Viðskipti Greiðslukortavæðingu eru lítil takmörk sett Tilraunir með myntkort í opnum kerfum eru víða vel á veg komnar og Íslendingar fylgjast vel með framvindu mála. Myntkortin munu væntanlega fylgja í kjölfar debetkortanna hér á landi.

Viðskipti Greiðslukortavæðingu eru lítil takmörk sett Tilraunir með myntkort í opnum kerfum eru víða vel á veg komnar og Íslendingar fylgjast vel með framvindu mála. Myntkortin munu væntanlega fylgja í kjölfar debetkortanna hér á landi.

ÞAÐ ER sagt að í náinni framtíð muni eitt plastkort duga mönnum í viðskiptum, smáum sem stórum, debet eða kredit. Um verði að ræða kort með tölvukubbi sem hægt sé að forrita á hina ýmsu vegu og jafnvel sé ekkert því til fyrirstöðu að inni á kortinu verði sjúkraskrá handhafa, sakaskrá og aðrar persónulegar upplýsingar sem nauðsynlegar eru í nútíma þjóðfélagi. Tækniþekkingin er fyrir hendi en helstu hindranir eru annars vegar mikill kostnaður enn sem komið er og hins vegar blómlegur falsiðnaður sem teygir arma sína um allan heim. Menn eru þó víða farnir að stíga fyrstu skrefin í átt að frekari kortavæðingu. Danir eru komnir vel áleiðis í þróuninni og þar hafa nú rutt sér til rúms svokölluð myntkort sem leysa eiga skotsilfur að miklu leyti af hólmi. Myntkortin eru handhafakort sem hlaðin eru með ákveðinni upphæð sem eyðist af eftir notkun. Þessa viðskiptahætti er reyndar verið að þróa víða og hér á landi bíða menn eftir að debetkortamálið komist í höfn áður en farið verður að vinna að þessum málum.

Myntkort og debetkort tengjast náið því hugmyndin að baki myntkortunum er meðal annars að losa fólk undan því að nota venjuleg greiðslukort, debet eða kredit, í smærri viðskiptum. Þannig sparast bæði fyrirhöfn og færslukostnaður. "Hvorki debetkort né kreditkort eru hentug fyrir smærri færslur," segir Júlíus Óskarsson hjá Visa Íslandi sem sæti á í framkvæmdanefnd um rafrænar greiðslur á sölustað, RÁS-nefnd. "Ástæðan er m.a. kostnaðurinn við hverja færslu sem er óháður upphæð færslunnar auk skriffinnskunnar sem fylgir hverju sinni, en myntkortin eru handhafakort og virka þannig líkt og peningar. Þessi myntkort eru því mjög að ryðja sér til rúms erlendis og við höfum skoðað þessi mál mjög vandlega hér. Þetta er töluvert mál og við höfum ekki treyst okkur í það fyrr en debetkortamálið er frá. Ég myndi ætla að þetta yrði næsta skref."

Opið kerfi eykur notkunarmöguleikana

Útbreiðsla myntkorta er jákvæð fyrir debetkortin því þannig losnar fólk við að nota þau síðarnefndu í smærri viðskiptum þar sem færslukostnaðurinn er hlutfallslega hár. Í Danmörku þar sem tilraunir með myntkort eru vel á veg komnar er hægt að kaupa kortin sem kallast Danmønt í bönkum fyrir ákveðnar mismunandi fjárhæðir sem síðan eyðast af. Danir hafa þróað opið kerfi fyrir kortin þannig að það er m.a. hægt að nota þau til að greiða í stöðumæla, mötuneyti, þvottahús, strætisvagna og síma. Eins er víða hægt að greiða með myntkortum í söluturnum þar sem verið er að kaupa fyrir litlar fjárhæðir.

Tæknilega er sá möguleiki fyrir hendi að keyra myntina frá debetkortum eða kreditkortum yfir í myntkortin og hlaða þau þannig í sérstökum vélum. Danir hafa ekki enn sett upp slíkan búnað heldur eru einnota myntkort keypt í bönkum. "Hvert kort kostar um tvo dollara í framleiðslu og Danir hafa selt á þau auglýsingar til að standa undir kostnaði þar sem þetta eru þar enn sem komið er einnota kort," segir Júlíus. "Það sem gerir tilraunina með Danmønt sérstaklega áhugaverða er að kortið gildir víða og er þannig mjög þægilegur viðskiptamáti. Við þekkjum hér svipuð kort í lokuðu kerfi þar sem notagildið er mun takmarkaðra."

Bílastæðasjóður er með kort í lokuðu kerfi

Bílastæðasjóður hefur um tveggja ára skeið boðið sérstök myntkort sem gilda í miðasjálfsala á rúmlega 20 stöðum í Reykjavík. Þar er um að ræða lokað kerfi sem Stefán Haraldsson, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs, segir mikinn galla þar sem annars konar kort gildi sem aðgöngukort að bílastæðahúsum borgarinnar. "Ég hef mikinn hug á að samræma þetta og þar koma ýmsir möguleikar til greina. Það er þó best að fara varlega í framkvæmdir því þessir tölvukubbar sem verið er að gera tilraunir með erlendis gætu verið komnir innan fimm til tíu ára og það er best að vera þá ekki búinn að brenna allar brýr að baki. Opið kerfi með slíkum kortum væri náttúrlega það ákjósanlegasta," segir Stefán.

