Daníel Freyr Atlason hugmyndasmiður: „Ég held að við séum almennt það flink hér á landi að við getum gert eitthvað gott úr þessu.“
Daníel Freyr Atlason hugmyndasmiður: „Ég held að við séum almennt það flink hér á landi að við getum gert eitthvað gott úr þessu.“ — Morgunblaðið/Heiddi
Samkeppni á auglýsingamarkaði mun sennilega harðna á næstu mánuðum en Daníel Freyr Atlason hugmyndasmiður lítur björtum augum á framtíðina þar sem hann telur að gæði auglýsinga eigi eftir að aukast.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@mbl.is

Því ódýrari sem hugmyndin er því betri þarf hún að vera til að ná í gegn,“ segir Daníel Freyr Atlason, hugmyndasmiður hjá Jónsson og Le'macks. „Það er alls ekki samhengi á milli þess hversu mikill peningur er í auglýsingunni og hversu góð hún er. Ég get nefnt Argentínu sem dæmi en eftir kreppu þar gerðu Argentínumenn allt í einu frábærar auglýsingar sem voru mjög ódýrar. Eins og ástandið er á Íslandi í dag eru ekki mörg fyrirtæki sem geta leyft sér að kaupa mjög dýrar auglýsingar. Núna verður þetta því virkilega krefjandi. Samkeppnin harðnar sem verður vonandi til þess að auglýsingar verða betri. Ég er því bjartsýnn á gæði hugmynda í auglýsingum á næstu mánuðum. Ég held að við séum almennt það flink hér á landi að við getum gert eitthvað gott úr þessu.“

Auglýsing þarf að vekja athygli

Aðspurður hvað hugmyndasmiður geri nákvæmlega segir Daníel að hann komi með einfaldar hugmyndir að lausnum við vandamálum. „Oft eru verkefnin mjög flókin. Það þarf að segja margt, sumt án þess að segja það, og á sama tíma fá almenning til að kaupa ákveðna vöru. Þetta þarf að gera á mjög skiljanlegan hátt. Það er ástæða fyrir því að sumar auglýsingar eru miklu betri en aðrar. Allt þarf að passa rétt saman og vekja athygli,“ segir Daníel og viðurkennir að eftir að hann geri auglýsingu hringi hann í alla vini sína og kanni hvort þeir kunni að meta hana. „Það sem einkennir góða hugmynd í þessum bransa er að hún sé keypt, framleidd innan fjárhagsáætlunar, komi skilaboðum til skila á jákvæðan hátt og veki athygli.“

Miklar kröfur

Daníel hefur starfað sem hugmyndasmiður í sjö ár en hann útskrifaðist úr auglýsingagerð frá London College of Communication. Hann segir ansi margt hafa breyst á þessum árum. „Mér finnst metnaðurinn vera mun meiri en hann var í byrjun. Það var líka orðið mun meira um peninga í bransanum en það hefur reyndar breyst núna. Það sem þótti dýr auglýsing árið 2001 var orðið að mjög ódýrri auglýsingu árið 2007.“

Daníel talar um að starfið geti verið ansi flókið á köflum. „Stundum líður mér eins og ég sé alltaf að fara í próf á morgun. Kröfurnar eru þannig því það er nauðsynlegt að vera alltaf ferskur og uppfullur af hugmyndum. Þegar ég á erfitt með að fá hugmyndir finnst mér oft best að gera eitthvað allt annað en oft er maður ekki svo heppinn því verkefnið þarf að klára. Þá stari ég bara þolinmóður út í loftið og bíð þar til eitthvað gerist.“