HEIMSMEISTARAKEPPNIN 1995 Spurning um réttlæti eða súrsætan sigur í Vínarborg dag, laugardaginn 19. febrúar 1994, kemur sjö manna framkvæmdastjórn Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, saman í Vínarborg og ákveður, hvort Ísland uppfyllir öll skilyrði...

HEIMSMEISTARAKEPPNIN 1995 Spurning um réttlæti eða súrsætan sigur í Vínarborg dag, laugardaginn 19. febrúar 1994, kemur sjö manna framkvæmdastjórn Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, saman í Vínarborg og ákveður, hvort Ísland uppfyllir öll skilyrði til að halda heimsmeistarakeppnina á næsta ári. Í septemberbyrjun 1988 samþykkti þing IHF í Seoul að keppnin yrði á Íslandi og staðfesti fyrri samþykkt í Barcelona í júlí 1992. Fulltrúaþing IHF í Kuwait samþykkti tillögur Íslendinga um dagsetningar keppninnar í nóvemberbyrjun s.l., en engu að síður hefur framkvæmdastjórn IHF dregið að fylgja fyrri samþykktum eftir og skrifa undir samstarfssamning við Íslendinga. Fyrst setti IHF sem skilyrði að staðið yrði við fyrirheit um íþróttahús fyrir úrslitaleikinn, sem tæki a.m.k. 7.500 áhorfendur, en 1992 var sæst á að samþykkja Laugardalshöll, tæki hún 4.200 áhorfendur. Síðustu misseri hefur ásteytingarsteinninn verið hver eigi að greiða framleiðslu- og útsendingarkostnað sjónvarps vegna keppninnar, en samkvæmt útreikningum Sjónvarpsins er um 58 milljónir að ræða. Fundurinn í dag sker úr um hver á að borga og eru þrír möguleikar í stöðunni: Í fyrsta lagi að svissneska fyrirtækið CWL, sem keypti sjónvarpsréttinn, beri kostnaðinn eins og Íslendingar halda fram. Í öðru lagi að Íslendingum beri að greiða, sem virðist vera túlkun áhrifamanna IHF og CWL, og í þriðja lagi að kostnaðinum verði skipt á milli þessara aðila, en þá yrði farið út fyrir gerða samninga. Þó Íslendingar séu sannfærðir um að þeir eigi ekki að taka þátt í umræddum kostnaði efast þeir um að fundurinn verði á sama máli, þó einstakir framkvæmdastjórnarmenn hafi sagst vera sammála. Því eru fjórir fulltrúar HSÍ og HM-nefndarinnar í Vín, þar sem þeir ætla að leggja síðustu trompin á borðið. Þeir lifa í voninni, en sumir óttast innst inni að réttlætið nái ekki fram að ganga heldur verði um súrsætan sigur að ræða - að Ísland haldi keppninni með því skilyrði að borga sjónvarpskostnaðinn. Fari svo, tekur nefndin ekki á sig umrædd útgjöld, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, því það væri ávísun á tap vegna framkvæmdar keppninnar, og þá yrði um tvennt að velja: Annars vegar að ríkisstjórnin tryggði greiðslur eða hins vegar að hreinlega yrði pakkað saman og framkvæmd keppninnar gefin upp á bátinn.

IHF: Keppnin verður á Íslandi

Erwin Lanc, forseti IHF, barðist gegn því að þingið í Barcelona samþykkti Höllina og sagði að finna yrði annan framkvæmdaraðila. "Ef staðan er svona slæm [ekki til peningar á Íslandi til að byggja íþróttahöll fyrir a.m.k. 7.500 áhorfendur] hafa Íslendingar varla efni á þeim margvíslegu útgjöldum öðrum, sem óhjákvæmileg eru þegar halda á heimsmeistarakeppni," sagði hann m.a. við Morgunblaðið áður en málið var tekið fyrir. Raymond Hahn, framkvæmdastjóri IHF, sagði eftir samþykktina að húsamálið væri í slæmum farvegi, en "að öðru leyti erum við mjög ánægðir með að keppnin skuli verða á Íslandi." Aðspurður um hvort IHF gæti tekið keppnina af Íslendingum sagði Hahn: "Nei, nei, nei. Keppnin verður á Íslandi - það er öruggt."

IHF: Sennilega á Íslandi

13. maí í fyrra sendi IHF HSÍ bréf þar sem farið var framá að ábyrgðum vegna sjónvarpsútsendinga, stækkun Hallarinnar og tryggingafés yrði skilað fyrir lok júní 1993. Þar kemur fram að íslenska Sjónvarpið verði að ábyrgjast sendingu frá öllum leikjum og það eða mótshaldari beri kostnað við uppsetningu tækjabúnaðar. HM-nefndin skýrði afstöðu sína til sjónvarpsmála viku síðar og gerði IHF engar athugasemdir, en 3. júní bauð CWL RÚV að vera heimasjónvarpsstöð og fengi fyrir það rétt á HM '95 og EM '94. Í lok ágúst mættu fulltrúar IHF til Reykjavíkur á fund og þar var efnislega bókað að íslenska sjónvarpið eigi að tryggja að allir leikir verði sendir, mótshaldari eigi að tryggja að allir tæknilegir hlutir sjónvarpsins vegna verði í lagi og CWL verði að ganga frá öllum frekari atriðum við kaupanda eða mótshaldara.

Mánuði síðar var fyrstu sprengjunni varpað, þegar Morgunblaðið greindi frá óvissunni varðandi sjónvarpsmálin. Þá sagði CWL að upptökur og sendingar kæmu fyrirtækinu ekki við heldur væru mál IHF og HM-nefndarinnar. Nefndin sagði ekki hægt að gera þriðja aðila ábyrgan, en Frank Birkenfeld, skrifstofustjóri IHF, sagði að HSÍ bæri ábyrgð á sjónvarpsútsendingum. Yrði ekki gengið frá málinu fyrir 30. september yrði IHF að gera nauðsynlegar ráðstafanir. Aðspurður um hvort það þýddi að keppnin yrði tekin af Íslendingum sagði hann: "Nei, ég held ekki og ég vona ekki."

IHF: Ekki ykkar mál

Í októberbyrjun sendi HM-nefndin CWL bréf þar sem hvatt var til samningaviðræðna milli fyrirtækisins og RÚV. IHF brást illa við og sagði í bréfi hálfum mánuði síðar að nefndin ætti ekkert með að hafa samband við CWL.

1. nóvember hófust samskipti RÚV og CWL með því að CWL spurðist fyrir um framleiðslukostnað og spurningin var áréttuð 18. nóvember, en IHF gaf frest til til janúarloka til að ganga frá málinu. 4. janúar s.l. skrifaði útvarpsstjóri CWL og bað um formlegan fund vegna sjónvarpsmálsins og HM-nefndin hvatti CWL til aðgerða með bréfi 17. janúar. IHF sagði CWL að fara til Íslands og semja og þá sagði Hahn við Morgunblaðið að íslenska framkvæmdanefndin væri ábyrg fyrir því að hægt væri að senda frá Íslandi, en CWL væri ábyrgt fyrir upptöku og sendingum. "Framkvæmd keppninnar er einn hlutur og sjónvarpsmálið annar...Ef CWL getur ekki staðið við samninginn verður það að skila fengnum rétti, en fyrirtækið getur ekki hindrað að keppnin verði á Íslandi."

Viðbrögð eftir fundinn 26. janúar voru þannig að enginn, hvorki CWL, IHF, RÚV eða HSÍ/HM-nefndin sagðist eiga að borga umræddan kostnað. Hins vegar kom fram vilji um að dreifa kostnaðinum og í því sambandi bauð CWL RÚV sýningarrétt frá ákveðnum mótum og leikjum sem hlut svissneska fyrirtækisins í þessum kostnaði.

Ágreiningur um túlkun laga IHF varð til þess að formaður HSÍ fór ásamt lögfræðingi á fund framkvæmdastjóra IHF 31. janúar, þar sem þeir afhentu umbeðin gögn, Þá fengu þeir, fyrstir Íslendinga, að sjá samning IHF og CWL og sannfærðust enn frekar um að Íslendingar ættu ekki að borga fyrir upptöku- og sendingarkostnað, heldur væri það í verkahring CWL. Þá staðfesti Hahn að skilningur IHF og HSÍ færi saman, en vildi samt ekki staðfesta hver ætti að greiða fyrrnefnda þætti. "Ísland hefur uppfyllt öll skilyrði og það eina, sem ég get staðfest, er að heimsmeistarakeppnin 1995 verður á Íslandi," sagði hann við Morgunblaðið.

IHF: Óákveðið

Nokkrum dögum síðar kom fram hjá forseta IHF í samtali við Morgunblaðið að hann var ósammála framkvæmdastjóranum um að keppnin yrði á Íslandi, því ákvörðun hefði ekki verið tekin. Sagði að lögfræðingur IHF ætti eftir að skoða samningana og þegar niðurstöður hans lægju fyrir, tæki framkvæmdastjórn IHF málið til lokaafgreiðslu 19. febrúar.

Íslenskir lögfræðingar, sem hafa skoðað þá samninga, sem skipta máli, eru sammála um að rétturinn sé Íslands megin, að ekki sé hægt að gera Íslendingum að greiða umræddan kostnað. Samt sem áður bera menn ekki meira traust til framkvæmdastjórnar IHF en svo að fjórir Íslendingar eru í Vín til að fylgja málstað íslensku umsóknarinnar og umbeðnum gögnum eftir. Það eitt bendir til að ekki sé allt með felldu.

Eftir

Steinþór

Guðbjartsson