Fiskvinnslufyrirtækið Eyfisk í Hrísey Framleiðsla hafin á tilbúnum fiskréttum FJÓRIR Hríseyingar, Víkingur Smárason, Sara Hamilton, Harpa Smáradóttir og Guðmundur Gíslason, hafa stofnað fyrirtækið Eyfisk sem framleiðir tilbúna fiskrétti.

Fiskvinnslufyrirtækið Eyfisk í Hrísey Framleiðsla hafin á tilbúnum fiskréttum

FJÓRIR Hríseyingar, Víkingur Smárason, Sara Hamilton, Harpa Smáradóttir og Guðmundur Gíslason, hafa stofnað fyrirtækið Eyfisk sem framleiðir tilbúna fiskrétti.

Þegar hafa tvær tegundir komið á markaðinn, fiskur í raspi og fiskur í kókosraspi, en Víkingur sagði að fyrirhugað væri að hefja framleiðslu á fleiri tegundum auk þess býður fyrirtækið t.d. veitingahúsum og mötuneytum upp á sérpantanir eftir þeirra óskum.

Húsnæði sem fyrirtækið leigir af Hríseyjarhrepp hefur verið innréttað með þessa framleiðslu í huga. Allur fiskur er handflakaður og roðflettur og síðan skorin í hæfilega bita, en fiskurinn er keyptur á fiskmarkaði á Dalvík. Hann er síðan unnin í sérstakar pakkningar, 350 til 400 gramma. Til að byrja með verður hann seldur í verslun Hagkaups á Akureyri og fór fyrsta sendingin þangað í vikunni. Viðtökur hafa verið góðar að sögn Víkings.

Við vorum að leita okkur að einhverju að gera, en við höfum öll unnið í fiski og þekkjum þá starfsgrein vel, þannig að þetta varð ofan á," sagði Víkingur um tildrög þess að fjórmenningarnir hófu þessa framleiðslu.

Morgunblaðið/Magnús J. Mikaelsson

Fiskréttaframleiðsla

VÍKINGUR Smárason, Sara Hamilton, Harpa Smáradóttir og Guðmundur Gíslason eigendur Eyfisk í Hrísey, sem sett hefur á markað tilbúna fiskrétti, eins og þann sem sést á innfelldu myndinni.