Margar þjóðir eru með útgáfu á myntkortum í undirbúningi og horfa þá til þess að um fjölnotakort verði að ræða, þ.e. kort í opnum kerfum. Það sem einna helst flækir málið er að koma greiðslum til réttra aðila. "Það er einfalt að útbúa myntkort þar sem ákveðin upphæð dregst frá við notkun. Í opnu kerfi þarf hins vegar flókið uppgjörskerfi sem safnar saman öllum færslum og deilir peningum út á viðkomandi aðila," segir Júlíus Óskarsson.

Tölvukubburinn hentugri en segulröndin

Kort með segulrönd eru mun viðkvæmari í meðförum en kort með tölvukubbum og því eru margir sem vilja taka þau framyfir. Þá gefur tölvuminniskubburinn meiri möguleika en segulröndin þar sem í kubbnum rúmast mikið magn af upplýsingum sem lesnar eru með sérstökum búnaði á meðan segulröndin byggist á því að sækja upplýsingar í tölvu annars staðar.

"Tilkoma myntkorta með tölvukubb krefst þess að nýr búnaður verði settur í verslanir," segir Helgi Steingrímsson. "Maður sér hins vegar fram á að þessi kort kunni að verða hagkvæm svo framarlega sem tækjabúnaður verði á hagkvæmu verði. Danir eru að reyna að draga úr notkun skotsilfurs með því að fá fólk til að nota myntkortin fyrir lægri fjárhæðir, t.d. á stöðum þar sem það hefði ekki endilega dregið upp debetkort heldur notað mynt."

Hjá Pósti og síma eru um 120 kortasímar í gangi þar sem notuð eru ákveðin einingakort. "Við höfum skoðað þessi nýju myntkort," segir Gylfi Már Jónsson hjá Pósti og síma. "Það verður hins vegar mikið fyrirtæki að breyta yfir í nýja gerð úr því að við völdum hina leiðina í upphafi og við myndum væntanlega þurfa að leggja þá síma af sem við notum nú. Eins og er fylgjumst við með því sem þarna er að gerast og metum stöðuna upp á nýtt þegar þróunin verður orðin skýrari."

Gylfi Már segir að þar sem myntkortin séu dýrari í framleiðslu en þau sem fyrirtæki noti nú sé það mikið álitamál hvort þau séu heppileg í lokuðu kerfi þar sem eingöngu er hægt að nota þau sem símakort. Þannig verði hlutfall framleiðslukostnaðar tiltölulega hátt. "Það er ekkert í augnablikinu sem hvetur okkur til að fara strax yfir í þetta. Við munum hins vegar fylgjast vel með þróuninni. Ef það kemur í ljós að menn eru að hugsa sér að nota svona kort fyrir hina ýmsu þjónustu þá er grundvöllurinn orðinn allt annar," segir Gylfi Már.

Fleiri útgáfur myntkorta eru í þróun

Hörður Gíslason, framkvæmdastjóri stjórnarnefndar um almenningssamgöngur, segir að þar hafi menn fylgst vel með framvindu mála varðandi myntkortin. "Það hafa verið haldnar ráðstefnur annað hvert ár innan almenningssamgöngugeirans á Norðurlöndum og þar hefur t.d. sá búnaður sem notaður er í Danmörku verið kynntur. Þetta er þó víðast enn á tilraunastigi og því höfum við meira verið að skoða en framkvæma. Það hefur orðið mikil tæknibreyting á þessu frá misseri til misseris og mismunandi lausnir hafa komið upp. Þegar þetta verður orðið samræmdara verður kominn tími til að skoða málið nánar. Þessi kerfi eru dýr bæði að stofni til og í rekstri, en þróunin í þessu er ör og kostnaðurinn getur lækkað snögglega. Manni sýnist þó að þetta komi varla til greina nema um opið kerfi verði að ræða, annað svarar ekki kostnaði."

Notkun Danmønt var prófuð í danska bænum Næstved þar sem eru um 40.000 íbúar. Tilraunin gekk það vel að kortið er nú notað um allt land og aðrar þjóðir eru vel á veg komnar með að taka upp svipuð kerfi. Í Bretlandi er verið að þróa aðra útgáfu af myntkorti, svokallað smartkort. Á dagskrá er að prófa kortið í borginni Swindon á næsta ári. Hugmyndin á bak við smartkortið er að hvar sem réttur rafrænn búnaður er til staðar er hægt að nota kortið bæði til greiðslu og móttöku peninga og kortið getur innihaldið fimm mismunandi gjaldeyristegundir. Hægt er að læsa kortinu þannig að aðeins réttur korthafi geti notað það með því að gefa upp ákveðna lykiltölu. Yfirmenn National Westminster bankans í Bretlandi þar sem smartkortið var þróað vonast eftir alþjóðlegri útbreiðslu. Það muni þó væntanlega taka yfir áratug fyrir kortið að ná fótfestu en með tímanum spá þeir því að það geti tekið við af um 40% þess skotsilfurs sem er í umferð.

HKF

Morgunblaðið/Þorkell

MYNTKORT - Danmønt-kortin í Danmörku þykja góð viðbót við greiðslukortaúrvalið þar í landi. Um er að ræða myntkort sem eru hlaðin með ákveðinni fjárhæð sem eyðist af eftir notkun. Á Íslandi fylgjast menn vel með þróun mála og talað er um að myntkortavæðing verði hér næst á dagskrá eftir að debetkortamálið kemst í höfn.