Rannsóknarblaðamennska Rásar 2 Þórdísi Guðjónsdóttur "Hvernig má það vera að starfsmenn ríkisfjölmiðilsins Rásar 2 virðast geta farið með þetta öfluga tæki rétt eins og hvert annað leikfang?" Þann 12. febrúar birti Morgunblaðið grein byggða á bréfi sem...

Rannsóknarblaðamennska Rásar 2 Þórdísi Guðjónsdóttur "Hvernig má það vera að starfsmenn ríkisfjölmiðilsins Rásar 2 virðast geta farið með þetta öfluga tæki rétt eins og hvert annað leikfang?" Þann 12. febrúar birti Morgunblaðið grein byggða á bréfi sem undirrituð sendi Útvarpsráði vegna ærumeiðandi umfjöllunar á Rás 2 um veitingastað okkar Kaffi List. Í kjölfar opinberrar birtingar bréfsins fékkst loks svar frá Útvarpsráði og segir þar m.a. orðrétt: "Útvarpsráð hlustaði á umrædda umfjöllun og þykir leitt að hún var ekki með því yfirbragði sem æskilegast þykir í Ríkisútvarpinu. Eins og að ofan greinir hefur verið farið ítarlega yfir málið með viðkomandi aðilum og ætti slíkt því ekki að endurtaka sig."

Þann 16. febrúar birtist athugasemd frá dagskrárstjóra Rásar 2 þar sem hann hrekur í öllum atriðum efni bréfs okkar og fullyrðir m.a. að spænskur meðgeigandi minn kunni nægilega mikið í íslensku til að þola ákúrur samstarfskonu hans. Slíkt er umdeilanlegt en skiptir ekki máli úr því sem komið er, enda ljóst að þar stendur fullyrðing gegn fullyrðingu.

Sama dag sér Anna Kristine Magnúsdóttir ástæðu til að flytja útvarpshlustendum fréttir af afdrifum fyrrverandi starfsmanns okkar og er inntak fréttarinnar það að hann sé enn atvinnulaus en hafi ekki misst tiltrú á íslensku þjóðinni, jafnvel þó hann beri nokurn kala til forsvarsmanna þeirra þriggja veitingahúsa sem hann hefur starfað á síðastliðna mánuði. Til að fréttin hafi einhvern brodd þá lætur hún fylgja svívirðingar í okkar garð og segir hann ekki hafa fengið borguð laun fyrir en lögfræðingur var settur í málið. Þetta segir hann gegn betri vitund vegna þess að hann var þegar búinn að skipta ávísuninni sem hann fékk senda í ábyrgðarpósti frá okkur er lögfræðingur á hans vegum hringdi til endurskoðenda fyrirtækis okkar til að afla upplýsinga um hvernig launin væru útreiknuð. Þetta eru staðreyndir sem Anna Kristine hefði getað staðfest með einu símtali væri hún sá rannsóknarblaðamaður sem hún gefur sig út fyrir að vera.

Til að undirstrika mikilvægi fréttarinnar af högum fyrrverandi lausráðins starfsmanns okkar eftir að við höfðum kallað yfir hann atvinnuleysi og örbyrgð var dagskrárliðurinn kynntur fjórum til fimm sinnum. Væntanlega til þess að við finndum örugglega fyrir refsivendinum fyrir að gera tilraun til að andmæla svívirðingum í okkar garð.

Við ætlum ekki að ræða þetta mál frekar á opinberum vettvangi heldur láta reyna á það hvort Siðanefnd blaðmannafélagsins telur málið jafn léttvægt og þeir sem starfa á Dægurmálaútvarpi Rásar 2.

Afur á móti hlýtur það að vera nokkuð sérkennileg staða sem Útvarpsráð er komið í. Vegna þess að "viðkomandi aðilar" virða ekki ábendingar ráðsins meira en svo að þeir en svo að þeir veitast aftur að okkur með lygina að vopni sem í þetta sinn er hægt að sýna fram á með skjalfestum gögnum. Hvernig má það vera að starfsmenn ríkisfjölmiðilsins Rásar 2 virðast geta farið með þetta öfluga tæki rétt eins og hvert annað leikfang? Var tilgangur Önnu Kristine með fréttainnslaginu að sýna alþjóð og Útvarpsráði hver valdið hefði?

Höfundur er eigandi Kaffi Listar.