UMRÆÐA um merkingar á innlendri framleiðslu er fagnaðarefni. Líkt og fram hefur komið í fréttaskýringum Stöðvar 2 er áhrifamáttur þess að sérmerkja vöru sem íslenska framleiðslu mjög sterkur. Neytendur eiga rétt á að vita hvaðan vara er upprunnin og þeir eiga að geta treyst því að notkun á fána eða fánalitum aðgreini innlenda og erlenda framleiðslu.
Formaður Sambands garðyrkjubænda hefur lengi bent á að það skorti reglur í íslensku lagaumhverfi fyrir þá sem vilja sérmerkja innlenda framleiðslu. Til að hægt sé að byggja upp traust neytenda þarf að sjálfsögðu að vera ljóst hvaða skilyrði vara þarf að uppfylla svo að hún teljist íslensk. Garðyrkjubændur, með sína fánarönd, hafa unnið þrekvirki í markaðsmálum. Með fánaröndinni hefur þeim ekki aðeins tekist að merkja innlenda gæðaframleiðslu sérstaklega, heldur er framleiðslan í sumum tilfellum merkt einstökum bændum. En þessu starfi er stöðugt ógnað.
Bændasamtök Íslands hafa unnið að undirbúningi upprunamerkinga á framleiðsluvörum bænda og afurðastöðva þeirra. Hugmyndin er að fá sérstakt leyfi forsætisráðuneytisins til að nota íslenska fánann á umbúðir íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. Fyrir liggja drög að reglum um hvernig megi nota merkið. Þar er kveðið á um hvernig eftirliti með notkun þess verði háttað og ekki síst hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að vara teljist íslensk. Matís ohf. hefur verið ráðgefandi fagaðili við undirbúning verksins. Gert er ráð fyrir að gera strangar kröfur til hráefna og vöru. Meðal annars þarf að huga að hreinleika, uppruna og mögulegri íblöndun. Notkun á fánanum á ætíð að vera hófsöm og vönduð því byggja þarf upp traust neytenda á slíkri merkingu.
Alþingismenn taki af skarið
Undirbúningur Bændasamtakanna að íslenskri upprunamerkingu hefur staðið lengi og mörgum bændum er farið að leiðast þófið. Þar veldur ekki eingöngu tímafrekur undirbúningur heldur einnig vinna forsætisráðuneytis og Alþingis. Breyta þarf fánalögum og setja sérstaka reglugerð, svo veita megi leyfi fyrir notkun íslenska fánans til að merkja íslenska framleiðslu, eins og Bændasamtökin hafa óskað eftir. Undirbúningur að því er hafinn hjá ráðuneytinu, en ekki hefur tekist að koma málinu í höfn. Því er þess farið á leit við nýja ríkisstjórn og forsætisráðherra að hraða þessari vinnu og veita þannig markaðssetningu á íslenskum landbúnaðarvörum mikilvægan stuðning. Endurbætur á fánalögum eru mikilvægt skref í þessu sambandi.Þó tími til kosninga sé stuttur og mörg erfið mál á dagskrá Alþingis, þá er þetta mál sem allir alþingismenn ættu að geta sameinast um. Aðgerðir til að styrkja undirstöður íslenskra atvinnuvega þurfa ekki að vera flóknar og kostnaðarsamar og vonast má til að góð sátt náist um þetta mál.
Höfundur er formaður Bændasamtaka Íslands.