Ný sjúkrabifreið til Grindavíkur sum leysir eldri bifreið af hólmi Grindavík. Rauðakrossfélag Grindavíkur hefur nýverið fengið nýja sjúkrabifreið af fullkomnustu gerð sem leysir eldri bifreið af hólmi.

Ný sjúkrabifreið til Grindavíkur sum leysir eldri bifreið af hólmi Grindavík. Rauðakrossfélag Grindavíkur hefur nýverið fengið nýja sjúkrabifreið af fullkomnustu gerð sem leysir eldri bifreið af hólmi. Bíllinn er búinn fullkomnum tækjum til sjúkraflutninga og með drif á öllum hjólum.

Sjúkrabifreiðin er af gerðinni Ford Econoline, fjórhjóladrifin með læsingu á öllum hjólum. Hún er m.a. útbúin færanlegu hjartastuðtæki af nýjustu gerð sem hægt að taka með út úr bílnum og tölvu til að mæla súrefnisinnihald blóðs. Eins og einn sjúkraflutningsmaður orðaði það: "Þetta er eins og lítil heilsugæsla á hjólum."

Gunnlaugur Dan Ólafsson sagði í samtali við Morgunblaðið að undirbúningur að komu bílsins hefði staðið yfir í rúmt ár. "Við höfum stefnt að því að skipta um bifreið því eldri sjúkrabifreiðin er sjö ára gömul og kominn tími til að skipta. Þessi bifreið hefur marga kosti umfram þá eldri og sýndi sig strax í fyrsta útkalli sem var eftir að gerði áhlaup um daginn. Þá fórum við í útkall sem við hefðum ekki ráðið við á gamla bílnum. Þetta er því heilmikið öryggi sem fylgir því að vera komin með þessa bifreið sem kemst nánast í útkall í öllum veðrum. Svæðið sem við sinnum er stórt eða frá Reykjanesi og til Krísuvíkur.

Bifreiðin kostar rúmar sex milljónir en við áttum tæki sem við notum áfram úr gömlu bifreiðinni," sagði Gunnlaugur. Hann sagði ennfremur að á síðasta ári hefðu verið milli 130­140 flutningar í gömlu sjúkrabifreiðinni og deildin hefur á að skipa vel þjálfuðum mönnum sem sjá um flutningana. Í Grindavíkurdeild Rauða krossins eru um 140 félagsmenn.

Morgunblaðið/Frímann Ólafsson

Matthías Guðmundsson, Halldór Halldórsson og Róbert Tómasson sjúkraflutningsmenn ásamt Gunnlaugi Dan Ólafssyni, formanni Rauðakrossdeildarinnar í Grindavík, við nýju sjúkrabifreiðina.