Helga Þorsteinsdóttir - viðbót Að kvöldi 10. febrúar lést Helga amma mín á heimili sínu á Egilsbraut 12 í Þorlákshöfn. Ég vissi að amma hafði verið veik, en bjóst ekki við að hún myndi fara svona fljótt. Það er svo fjarri veruleikanum að manneskja sem maður elskar sé farin og að maður muni aldrei sjá hana aftur. Þó að ég vissi að bráðum væri tími hennar kominn áttaði ég mig ekki á hvað ég væri í rauninni að missa.

Þegar ég sest niður og hugsa um Helgu ömmu hef ég svo margt að þakka. Hún amma var alltaf svo dugleg og hjálpsöm. Hún hætti t.d. að vinna þegar ég fæddist og gekk mér í móðurstað til sex ára aldurs. Það var alltaf svo gott að koma til ömmu því hún tók alltaf jafn vel á móti manni. Amma hafði alltaf tíma fyrir alla og alltaf var hún boðin og búin ef hún var beðin einhverrar bónar. Þær eru margar og góðar stundirnar sem við áttum saman við spil eða söng. Oft hringdi amma og bauð okkur Sigurði frænda í mat þegar hún var búin að búa til uppáhaldsmatinn okkar. Amma hugsaði fyrir öllu. Hún barst ekki á um dagana og helgaði líf sitt fjölskyldu sinni og heimili.

Elsku afi, nú þegar amma er farin verðum við að hjálpast að og styrkja hvort annað. Við eigum góðar minningar um góða ömmu.

Með þessari bæn langar mig að kveðja elsku ömmu mína. Þessi bæn er aðeins lítið brot af öllu því sem hún amma mín kenndi mér.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðar kraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Þýð. S. Egilsson)

Drífa.