Héraðsdómur Norðurlands eystra Tælandsfarar voru dæmdir í fangelsi TVEIR karlmenn hafa verið dæmdir til fangelsisvistar í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir að hafa staðið saman að útgáfu tékka á stolnum eyðublöðum í þeim tilgangi að komast yfir fé til...

Héraðsdómur Norðurlands eystra Tælandsfarar voru dæmdir í fangelsi

TVEIR karlmenn hafa verið dæmdir til fangelsisvistar í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir að hafa staðið saman að útgáfu tékka á stolnum eyðublöðum í þeim tilgangi að komast yfir fé til Tælandsferðar.

Mennirnir, sem eru 56 og 37 ára gamlir, stóðu saman að útgáfu níu tékka á stolnum eyðublöðum úr tékkhefti frá Búnaðarbanka Íslands sem þeir gáfu út og framseldu á víxl í þeim tilgangi að komast yfir fé til Tælandsferðar sem þeir fóru ásamt félaga sínum síðla árs 1991.

Mennirnir voru einnig ákærðir fyrir að hafa dregið sér andvirði myndbandstökuvélar sem þeir tóku á leigu, en seldu í Bangkok í Tælandsferð sinni.

Báðir hafa mennirnir margoft hlotið dóma áður fyrir margvísleg brot. Í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra þótti refsing þess eldri með hliðsjón af sakaferli hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði. Yngri maðurinn var dæmdur í 6 mánaða fangelsi, en þar af var fullnustu 4 mánaða refsivistar frestað og fellur hún niður að þremur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi hann almennt skilorð.

Þá var Tælandsförunum gert að greiða skaðabætur til níu aðila samtals að upphæð rúmlega 467 þúsund krónur auk þess að greiða allan sakarkostnað.