aðild að NATO og Friðarsamstarfi og hefur verið boðin þátttaka í því síðarnefnda. Umsókn þeirra er nú til athugunar hjá Atlantshafssamvinnuráðinu, að sögn Lojze Peterle, utanríkisráðherra Slóveníu, sem staddur er hér í opinberri heimsókn. Peterle ræddi í gær við Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra, m.a. um samskipti landanna og ástandið á Balkanskaga, sem hefur bein áhrif á Slóveníu, ekki síst efnahagsleg.

Á blaðamannafundi ráðherranna í gær gerðu Peterle og Jón Baldvin grein fyrir viðræðum sínum. Þeir ræddu ástandið á Balkanskaga, með hliðsjón af fundum Atlantshafsbandalagsins (NATO), um ástandið í Rússlandi, varnar- og öryggismál, afstöðu Slóvena til NATO og Atlantshafssamvinnuráðsins, áform Slóvena um nánari tengsl við Evrópusambandið (áður Evrópubandalagið) og Fríverslunarbandalag Evrópu (EFTA) og tvíhliða samskipti landanna. Jón Baldvin sagði viðskipti landanna ekki vera mikil, en viðræður stæðu um tvísköttun og fjárfestingar í löndunum. Þá hefði Peterle með í farteskinu drög að samningi á sviði menningar-, menntamála og vísinda sem tengist m.a. styrkjum til námsmanna og ferðamannaiðnaði, sem verið er að byggja upp í Slóveníu að nýju. Formleg samskipti ríkjanna væru hins vegar aðallega í tengslum við undirbúning fríverslunarsamninga EFTA og Austur-Evrópuríkja.

Benti Jón Baldvin á að Slóvenar hefðu náð geysigóðum árangri í að byggja upp sjálfstætt ríki, ekki síst í efnahagsmálum. Þeim hafi gengið vel að beina viðskiptum sínum í vesturátt, þeir hafi náð stöðugleika í efnahags- og stjórnmálum. Gjaldmiðill þeirra sé traustur og þeir hafi náð niður verðbólgu.

Efnahagsleg áhrif stríðsins í Bosníu

Peterle sagði átökin á Balkanskaga hafa haft mikil áhrif á Slóveníu, þau hefðu hafist í landinu og nú þegar þau hafa færst sunnar á bógin, hafa þau ekki síst áhrif á efnahaginn. Viðskipti við Bosníu-Herzegóvínu, sem voru stór hluti viðskipta Slóvena eru hrunin, fjöldi flóttafólks frá Bosníu er í Slóveníu og flutningaleiðir til og frá Slóveníu hafa breyst vegna stríðsins.

Aðspurður um hvort hann teldi hættu á því að stríðið í Bosníu breiddist út, sagði Peterle hana því miður vera fyrir hendi. Hins vegar teldi hann ekki hættu á því að það næði til Slóveníu því ekki væri eiginlegur serbneskur minnihluti fyrir hendi í landinu.

Peterle var einnig spurður hvort Vesturlönd hefðu staðið rangt að viðurkenningu sinni á sjálfstæði Bosníu-Herzegóvínu. Sagði hann allar tafir á viðurkenningu ríkja sem ættu í stríði eins og í þessu tilfelli, væru í þágu árásaraðilans.

Jón Baldvin benti á það að Peterle hefði hvað eftir annað átt frumkvæði að því að koma fram með tillögur að lausn deilunnar í Bosníu. Hann hefði m.a. lagt til hjá Sameinuðu þjóðunum að knýja yrði Serba til að færa þungavopn sín frá Sarajevo og öðrum borgum Bosníu. Tækist það ekki, yrði að aflétta vopnasölubanni á múslima. Sagði Jón Baldvin mönnum það nú ljóst að réttara hefði verið að hlusta fyrr og betur á tillögur Peterle.

Morgunblaðið/Júlíus

Utanríkisráðherrar á fundi

LOJZE Peterle, utanríkisráðherra Slóveníu, og Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra Íslands á blaðamannafundi í gær.