Sinfóníutónleikar Tónlist Jón Ásgeirsson Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sl. fimmtudag voru flutt verk eftir tvo Mið-Evrópu snillinga, þá Weber og Schumann.

Sinfóníutónleikar Tónlist Jón Ásgeirsson Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sl. fimmtudag voru flutt verk eftir tvo Mið-Evrópu snillinga, þá Weber og Schumann. Einleikari var Einar Jóhannesson klarinettuleikari en stjórnandi Dietfried Bernet frá Vínarborg. Tónleikarnir hófust á forleiknum að Töfraskyttunum en með því verki markar Weber bæði upphaf rómantískrar óperu og þess sem kalla má þýska óperu, bæði vegna textans, sem er samstofna textum þýska söngleiksins (Singspiel) og tónlistarinnar, sem á þessum tíma var óvenjulega "dramatísk", tilfinningaþrungin en samt alþýðleg.

Forleikurinn var mjög vel fluttur og auðheyrt að þar var á ferðinni samspil kunnáttu og sterkra tilfinninga fyrir því leikræna í verkinu. Klarinettukonsertinn nr. 1 er sjaldnar fluttur en sá nr. 2 en bæði verkin eru samin um svipað leyti. Klarinettið var á þessum tíma nýtt hljóðfæri, sem ekki var fyllilega búið að staðla sem konserthljóðfæri og því má skilja, að fyrri konsertinn sé ekki stórbrotinn að gerð, þó Weber bregðist ekki "bogalistin" í að búa til fallegar tónlínur og gefa þeim viðeigandi hljómrými, eða hljóðtjöld, í samspili við önnur hljómfalleg hljóðfæri, eins og t.d. hornin.

Einar Jóhannesson lék konsertinn af glæsibrag og var miðþátturinn þó alveg sérleg vel leikinn. Sem aukalag lék Einar ásamt fimm strengjaleikurum, smálag eftir klarinettuleikarann Heinrich Josef Bärmann, sem frumflutti báða klarinettukonserta Webers. Þetta verk mun hafa verið gefið út undir nafni Richards Wagners, en fyrir nokkru var þessi höfundaruglingur útgefenda leiðréttur með sönnum og óhrekjanlegum hætti. Ljóðrænn leikmáti Einars naut sín vel í þessu látlausa en fallega verki.

Tónleikunum lauk með fyrstu sinfóníunni eftir Schumann og er hún sérlega skemmtileg fyrir hamingjusaman ákafa þess sem er að taka "flugið" og finnur lofttak vængjanna og það frelsi, sem sköpun hans gefur honum til tjá upphafnar og orðlausar tilfinningar sínar. Það sem vantaði á flutninginn, var sú stundvísi í tóntaki, einkum í 1. kaflanum, sem hljómsveitin hefur undanfarið haft vel á valdi sínu og einnig vantaði jafnvægi í hljóm, því "brassið" var á köflum einum of hljómsterkt. Þar er engum um að kenna nema hljómsveitarstjóranum, sem hljóp í skarðið fyrir þann sem hafði valið sér þessa sinfóníu. Hvað um það, þá var flutningur verksins þrunginn og átakamikill og gleði Schumanns var þarna nærri og þá ber margt að fyrirgefa.