Tillaga minnihlutaflokkanna í borgarstjórn Borgarráð kannar útboð á innheimtu fyrir Bílastæðasjóð BORGARSTJÓRN samþykkti einróma á fundi sínum á fimmtudag að vísa tillögu minnihlutaflokkanna, um útboð á lögfræðiinnheimtu fyrir Bílastæðasjóð, til...

Tillaga minnihlutaflokkanna í borgarstjórn Borgarráð kannar útboð á innheimtu fyrir Bílastæðasjóð

BORGARSTJÓRN samþykkti einróma á fundi sínum á fimmtudag að vísa tillögu minnihlutaflokkanna, um útboð á lögfræðiinnheimtu fyrir Bílastæðasjóð, til umfjöllunar borgarráðs.

Kristín Á. Ólafsdóttir flutti tillöguna, um að lögfræðiinnheimta á sektum Bílastæðasjóðs yrði boðin út strax og það væri mögulegt vegna samnings við núverandi innheimtuaðila. Kristín sagði að með tillögunni væri þess freistað að ná hagstæðari innheimtu fyrir Bílastæðasjóð. Árið 1988 hefði verið samið við lögfræðistofu í Reykjavík um innheimtuna. Það hefði borgarlögmaður og þáverandi borgarstjóri gert, án þess að útboð eða auglýsing hefði komið til. Líklega væri ekki um tilviljun að ræða í vali á stofunni og það væri enn eitt dæmi um hvernig Sjálfstæðismenn nýttu sér valdaaðstöðu sína til að hygla mönnum. Slíka spillingu þyrfti að koma í veg fyrir. Eðlilegt væri að jafnræði gilti og allir innheimtuaðilar ættu þess kost að keppa um að selja Bílastæðasjóði þessa þjónustu. Frá árinu 1988 til og með 1993 hefðu sektir að upphæð 140 milljónir farið til innheimtu. Þar af hefðu um 54 milljónir skilað sér til sjóðsins, um 31 milljón til lögfræðistofunnar, en um 50 milljónir væru enn útistandandi, þó hluti hefði verið afskrifaður.

Fylgjandi skoðun

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Júlíus Hafstein, Sveinn Andri Sveinsson og Markús Örn Antonsson borgarstjóri, lýstu sig fylgjandi því að skoða tillögu minnihlutans. Þeir gagnrýndu hins vegar allir að málflutningur Kristínar hefði ekki verið málefnalegur, þar sem hún hefði notað tækifærið til að vega að ungum lögfræðingi í borginni. Kristín neitaði því og sagði að gagnrýni sín beindist ekki að þessum lögmanni, heldur vinnubrögðum borgaryfirvalda við samningsgerðina á sínum tíma.

Tillaga Vilhjálms, um að tillögu minnihlutans yrði vísað til borgarráðs til frekari skoðunar og upplýsingaöflunar, var samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum.