Kippur kominn í atvinnulífið víðast þar sem loðnufrysting er hafin Verulega hefur dregið úr atvinnuleysi víða á Austfjörðum VERULEGA hefur dregið úr atvinnuleysi víðast hvar á Austfjörðum eftir að loðnufrysting hófst þar fyrir um hálfum mánuði, og gætir...

Kippur kominn í atvinnulífið víðast þar sem loðnufrysting er hafin Verulega hefur dregið úr atvinnuleysi víða á Austfjörðum

VERULEGA hefur dregið úr atvinnuleysi víðast hvar á Austfjörðum eftir að loðnufrysting hófst þar fyrir um hálfum mánuði, og gætir aukinnar bjartsýni hjá fólki með vaxandi atvinnu þrátt fyrir að aðeins sé um tímabundið ástand að ræða. Á Suðurnesjum hafa um 200 manns fengið atvinnu við loðnuvinnslu og frystingu, en Kristján Gunnarsson formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur segir að þrátt fyrir það sé atvinnuástandið þar hroðalegt og vinnan við loðnuna aðeins plástur á svöðusár.

Sigfinnur Karlsson formaður Verkalýðsfélags Norðfirðinga sagði að í endaðan janúar hefði 131 verið skráður atvinnulaus á Neskaupstað, en hins vegar fá 54 greiddar atvinnuleysisbætur á morgun. Sagði hann að um 15 af þeim hefðu þegar fengið vinnu, þannig að um 40 yrðu á atvinnuleysisskrá eftir helgina, og væri það nær eingöngu fiskvinnslufólk. Eiríkur Stefánsson hjá Verkalýðs- og sjómannafélagi Fáskrúðsfjarðar sagði atvinnuástandið á staðnum vera lélegt og síðastliðinn föstudag hefðu 53 verið skráðir atvinnulausir. Hann sagði loðnufrystinguna ekki leysa nein vandamál, en hluti af fólkinu fengi þó vinnu í um hálfan mánuð og síðan færi allt í sama farið aftur. "Goðaborg hf. er byrjað að frysta loðnu, en síðan er rækjutogarinn Klara Sveinsdóttir að koma hér að bryggju. Þeir ætla að liggja hér í tíu daga og frysta loðnu um borð, og eru þeir að fá fyrsta farminn á bílum frá Eskifirði. Það verður bara áhöfnin um borð sem sér um það þannig að það eykur ekki vinnu þeirra sem eru í landi," sagði hann.

Yfirfljótandi af loðnu

Gyða Vigfúsdóttir hjá Verkalýðsfélagi Fljótsdalshéraðs sagði að þegar mest hefði verið hefðu 83 fengið greiddar atvinnuleysisbætur hjá félaginu, en í þessari viku fengju 68 greiddar bætur og væri atvinnuleysi ívið minna en á sama tíma í fyrra. Það hefur birt yfir atvinnulífinu á Seyðisfirði sem annars staðar á Austfjörðum eftir að loðnan kom, og í síðustu viku voru 30 skráðir atvinnulausir, en samkvæmt upplýsingum frá bæjarskrifstofunni hefur þeim fækkað enn frekar síðan. Áður en loðnufrystingin hófst fyrir um hálfum mánuði voru um 100 skráðir atvinnulausir, en auk heimamanna starfa nú um 15 aðkomumenn við frystinguna.

Að sögn Hrafnkels A. Jónssonar formanns Verkalýðsfélagsins Árvakurs á Eskifirði hefur atvinnulífið á staðnum verið mjög að glæðast undanfarið, en auk loðnufrystingarinnar er að skapast atvinna við fullvinnslu á síld hjá Friðþjófi hf. "Þá á ég von á því að það verði farið að fækka verulega á skránni hjá okkur, en í gær fengu 26 greiddar atvinnuleysisbætur og var þá eitthvað af því fólki komið í vinnu. Þegar mest var voru hins vegar um 100 manns á skrá hjá Verkamannafélaginu, og stóð það fram yfir 20. janúar. Það er yfirfljótandi af loðnu hérna eins og er og er maður að gera sér vonir um að það verði áfram eitthvað á næstunni," sagði hann.

Neisti í atvinnulíf-

ið á Suðurnesjum

Kristján Gunnarsson formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur sagði að neisti hefði komið í atvinnulífið á Suðurnesjum samfara loðnufrystingunni. "Hún heggur aðeins á þetta í einhverja daga eða vikur á meðan hún er, en annars er engin önnur breyting á atvinnuástandinu. Það eru sennilega yfir 200 manns sem hafa fengið vinnu með einum eða öðrum hætti við loðnufrystinguna, en þegar mest var voru 487 á atvinnuleysisskrá hérna. Ástandið er því enn alveg hroðalegt hérna, og sum frystihúsin hafa ekkert farið í gang eftir áramótin. Þetta er því aðeins plástur á svöðusárið," sagði Kristján.

Sjá bls. 26: "Um að gera . . .