Eftir Andra Karl
andri@mbl.is
ÞINGFESTING í máli því sem nefnt hefur verið skattahluti Baugsmálsins var eftir hádegið í gær í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þinghaldið var stutt og laggott. Lögð var fram krafa sakborninga um frávísun málsins og frestun til ritunar greinargerðar. Frestunin var samþykkt og heldur málið áfram 13. mars nk.
Málið er sem kunnugt er höfðað á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Kristínu systur hans, Tryggva Jónssyni, Baugi Group og fjölskyldu- og fjárfestingafélaginu Gaumi. Sakborningar voru allir mættir fyrir dómara en ekki kom til þess að þau tækju afstöðu til sakarefnisins.
Sakarefnið er meiriháttar brot gegn skattalögum á árunum 1998 til 2002. Málinu svipar til máls ákæruvaldsins á hendur athafnamanninum Jóni Ólafssyni en því var vísað frá héraðsdómi á þeim forsendum að búið væri að gera honum refsingu. Taldi dómurinn að álag á vantalda skattstofna yrði talið refsing í skilningi samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu.
Mál Jóns hefur ekki enn verið tekið fyrir efnislega hjá Hæstarétti og óvíst að svo verði.
Fordæmi fyrir hendi?
Rannsókn á bókhaldi og skattskilum Baugs hófst í nóvember 2003 og fékk Baugur afhenta endurálagningu frá ríkisskattstjóra fyrir árin 1998 til 2002 hinn 31. desember 2004. Baugur greiddi 142 milljónir króna í janúar 2005 vegna þessa.Jón Ásgeir og Kristín kærðu rannsókn málsins en höfðu ekki erindi sem erfiði. Dómarar bæði í héraði og Hæstarétti töldu kæruna of seint fram komna þar sem rannsókn málsins var lokið og dómsmeðferð að hefjast. Var málum þeirra því vísað frá.
Við þingfestingu málsins í gær var sett fram frávísunarkrafa. Við næsta þinghald verður svo lögð fram greinargerð þar sem krafan er tíunduð. Gera má ráð fyrir að í henni verði vísað til málsins á hendur Jóni Ólafssyni og einnig til þess hversu málið hefur dregist. Þá verður að teljast líklegt að einnig verði tekist á um hæfi Helga Magnúsar Gunnarssonar, saksóknara efnahagsbrota. Enn eitt Baugsmálið er því rétt að hefjast.