VETRARÓLYMPÍULEIKARNIR Í LILLEHAMMER Betra seint en aldrei Dan Jansen nældi í fyrsta Ólympíugullið á síðustu leikunum DAN Jansen heyrði loks bandaríska þjóðsönginn í gær við þær aðstæður sem hann hefur lengi dreymt um; eftir að Ólympíugull var hengt um...

VETRARÓLYMPÍULEIKARNIR Í LILLEHAMMER Betra seint en aldrei Dan Jansen nældi í fyrsta Ólympíugullið á síðustu leikunum

DAN Jansen heyrði loks bandaríska þjóðsönginn í gær við þær aðstæður sem hann hefur lengi dreymt um; eftir að Ólympíugull var hengt um háls honum. Þessi besti sprett-skautahlaupari heimsins tekur nú þátt í Ólympíuleikum í fjórða skipti, en hafði alltaf mistekist að vinna til verðlauna þar til í gær, er hann sigraði í 1.000 m hlaupinu og setti heimsmet í leiðinni.

ansen, sem fipaðist í 500 m hlaupinu á mánudag og náði aðeins áttunda sæti, missti jafnvægið um stund í gær - í síðustu beygjunni - og studdi annarri hendinni niður á ísinn til að detta ekki. En það kom ekki að sök. Tími hans var 1 mín. 12,43 sek. og Bandaríkjamaðurinn bætti heimsmetið um 11 hundraðshluta úr sekúndu. Kanadamaðurinn Kevin Scott átti metið - setti það í Calgary í heimalandi sínu 17. desember sl. - og hann hljóp á svellinu fljótlega á eftir Jansen í gær. Scott náði sér ekki á strik og varð áttundi.

Jansen var vel fagnað af 10.600 áhorfendum sem fylltu skautahöllina glæsilegu í Hamri, Víkingaskipið svokallaða. "Mér hefur aldrei liðið svona vel - ég þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn," sagði Jansen er hann ávarpaði mannfjöldann í hátalarakerfi hallarinnar.

Systir Jansens, Jane, lést úr hvítblæði 14. febrúar 1988, daginn sem hann keppti í 500 m hlaupinu á Ólympíuleikunum í Calgary. Sá dagur markaði upphaf þess sem kallað hefur verið "ólympíu-álögin" á skautamanninn, því allar götur síðan hefur honum mistekist að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum, þó svo allir séu sammála um að hann sé sá besti. Jansen tárfelldi á verðlaunapallinum í gær og er síðustu tónar þjóðsöngsins hljómuðu leit hann upp og veifaði - til hinnar látnu systur. "Þegar mér gengur illa, hugsa ég mikið um hana," sagði hann, og bætti við að hann fyndi oft fyrir nálægð hennar.

Jansen segist varla verða með á næstu leikum, í Japan eftir fjögur ár, og þetta hafi því verið síðasti möguleikinn á að næla í ólympíuverðlaun. Nú væri gullpeningurinn í höfn og hann ætti að geta hengt skautana sína upp á vegg sáttur við ferilinn.

Þess má geta að tvívegis varð að gera stutt hlé á fundi Jansens með blaðamönnum eftir sigurinn, vegna þess að hann þurfti að svara símtölum; annað var frá Bill Clinton, Bandaríkjaforseta og hitt frá eiginkonu hans, Hillary.

Reuter

Dan Jansen fagnar eftir að hann kom í markið í gær við mikinn fögnuð áhorfenda. Þegar upp var staðið var tími Jansens sá besti, enda setti hann heimsmet.