Innihaldslaust hjal eða vönduð dagskrá Ólafi Ormssyni: ÞAÐ ER rétt um það bil áratugur liðinn síðan útvarpsrekstur var gefin frjáls á Íslandi og einokun ríkisútvarpsins var aflétt.

Innihaldslaust hjal eða vönduð dagskrá Ólafi Ormssyni:

ÞAÐ ER rétt um það bil áratugur liðinn síðan útvarpsrekstur var gefin frjáls á Íslandi og einokun ríkisútvarpsins var aflétt.

Bylgjan, sem íslenska útvarpsfélagið rekur, hóf þá þegar samkeppni við ríkisútvarpið um hylli hlustenda og var með aðsetur á Snorrabrautinni, í húsi Osta- og smjörsölunnar, og ég man að þar voru margra daga hátíðarhöld, með fánahyllingu og húrrahrópum og mynduðust stundum langar biðraðir ungs fólks sem eftirvæntingarfullt beið þess að bera augum dýrðina þar innan dyra og langaði til að fá að segja í hljóðnemann þó ekki væri nema, - Halló, bæ, til vina og kunningja á öldum ljósvakamiðilsins.

Síðan er liðinn áratugur og rétt að rifja upp það sem skilur á milli í dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins og hinna svokölluðu frjálsu útvarpsstöðva.

Sannarlega gerðu ýmsir sér vonir um að með tilkomu Bylgjunnar, Stjörnunnar og annarra nýrra útvarpsstöðva myndi fjölbreytileikinn í útvarpsefni vaxa og að hlustendur hefðu um meira að velja.

Auðvitað hefði mátt ætla að nýju fólki fylgdi ferskleiki, frumleiki og kraftur, bjartsýni og þor, umfram allt eitthvað nýtt og óvænt sem gæti keppt við tiltölulega fastmótaða dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins í gegnum árin. Ekki þykir mér t.d. ólíklegt að forstöðumenn nýju útvarpsstöðvanna hafi sett sér það takmark í upphafi að bjóða upp á vandaða dagskrá og ekki einungis fyrir unglinga heldur einnig miðaldra fólk og eldra.

Þvílík vonbrigði. Hafi í upphafi verið einhver metnaður í þá átt að halda úti vandaðri dagskrá þá sýnist mér hann vera löngu horfinn.

Það sem einkennir einna helst nýju útvarpsstöðvarnar öðru fremur er blaður útvarpsþulanna um allt og ekki neitt og innihaldslaust hjal um nýjar kvikmyndir, framhjáhald kvikmyndastjarna og hvar poppgoðin haldi tónleika eða hafi sýnt sig á almannafæri síðast.

Sannarlega eru til undantekningar og þess ber að geta sem vel er gert. Bylgjan hefur t.d. góðan útvarpsmann og þáttargerðarmann þar sem Eiríkur Jónsson er. Áheyrilegur og afslappaður og kann þá list að spjalla við hlustendur. Það sama má einnig segja um Ragnar Bjarnason á FM 95,7 og þátt hans Tímavélina. Ragnar er húmoristi sem lífgar verulega upp á dagskrá þeirrar stöðvar. Þá ekki gleyma Inger Önnu Aikman á Bylgjunni sem ræðir við hlustendur eins og vini og kunningja heima í stofu og setur sig inn í vandamál nútímafólks.

Allur samanburður á dagskrá útvarpsstöðvanna er Ríkisútvarpinu verulega í hag. Ef til vill engin furða, sú stofnun býr að áratuga reynslu dagskrárgerðarfólks. Það sem mér sýnist þó skipta mestu máli er að það er eins og vanti allan metnað í dagskrá frjálsu útvarpsstöðvanna. Ekki þykir mér t.d. líklegt að það breytti nokkru þó þær hefðu úr meira fjármagni að spila. Hin engilsaxneska poppmúsík er allsráðandi í dagskránni og hið talaða orð, móðurmálið, íslenskan, á í vök að verjast og enskuslettur að koma inn í mál dagskrárgerðarfólksins eða umsjónarmanna hinna einstöku þátta. Það er auðvitað stóralvarlegt mál og von að þar verði ráðin bót á hið fyrsta.

Kristin trú er eins og feimnismál á nýju útvarpsstöðvunum. Ég undanskil auðvitað Stjörnuna sem hefur til skamms tíma verið rekin af fólki innan ýmissa trúfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu. Ekki minnist ég þess að hafa heyrt útvarpsmessu á Bylgjunni eða að þar hafi verið lesin smásaga eða flutt leikrit.

Ríkisútvarpið rekur eins og kunnugt er Rás 1 og Rás 2. Fjölbreytileiki dagskrár rásanna er slíkur að þar eiga allir aldurshópar að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þar er gamla gufan í fararbroddi með frábæra útvarpsmenn, Jónas Jónasson, Elísabetu Brekkan, Ævar Kjartansson, Illuga Jökulsson, Svanhildi Jakobsdóttur og Vernharð Linnet og Rás 2 með Sigurð G. Tómasson, Lísu Pálsdóttur, Svavar Gests og Gest Einar svo nokkrir séu nefndir sem koma upp í hugann.

Það er ólíku saman að jafna þegar dagskrá Ríkisútvarpsins og hinna svokölluðu frjálsu útvarpsstöðva er borin saman. En auðvitað ber ég þá von í brjósti að úr muni rætast og að við eignumst einhvern tímann verðugan keppinaut við Ríkisútvarpið, keppinaut með vandaða menningarlega dagskrá, áheyrilega dagskrá úr hinu daglega lífi á Íslandi, dagskrá er fjalli um vonir og drauma fólksins í landinu, líf þess og starf.

Áhrifamiklir aðilar virðast vinna að því leynt og ljóst að þrengja að starfsemi Ríkisútvarpsins sem er sameign þjóðarinnar og stolt okkar flestra.

Mér hefur stundum fundist eins og menntamálaráðherra komi því miður ekki auga á mikilvægi Ríkisútvarpsins í menningarlegu tilliti. Auðvitað hlýtur hann að gera sér grein fyrir því að það ber að treysta fjárhag Ríkisútvarpsins og ekki endilega með afnotagjöldum heldur nýjum tekjustofni. Það er brýnt úrlausnarefni að Ríkisútvarpinu verði sköpuð fjárhagsleg skilyrði til að halda úti jafn vandaðri dagskrá og verið hefur um árabil.

ÓLAFUR ORMSSON,

rithöfundur,

Eskihlíð 16a,

Reykjavík.