Harmleikur KA-manna VIÐ erum stödd í KA-húsinu. 2,2 sekúndur lifa af leik KA og Hauka í Íslandsmótinu í handknattleik. Staðan er 19:19 og KA-menn fá vítakast. Valdimar Grímsson gengur fram; gengt honum Magnús Árnason, markvörður. Spennan magnast.

Harmleikur KA-manna

VIÐ erum stödd í KA-húsinu. 2,2 sekúndur lifa af leik KA og Hauka í Íslandsmótinu í handknattleik. Staðan er 19:19 og KA-menn fá vítakast. Valdimar Grímsson gengur fram; gengt honum Magnús Árnason, markvörður. Spennan magnast. Valdimar mundar skothöndina. Áhorfendur halda niðrí sér andanum. Flauta dómarans gellur. Valdimar hikar, en hleypir svo af. Boltinn fer undir Magnús og í gólfið...og yfir markið! Valdimar grípur um höfuð sér og bölvar, en Haukar ærast af gleði. Enn eitt stig í höfn eftir erfiðan leik.

yrri hálfleikur einkenndist af taugaspennu. Leikmenn gerðu fjölmörg mistök í sóknarleiknum. Haukar létu verja frá sér þrjú víti og KA-menn brenndu af einum fjórum, fimm dauðafærum. Varnirnar virkuðu á hinn bóginn nokkuð traustar. Og markvarslan var ágæt, sérstaklega hjá Sigmari Þresti. Alfreð Gíslason leiddi menn sína í fyrri hálfleik og var ákaflega ógnandi í sókn og feyki sterkur í vörn. Halldór Ingólfsson fór hins vegar fyrir Haukum, skoraði fimm af níu mörkum þeirra í hálfleiknum og lagði grunninn að eins marks forystu í hálfleik.

KA-menn voru sterkari í síðari hálfleik og höfðu gjarnan eins til tveggja marka forskot. Þar munaði mest um að Valdimar lék mun betur eftir hlé, gerði þá sex mörk, og svo varði Sigmar Þröstur afskaplega vel. Haukarnir gáfust þó aldrei upp og náðu einlægt að jafna metin. Með örlítilli heppni í lokin hefðu KA-menn þó átt að hafa sigur.

Sigmar Þröstur var bestur heimamanna sem oftar og Alfreð og Valdimar spiluðu einnig vel. Magnús Árnason var snjallastur gestanna, varði oft úr mjög opnum færum.

Morgunblaðið/Rúnar Þór

Valdimar Grímsson brýst framhjá Páli Ólafssyni á Akureyri í gærkvöldi. Hann skaut yfir markið úr vítakasti um leið og leiktíminn rann út og leiknum lauk með jafntefli.

Pálmi

Óskarsson

skrifar