Jón Gissurarson á Víðimýrarseli orti þegar sólin náði að skína á bæinn í fyrsta sinn á þessu ári, en það var í kringum 20. janúar:
Vakna gleði, von og þrá
vinnst því margt í haginn.
Fegurð glæsta fæ að sjá
fyrsta sólardaginn.
Sigmundur Benediktsson komst í sólskinsskap er hann sá vísu Jóns og orti þegar:
Tímans hjólið valt í vil,
víkur njólubaginn,
færir bólum frið og yl
fyrsta sólardaginn.
Listfeng teglir landsins mynd,
ljóss af reglum hafin.
Geisla speglar glaðvær lind
gullnum dreglum vafin.
Jakob Pétursson Breiðumýri orti á sínum tíma:
Á Breiðumýri sést ei sól,
– svört er myrkradorra. –
Fjórar vikur fyrir jól
að fyrsta degi Þorra.
Og vísa Þorsteins Erlingssonar á alltaf við:
Á þig skíni endalaust
unaðssólin bjarta.
Vonargeislar vor og haust
vermi þig að hjarta.