Eins og 10 Esjur væru á ferðinni SKRIÐIÐ í Síðujökli er nú í nær öllum jöklinum sem er í suðvesturhluta Vatnajökuls, en magnið sem er á verulegri hreyfingu með tilþrifamiklum hljóðmyndunum er um 200 milljarðar rúmmetra af ís, eða ámóta magn og 10 Esjur á...

Eins og 10 Esjur væru á ferðinni

SKRIÐIÐ í Síðujökli er nú í nær öllum jöklinum sem er í suðvesturhluta Vatnajökuls, en magnið sem er á verulegri hreyfingu með tilþrifamiklum hljóðmyndunum er um 200 milljarðar rúmmetra af ís, eða ámóta magn og 10 Esjur á Kjalarnesi væru á siglingu. Jökulskriðið er á 350 ferkílómetra svæði sem er þrisvar sinnum stærra en allt lögsagnarumdæmi Reykjavíkur að flatarmáli og um 500 metra þykkt. Jökullinn sem skríður fram er um 50 km langur og 5-10 km breiður.

Sérfræðingar frá Orkustofnun og Raunvísindastofnun Háskólans voru að störfum við Síðujökul í gær og fylgdi Morgunblaðið þeim í vélsleðaleiðangri. Á stórum hluta jökulrandarinnar hrannast nú upp úfinn og mikilúðlegur jökulruðningur tuga metra hár. Meðal þess sem vísindamenn reyna að kanna til hlítar eru allar mögulegar ástæður fyrir slíkum náttúruhamförum sem tengjast á engan hátt eldsumbrotum eða hitamyndunum svo vitað sé. Þar sem jökulskriðið var hraðast í gær mældist það um 3 metrar á klukkustund, en meðalhraðinn er um 20 m á dag og reikna vísindamenn með að jökullinn skríði allt að 1,5 km fram.